132. löggjafarþing — 38. fundur,  7. des. 2005.

Rannsóknir og nýting á auðlindum í jörðu.

288. mál
[23:37]
Hlusta

iðnaðarráðherra (Valgerður Sverrisdóttir) (F) (andsvar):

Hæstv. forseti. Mér var ekki kunnugt um að það væri hægt að flytja laumufrumvörp á hv. Alþingi. Það vill svo til að þau eru opinber og umræðan líka.

Hvað varðar hvaða virkjunarleyfi ég muni veita þá get ég ekki svarað því á þessari stundu enda gengur þetta mál ekki út á það hvaða virkjunarleyfi verði veitt heldur að það sé heimild til þess í lögum. Það er verið að uppfylla skilyrði raforkulaga með þessu frumvarpi þar sem vitnað er í lögin um rannsóknir og nýtingu á auðlindum í jörðu. Þetta hlýtur hv. þingmaður að vita.

Hvað varðar Húsavík þá getur vel verið að þar verði byggt álver eða annars staðar á Norðurlandi. Ég vona að svo verði en það er ekki útkljáð mál. Þar yrði væntanlega fyrst og fremst um jarðvarma að ræða sem nýttur yrði til þess hugsanlega álvers, en vel getur verið að notað yrði vatnsafl. Ég geri mér auðvitað grein fyrir því að með þessu frumvarpi er verið að veita mér sem ráðherra vald en það er bara þannig að framkvæmdarvaldið hefur vald og það er ekkert hafið yfir gagnrýni, það er alveg augljóst mál. Komi til þess að veitt verði rannsóknarleyfi með forgangi að nýtingarleyfi í tvö ár þá verður það að sjálfsögðu rætt í iðnaðarnefnd hv. Alþingis. Og þegar hv. þingmaður talar um lélegt frumvarp þá var þetta lélega frumvarp flutt af Samfylkingunni fyrir örfáum mánuðum síðan. (Gripið fram í: Við erum búin að fara yfir það.) Og hvað varðar einkavæðingu þá er ég stolt af þeirri einkavæðingu sem ég hef staðið fyrir, hún hefur öll heppnast gríðarlega vel. Hún hefur komið af stað þeirri orku sem er í íslensku samfélagi og aukið kaupmátt hins almenna borgara. Það er ekki spurning. Það er ekki meiningin að einkavæða Landsvirkjun eða Rarik en það er hins vegar von mín að það náist samkomulag um það sem allra fyrst að kaupa meðeigendur út úr Landsvirkjun og mér heyrist hv. þingmaður vera mér sammála um að það sé mikilvægt.