132. löggjafarþing — 39. fundur,  8. des. 2005.

Staðgreiðsla opinberra gjalda og virðisaukaskattur.

18. mál
[13:20]
Hlusta

Sigurður Kári Kristjánsson (S):

Frú forseti. Ég ætla ekki að halda langa ræðu um þetta mál en mér finnst samt ástæða til að leggja hér orð í belg. Það er svo sem búið að gera grein fyrir forsögu þessa máls sem upphaflega var lagt fram af hæstv. núverandi sjávarútvegsráðherra, Einari K. Guðfinnssyni, og síðan fékk ég það hlutverk að fylgja því eftir eftir að sá ágæti maður settist í ráðherrastól. Í þetta skipti, eins og áður, hafa þingmenn úr öllum stjórnmálaflokkum á Alþingi sameinast um það, þ.e. flutningsmenn frumvarpsins, að gera breytingar á núverandi löggjöf um staðgreiðslu opinberra gjalda og lögum um virðisaukaskatt. Við höfum séð í allt of langan tíma niðurstöður í dómsmálum sem varða þetta réttarsvið sem hafa verið alveg sérstaklega ósanngjarnar. Ástæða hefur verið til að bregðast við þeim niðurstöðum með breytingum á löggjöfinni. Ég fagna því verulega að slíkar tilraunir beri nú árangur.

Eins og fram hefur komið í umræðunni eru allir sammála um nauðsyn þess að gera breytingar á lögunum. Ég hef fundið það, ekki bara núna í vetur eftir að þetta mál kom fram, heldur á síðustu missirum að skattyfirvöld, lögmenn, aðilar í viðskiptalífinu og ekki síst dómarar hafa beðið um breytingar og bíða eftir breytingum á þessum lögum til að geta brugðist við þeim aðstæðum sem við erum hér að fjalla um og frumvarpið varðar með sanngjarnari hætti en gert hefur verið.

Ég minnist þess þegar þetta mál var til umræðu á sínum tíma að þá var varaþingmaður á þingi, Hilmar Gunnlaugsson, varaþingmaður Sjálfstæðisflokksins. Hann tók til máls um málið og rifjaði upp þegar hann sjálfur var dómari við Héraðsdóm Austurlands og fékk mál eins og þessi til meðferðar og lýsti því hvernig það hefði verið og hvernig dómarar horfðu á slík mál. Hann lýsti því að í sjálfu sér hefði það verið mjög sorglegt fyrir hann sem dómara að þurfa að komast að þeirri niðurstöðu sem hann komst að, einfaldlega vegna þess að lögin eru eins og þau eru, og voru þá eins og þau eru nú. Dómararnir verða að fara eftir lögunum en niðurstöðurnar eftir sem áður hafa verið ósanngjarnar í þessum málum. Það horfir nú til betri vegar þegar þetta frumvarp verður samþykkt sem lög héðan frá Alþingi.

Ég fagna því sérstaklega að hæstv. sjávarútvegsráðherra kemur hér í salinn þegar þetta mál er til meðferðar og vonandi verður þetta til þess að réttlætið nái fram að ganga. Það er nefnilega þannig að auðvitað viljum við virkt skatteftirlit og að menn skili sköttum sínum og skyldum eftir því sem vera ber en þetta mál snýst kannski fyrst og fremst um það að gefa því fólki sem verður fyrir áföllum, hvort sem það er af heilsufarsástæðum eða öðru, tækifæri til að rísa upp eftir að það verður fyrir áföllum í rekstri. Ég tel að þær breytingar og sá texti sem nú liggur fyrir gefi dómurum möguleika á að líta til slíkra þátta.

Ég tel að nefndin hafi unnið afskaplega vel í þessu máli. Ég þakka henni kærlega fyrir þá miklu og málefnalegu vinnu sem lögð hefur verið í málið, sérstaklega formanni nefndarinnar, hv. þm. Pétri H. Blöndal, og ekki síður fulltrúum minni hlutans í efnahags- og viðskiptanefnd. Ég held að sú lending sem hér hefur verið fundin og sú niðurstaða sem hv. þingmaður og formaður efnahags- og viðskiptanefndar hefur mælt fyrir sé afskaplega skynsamleg og vel unnin. Þar kemur skýrt fram, í texta breytingartillögunnar, að dómarar muni hafa tækifæri til að líta til þess við ákvörðun refsinga eða skatta ef málsbætur viðkomandi aðila sem í þessum málum standa eru miklar. Þetta tel ég ákaflega mikla réttarbót, fagna henni og þakka að lokum nefndinni fyrir að afgreiða málið og að gera það með svo miklum myndarbrag sem breytingartillögur og nefndarálit gefa til kynna.

Að svo búnu lýk ég máli mínu og vonast til þess að þetta frumvarp verði samþykkt sem lög frá Alþingi nú fyrir hlé.