132. löggjafarþing — 39. fundur,  8. des. 2005.

Tekjuskattur og eignarskattur.

326. mál
[14:06]
Hlusta

Frsm. efh.- og viðskn. (Pétur H. Blöndal) (S):

Frú forseti. Ég mæli fyrir nefndaráliti frá hv. efnahags- og viðskiptanefnd um frumvarp til laga um breytingu á lögum nr. 90/2003, um tekjuskatt og eignarskatt, með síðari breytingum. Nefndarálitið kemur fram á þskj. 544. Ég ætla ekki að lesa það sérstaklega en um er að ræða breytingu á tveimur atriðum, þ.e. hækkun á grunnfjárhæð sjómannaafsláttar í samræmi við hækkun persónuafsláttar sem ákveðin var haustið 2004 til þriggja ára og enn fremur breytingu á dagsetningu, hvenær miðað skuli við búsetu manna í þjóðskrá, frá 1. desember til 31. desember.

Við umfjöllun nefndarinnar kom fram að nauðsynlegt væri að taka á vandamálum sem koma upp varðandi álagningu eignarskatts, sem búið er að leggja niður, á fyrirtæki sem hafa annað rekstrarár og framtalsár en almanaksárið. Fram komu hugmyndir um lausn á þeim vanda sem nefndin flytur sem breytingartillögu. Greinargerð með því máli liggur fyrir á þskj. 544 og ég ætla ekki að lesa það frekar, frú forseti.

Nefndin leggur fram smávægilega breytingu á gildistöku þessa ákvæðis, þ.e. um dagsetninguna, 31. desember, þannig að það taki gildi 1. janúar 2006. Með hliðsjón af framangreindu leggur nefndin til að frumvarpið verði samþykkt með eftirfarandi breytingum sem fram koma í nefndarálitinu, þskj. 544. Þar kemur fram sú breyting sem gerð er á 2. gr. og varðar hún eignarskattsálagningu á fyrirtæki sem hafa annað rekstrarár en almanaksárið og síðan ákvæðið um að ákvæði 2. gr. öðlist gildi 1. janúar 2006.

Hv. þm. Ingibjörg Sólrún Gísladóttir og Lúðvík Bergvinsson voru fjarverandi við afgreiðslu málsins. Undir nefndarálitið rita hv. þm. Pétur H. Blöndal, Dagný Jónsdóttir, Birgir Ármannsson, Jóhanna Sigurðardóttir, Ásta Möller, Ögmundur Jónasson og Siv Friðleifsdóttir.