132. löggjafarþing — 39. fundur,  8. des. 2005.

Olíugjald og kílómetragjald o.fl.

327. mál
[16:27]
Hlusta

Ögmundur Jónasson (Vg) (andsvar):

Hæstv. forseti. Vandinn við að reisa skorður við vexti eftirlitssamfélagsins er einmitt sá að flest þau tæki sem notuð eru til að fylgjast með einstaklingunum eru jafnframt til góðs. Við nefndum símana, við nefndum ökuritana — ég tek undir með hv. þingmanni að þá er að sönnu hægt að nota til góðs, til að stýra umferð á umhverfisvænan hátt o.s.frv., ég tek undir þau sjónarmið.

En ef tæknilega er hægt að nota þessi tól til að fylgjast með borgurunum, þrátt fyrir alla fyrirvara sem menn hafa, þrátt fyrir öll þau höft sem menn setja á slíkt, þá er möguleikinn engu að síður til staðar. En það eru mótsagnir í þessari umræðu og við þurfum að taka hana.

Þegar verið er að fylgjast með fólki — í pössum er t.d. verið að taka það upp að setja þar inn alls kyns lífsýni o.s.frv. — þarf sá sem er heiðarlegur þá að óttast að fylgst sé með ferðum hans, hvort hann er í austurbæ eða vesturbæ, hvar hann er staddur eða hvert hann fer? Þarf heiðarlegur maður að óttast nokkuð varðandi eftirlit? Í rauninni væri hægt að svara þeirri spurningu neitandi. Hins vegar er það svo að þegar búið er að raða allri þessari mósaík saman hefur stóri bróðir fengið í hendurnar tæki til að fylgjast með einstaklingunum og til að misnota ef óprúttnir aðilar komast til valda. Við því viljum við, sem höfum efasemdir um m.a. þetta mál, vara. En ég hvet til áframhaldandi umræðu um þetta mál, hún er flókin en hún er mjög nauðsynleg.