132. löggjafarþing — 39. fundur,  8. des. 2005.

Verslunaratvinna.

345. mál
[14:15]
Hlusta

Ögmundur Jónasson (Vg):

Hæstv. forseti. Samstaða er um það í efnahags- og viðskiptanefnd að standa að þessum lagabreytingum sem eru eins konar aðlögun að tilskipun frá Evrópusambandinu og á að gilda á hinu Evrópska efnahagssvæði. Það varð nokkur umræða um það í nefndinni hvaða hlutfall ætti að innheimta vegna sölu á listaverkum. Það sjónarmið kom fram í umræðunni, þó að það sé ekki að finna í nefndarálitinu, að eðlilegt væri að taka það mál til skoðunar í framtíðinni þótt niðurstaðan yrði sú sem raun ber nú vitni.

Ég kveð mér þó fyrst og fremst hljóðs til að ræða atriði sem er hv. formanni efnahags- og viðskiptanefndar hjartfólgið og hann gerði að umtalsefni hér, innheimtu gjalda fyrir aðra óskylda aðila. Mér finnst ekkert óeðlilegt við að ríkið hafi milligöngu um að innheimta þetta gjald sem er eins konar höfundarréttargjald til listamanna eða erfingja þeirra. Mér finnst ekkert óeðlilegt við það en því segi ég að þetta sé hv. þingmanni hugleikið að hann hefur oft orðað þetta varðandi innheimtu á stéttarfélagsgjöldum og þykist ég vita að hann sé að feta sig inn á þær slóðir í umræðunni. Það kemur fram í nefndaráliti að orðað hafi verið að mönnum þætti óeðlilegt að ríkið innheimti sem skatt fjármuni sem renna eiga til einkaaðila. Þótt það sé alveg rétt að það hafi verið orðað í nefndinni vil ég taka fram að það er ekki sjónarmið allra nefndarmanna.