132. löggjafarþing — 39. fundur,  8. des. 2005.

Olíugjald og kílómetragjald o.fl.

327. mál
[15:46]
Hlusta

Einar Oddur Kristjánsson (S):

Virðulegi forseti. Þetta mál á sér töluvert langan aðdraganda. Fyrst þegar ég kom nálægt málinu fyrir um tíu árum voru tildrögin þau að eftirlitsstofnun ESA hafði dæmt það kerfi ógilt sem hafði verið í gangi gagnvart þungaskattinum en inni í því var fólginn ákveðinn afsláttur fyrir lengri leiðir. Efnahags- og viðskiptanefnd reyndi þá að bregðast við með því að setja afsláttarkerfið inn í lögin, endirinn var sá að það var líka dæmt ógilt. Við lentum því í miklum bögglingi með þetta mál hvað eftir annað. Ég held að á þeim árum sem ég sat í efnahags- og viðskiptanefnd hafi í tvígang komið upp tillögur um að setja á þetta olíugjald og litunarmál og ég held og man það alveg greinilega að okkur tókst í tvö skipti að koma í veg fyrir það og eyðilögðum málið, meiri hlutinn í efnahags- og viðskiptanefnd. Ég hafði alltaf og hef enn þá mjög miklar efasemdir um olíugjaldið og litunina. Við sýndum fram á þá að hættan á misnotkuninni væri gríðarleg, enda hafa allar þær hrakspár sem við vorum með þá komið í ljós.

Virðulegi forseti. Skattheimta ríkissjóðs er hinn eðlilegasti hlutur. Ríkið verður að fá fjármuni til starfsemi sinnar hvort sem það er til rekstrar eða uppbyggingar og það má að sjálfsögðu leita margra leiða til skattheimtu. Menn hafa haft á orði í umræðum um skattheimtu að hún eigi að vera einföld og réttlát en í framkvæmdinni snýst þetta yfirleitt við. Þegar menn ætla að leita að réttlætinu hverfa menn frá einfaldleikanum og síðan er þetta orðið svo flókið að það verður mjög óréttlátt. Þannig er yfirleitt gangur mála í umræðum um skattheimtu.

Það sem liggur fyrir núna og menn hafa fengið reynslu af um litun á olíu er nákvæmlega það sem við sögðum fyrir um fyrir mörgum árum. Freisting borgaranna til að gerast lögbrjótar er allt of mikil og það er ekki vansalaust að reka slíka skattheimtu. Við getum ekki verið þekkt fyrir að gera það, við megum ekki gera það og verðum því að hverfa frá þessu. Og ég hef alltaf talað gegn olíugjaldinu.

Í sjálfu sér var það sjónarmið og er kannski sjónarmið enn þá og það sjónarmið á vissulega rétt á sér, eins og hv. þm. Kjartan Ólafsson kom inn á áðan, að borga eigi fyrir notkun á vegum, ég get alveg fallist á það í sjálfu sér. Frumvarpið, þessi breyting á lögunum er alls ekki í þá átt að þeir sem keyra mest fái þarna lækkun og þeir sem keyra minnst og nota vegina ekki fái hækkun. Það eru því ekki röksemdir fyrir breytingunni sem þarna er verið að gera. Ég held að það sé rétt sem hv. þm. Kjartan Ólafsson sagði áðan, við komumst ekkert hjá því að horfast í augu við að notkun á eldsneyti varðar umhverfið og skattheimtan verður að vera til staðar vegna þess að okkur ber að haga skattheimtunni þannig að nýting og notkun á jarðolíu verði þannig að hún sé sem hagkvæmust. Við megum ekki rugla fjárfestingunni í atvinnuvegunum eða hjá einstaklingum á einn né neinn hátt.

Ef það er niðurstaðan sem varð fyrir nokkru, að hverfa frá þungaskattinum og taka upp olíugjald þá er ég hjartanlega sammála hv. þm. Kjartani Ólafssyni. Við getum aldrei framkvæmt það nema með einu gjaldi, það er ógerningur. Það verður okkur til mikils vansa og mikillar háðungar því að það verður alltaf flóknara og erfiðara. Eftirlitið snýst upp í hreinan kjánaskap, það snýst upp í að vera eins og hjá Stasi, við náum aldrei utan um þetta, getum aldrei náð utan um þetta. Freisting einstaklingsins verður okkur ofviða.

Við erum því að framkvæma kerfi sem er okkur til vansa, mjög mikils vansa, og verður alltaf erfiðara og erfiðara eftir því sem lengra líður því að það koma ný og ný tilbrigði við þetta sama stef: Hvernig ætlum við að þykjast vera réttlát? Auðvitað getum við aldrei verið réttlát, við erum nú einu sinni í mannheimum.

Ég segi því enn og aftur eins og ég hef oft sagt í umræðum á undanförnum tíu árum um þessa hluti: Við getum ekki framkvæmt neitt kerfi nema vera nokkurn veginn viss um að það gangi eftir og að það sé ekki brotið. Reynslan er alveg ótvíræð gagnvart þessu kerfi sem núna er. Það misnota það allir sem geta og við vitum það, allir vita það. Eftirlitið er alveg vonlaust. Við gætum aukið eftirlitið, sett í það 10, 20, 30, 100, 200 manns, en það yrði alltaf sama vitleysan.

Ég endurtek því, virðulegi forseti, þær áskoranir sem ég hef látið áður koma fram um að við séum ekki hér í önnunum fyrir jólafrí að fjalla um þetta mál, heldur gefum okkur góðan tíma til að hugleiða ástæður okkar allar, fara í gegnum þetta og reyna af fremsta megni að gera okkur grein fyrir því að við höfum skyldum að gegna gagnvart skattheimtunni á Íslandi. Við getum ekki framkvæmt þetta svona. Við verðum að vera ábyrg gagnvart því sem við erum að gera í allri skattheimtu.

Ég ítreka því óskir mínar um að menn láti af þessari umræðu og reyni að nota útmánuðina til þess að gá hvort menn geti ekki séð það í hendi sér að svona skattheimta, þessi litun á olíu er hlutur sem þegar liggur fyrir að er vonlaus.