132. löggjafarþing — 39. fundur,  8. des. 2005.

Olíugjald og kílómetragjald o.fl.

327. mál
[16:23]
Hlusta

Ögmundur Jónasson (Vg):

Hæstv. forseti. Þar sem samkomulag hefur orðið um þinghaldið ætla ég ekki að lengja mál mitt. Til að halda mínum sjónarmiðum til haga í þessu máli vil ég þó taka undir það sem fram kom í máli hv. þm. Össurar Skarphéðinssonar að með ökurita er hægt að hafa áhrif á umferðina til góðs, með því að tengja ökuritann og gjaldtöku er hægt að nota það til stýringar til góðs.

En á því eru einnig miklir vankantar og miklar hættur og ég horfi til þeirra. Að því leyti tek ég undir með hv. þm. Pétri H. Blöndal að eftirlitsþjóðfélaginu á ekki að færa fleiri tæki til þess að fylgjast með borgurunum. Það veldur því að ég hef um það mikla fyrirvara að sú leið verði farin að setja ökurita í einkabíla því að slíkt má nota til að hafa eftirlit með borgurum landsins og ég tel nóg komið af slíku.

Ég tel að við getum gert greinarmun á almennum einkabílum annars vegar og tilteknum vinnuvélum hins vegar. Ég held að eðlilegt sé að styðja það að ökuritar verði settir í slík vinnutæki. En þegar kemur að einkabílnum hef ég um það miklar efasemdir og hef haldið þeim fram í umræðu í efnahags- og viðskiptanefnd þegar þessi mál hefur borið á góma.

En ég tek undir með hv. þingmanni, það er eðlilegt að við höldum þessari umræðu vakandi því að ég held að allir séu sammála um að kerfið er mjög erfitt viðfangs, það þarf að finna lausn sem dugir.