132. löggjafarþing — 39. fundur,  8. des. 2005.

Ráðstöfun á söluandvirði Landssíma Íslands hf.

3. mál
[16:52]
Hlusta

Frsm. 2. minni hluta fjárln. (Helgi Hjörvar) (Sf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég vil lýsa eindreginni ánægju minni með svör hæstv. forsætisráðherra um að sá skilningur sé ekki uppi að fjárframlög til Sundabrautarinnar séu skilyrt ákveðinni leið heldur miði þau einfaldlega við þá útfærslu sem nú er uppi hjá Vegagerðinni og þá augljóst að samráðsferli við íbúana er opið og hægt að gera þær breytingar sem gera þarf til að mæta sjónarmiðum þeirra og ekki búið að taka neinar ákvarðanir áður en það samráðsferli hefst.

Ég tek undir með hæstv. forsætisráðherra að mikilvægt er að þessi brýna úrbót í vegamálum dragist ekki lengur en þegar er orðið og ekki síður þá sýn sem hann lýsir hér, að leggja eigi Sundabrautina alla leið. Ég held að það sé ákaflega mikilvægt, sem fram kemur hjá hæstv. forsætisráðherra, að hún sé lögð alla leið og farið verði í tvöföldun á Hvalfjarðargöngunum til þess að þetta sem eitt atvinnusvæði og m.a. eitt hafnarsvæði geti þroskast og þróast sem byggð með sem allra hagkvæmustum hætti.

Hvað veggjöldin varðar er auðvitað sjálfsagt að ræða þau og við í Samfylkingunni höfum út af fyrir sig ekki fyrir fram afstöðu gegn einkaframkvæmd ef hún reynist vera hagkvæmari en hin opinbera. Það hlýtur að vera hið eina skilyrði í því. Við hljótum hins vegar á næstu árum að líta til jafnræðis í veggjöldum með nýjum tæknilausnum eins og hér komu til umræðu við umfjöllun um síðasta mál á dagskrá um olíugjaldið. Að lokum ítreka ég ánægju mína og þakkir til hæstv. forsætisráðherra með þessi skýru svör.