132. löggjafarþing — 39. fundur,  8. des. 2005.

Staðgreiðsla opinberra gjalda og virðisaukaskattur.

18. mál
[13:18]
Hlusta

Ögmundur Jónasson (Vg):

Hæstv. forseti. Ég kem fyrst og fremst til að lýsa ánægju minni með að þetta mál skuli verða að lögum. Fyrsti flutningsmaður að því nú er hv. þm. Sigurður Kári Kristjánsson en auk hans standa að málinu þingmenn úr öllum stjórnmálaflokkum þannig að þetta er þverpólitískt mál. Eins og fram kom hafði hv. þm. Einar K. Guðfinnsson, núverandi ráðherra, upphaflega lagt málið fram en það er eitt sem við gætum lært af þessu máli og það er nokkuð sem iðulega hendir þingmannamál, jafnvel þótt það sé byggt á þverpólitískri samstöðu, að þau verða oft afgangs. Ég held að þetta sé dæmi um mál sem hefur liðið fyrir það að við reynum að leysa það á síðustu metrunum.

Ég tek undir það sem fram kom hjá hv. þm. Lúðvíki Bergvinssyni, það var unnið vel að þessu máli í efnahags- og viðskiptanefnd. Þar hefur verið fullur vilji til að leiða málið til lykta áður. Í rauninni er það harmsefni að það skuli ekki hafa tekist fyrr því að þetta hefur farið mjög illa með marga einstaklinga en nú er málið sem betur fer að komast í höfn. Ég fagna því.