132. löggjafarþing — 39. fundur,  8. des. 2005.

Olíugjald og kílómetragjald o.fl.

327. mál
[14:42]
Hlusta

Einar Oddur Kristjánsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Hér er á dagskrá mál sem við gætum kallað vitleysuna endalausu. Hún hefur verið hér í mjög mörg ár til umræðu. Mig langar til að spyrja hv. framsögumann efnahags- og viðskiptanefndar, hv. þm. Pétur Blöndal, hvort hann trúi því sjálfur að þetta gæti verið til bóta.

Ég held að öllum sé ljóst að hvað eftir annað hefur verið farið úr einni vitleysunni í aðra, menn steypa sér endalaust áfram. Alltaf verður málið flóknara og flóknara, rétt eins og hv. framsögumaður gat um sjálfur. Alltaf verða því villur og hættan við að svindlið aukist vex í sama hlutfalli. Ég ætla að biðja hv. þingmann, framsögumann efnahags- og viðskiptanefndar, að hugleiða það núna, rétt fyrir jólin þegar annir eru á þinginu, hvort ekki sé rétt að geyma þetta mál a.m.k. fram í janúar og gá hvort við getum ekki fengið einhverja til að fallast á að þetta er vonlaus skattheimtuaðferð.