132. löggjafarþing — 39. fundur,  8. des. 2005.

Ástand íslenska þorskstofnsins og veiðihorfur.

[13:51]
Hlusta

Guðjón Hjörleifsson (S):

Virðulegi forseti. Ég vil í upphafi þakka málshefjanda, hv. þm. Magnúsi Þór Hafsteinssyni, fyrir að taka þetta mál hér upp og jafnframt þakka ég hæstv. sjávarútvegsráðherra fyrir hans svör.

Það má öllum ljóst vera að uppbygging þorskstofnsins hefur ekki gengið sem skyldi sem eru töluverð vonbrigði á meðan stofn fjölmargra annarra fisktegunda hefur stækkað. Ef við skoðum söguna hefur á sl. 30 árum verið veitt umfram veiðiráðgjöf. Þetta gerðist mest á árunum 1974–1994 en síðustu 10 ár hefur ekki verið farið eins mikið fram úr veiðiráðgjöf. Með því að leggja af sóknardagakerfið og færa það yfir í krókaaflamarkskerfið hefur aflamarkskerfið orðið markvissara og veiðar á þorski munu að jafnaði vera nálægt núverandi aflareglu sem er 25% en oft hefur verið veitt allt að 30%.

Það er einnig mikilvægt fyrir Hafrannsóknastofnun að nálgast sjómanninn og hagsmunaaðila betur og ég fagna þeirri fundaherferð sem farin hefur verið um landið þar sem þessi mál eru rædd af hreinskilni og reynt að fá botn í ýmsa þætti.

Margir hafa rætt um áhrif loðnuveiða á þorskstofninn. Það er ljóst að þorskur hefur haft takmarkaðan aðgang að loðnu á undanförnum árum. Loðnan hefur haldið sig langt utan við íslenska landgrunnið og hegðunarmynstur hennar á undanförnum árum hefur breyst mikið. Því tel ég að nótaveiðar á loðnu hafi takmörkuð áhrif á þorskstofninn.

Virðulegi forseti. Það eru hins vegar skiptar skoðanir með áhrif flottrollsveiða á loðnu- og þorkstofninn. Hafrannsóknastofnun er komin með búnað til að mæla þessi áhrif og það er mikilvægt að niðurstöður þeirra rannsókna liggi fyrir svo fljótt sem verða má. Að því loknu þarf að taka ákvörðun um hvort leyfa eigi flottrollsveiðar á loðnu.

Flestir fiskstofnar okkar hafa verið að vaxa. Þorskurinn hefur átt erfitt uppdráttar um allan heim og ég tel að það eigi eftir að rannsaka marga þætti. Það er ágreiningur meðal fræðimanna um hvað sé að gerast í lífríkinu. Hvað hefur t.d. stækkandi hvalastofn mikil áhrif á þorskstofninn? Er nóg æti í sjónum? Hvað með veiðarfærarannsóknir? Er dánarvísitala þorsks vanmetin? Er eitthvað annað að gerast í lífríkinu sem við höfum ekki áttað okkur á þrátt fyrir miklar rannsóknir? Þorskstofninn er ekki að hrynja en það er spurning hvað það tekur langan tíma að byggja hann upp. Því er ánægjulegt að Hafrannsóknastofnun skuli fá 100 millj. í viðbót í starfsemi sína til að auka enn frekari rannsóknir og fjölga útgerðardögum á hafrannsóknaskipum (Forseti hringir.) sínum. Það er mjög mikilvægt í þessari stöðu.