132. löggjafarþing — 39. fundur,  8. des. 2005.

Ráðstöfun á söluandvirði Landssíma Íslands hf.

3. mál
[17:03]
Hlusta

Frsm. 3. minni hluta fjárln. (Jón Bjarnason) (Vg):

Frú forseti. Ég mæli hér fyrir nefndaráliti 3. minni hluta fjárlaganefndar en ég sit í fjárlaganefnd sem fulltrúi Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs.

Hér er verið að mæla fyrir og taka fyrir frumvarp til laga um ráðstöfun á söluandvirði Landssíma Íslands hf. við 2. umr. Í 1. gr. þeirra laga stendur, með leyfi forseta:

„Markmið laga þessara er að ráðstafa söluandvirði Landssíma Íslands hf. til að styrkja innviði íslensks samfélags án þess að raska stöðugleika í efnahagsmálum.“

Í upphafi vil ég taka það fram að við þingmenn Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs vorum þeirrar skoðunar og teljum enn að Landssími Íslands hefði áfram átt að vera þjóðareign og að þannig hefðum við styrkt innviði íslensks samfélags mest og best, með því að beita styrk Landssímans til að treysta og efla fjarskiptakerfið í landinu öllu. Landssíminn hefði áfram átt að vera þjónustustofnun þjóðarinnar sem ekki aðeins hefði skilað henni öflugri og góðri þjónustu á jafnréttisgrunni, heldur einnig skilað tekjum af rekstri sínum og arði inn í ríkissjóð. Þannig hefur þetta verið undanfarin ár og hefði getað orðið áfram ef þessi endaleysa og einkavæðingarárátta ríkisstjórnarinnar hefði ekki tekið Landssímann m.a. og sett hann í þær heljargreipar að einkavæða hann og selja eins og staðreyndin er nú. Frammi fyrir þeirri staðreynd er kannski hollt að velta aðeins fyrir sér einkavæðingarferli Landssímans, þeim svardögum sem gefnir voru við upphaf þess ferils.

En í aðdraganda hlutafélagavæðingar Pósts og síma árið 1996 er viðtal við þáverandi samgönguráðherra, Halldór Blöndal, í BSRB-tíðindum, 4. tbl. 8. árgangi 1995, með leyfi forseta:

„Póstur og sími er vel rekin stofnun, þjónustan ódýr og mjög vel er fylgst með á tæknisviðinu. Það er t.d. afar ánægjulegt að Ísland skuli vera fyrsta landið sem notar eingöngu stafrænt símakerfi og ég legg áherslu á að Póstur og sími er hluthafi í sæstrengnum milli Evrópu og Kanada, sem hefur opnað og mun í framtíðinni opna ótalda möguleika á fjarskiptasviðinu, þannig að við getum fylgst með þeirri þróun sem er í heiminum í dag.“

Frú forseti. Ég vitna hér í viðtal við hæstv. þáverandi samgönguráðherra, Halldór Blöndal, þegar var verið að ræða hlutafélagavæðingu Símans. Og í viðtalinu segir hæstv. ráðherra enn fremur:

„Á hinn bóginn geldur Póstur og sími óneitanlega þess í daglegum viðskiptum og markaðssetningu að vera opinber stofnun sem er rekin eftir fjárlögum. Póstur og sími getur t.d. ekki gerst hluthafi í hlutafélögum, þótt í smáu sé, nema slík ákvörðun hafi áður verið lögð fyrir Alþingi. Ákvarðanataka með þessum hætti er of þung í vöfum og samræmist ekki nútíma viðskiptaháttum. Þess vegna tel ég óhjákvæmilegt að breyta rekstrarformi Pósts og síma til þess að styrkja samkeppnisstöðu hans og“ — takið eftir — „starfsöryggi þess fólks sem þar vinnur. Ég legg áherslu á að í mínum huga kemur ekki annað til greina en að Póstur og sími verði áfram alfarið í eigu ríkisins.“

Þetta voru orð hæstv. þáverandi samgönguráðherra Halldórs Blöndals þegar nauðsynlegt þótti að hlutafélagavæða Símann svona til að aðlaga hann breyttum aðstæðum.

Það er athyglisvert að lesa þessa yfirlýsingu þáverandi hæstv. samgönguráðherra í ljósi þess að einmitt sami maður gegndi stöðu forseta Alþingis þegar allar þær fögru yfirlýsingar um að Síminn yrði áfram og alfarið í eigu þjóðarinnar voru þverbrotnar, þá sat hinn sami maður hér, þá sem forseti þingsins og stýrði þeirri vegferð.

Landssími Íslands er seldur og staðreyndin er sú að öryggi starfsfólks er í uppnámi, varð það reyndar strax við hlutafélagavæðinguna, en öryggi starfsfólks hefur aldrei verið minna hjá þessari stofnun en nú eftir að hann var seldur. Þannig að á þeim tíma þegar hæstv. samgönguráðherra sagði að til að tryggja starfsöryggi væri nauðsynlegt að breyta því í hlutafélag þá hefur það breyst í andstöðu sína. Ég held að það sé hollt að hafa þetta með í umræðunni, minnast þessara orða, þverbrotinna yfirlýsinga og svardaga. Því nákvæmlega sömu orð eru notuð í umræðunni um frumvarpið sem núna hefur verið lagt fram um einkavæðingu Ríkisútvarpsins — og er alveg furðulegt að Framsóknarflokkurinn skuli styðja það — á sama hátt og sagt var um Póst og síma á sínum tíma, til að aðlaga það nútímanum en yrði áfram alfarið í eigu ríkisins. Sama er sagt um hlutafélagavæðingu á Rarik, það þarf að einkavæða Rarik til að aðlaga það nýjum tíma, einnig um Landsvirkjun, Matvælastofnun, o.s.frv. Nákvæmlega sömu orð eru nú sögð og sögð voru í upphafi einkavæðingarferils Landssímans sem núna hefur verið seldur. Það er okkur öllum hollt, frú forseti, að hafa þetta í huga. En þessa umræðu eigum við eftir að taka enn betur þegar þessi frumvörp um einkavæðingu á Ríkisútvarpinu, Rarik, Landsvirkjun og Matvælastofnun koma hér inn í þingið til umræðu.

Ég hef sagt að Landssíminn hefði átt að vera þjóðareign áfram. Og þegar veitt var heimild á 126. löggjafarþingi til að selja allt hlutafé ríkisins í Landssíma Íslands hf. var þingflokkur Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs því andvígur og vildi að Landssíminn væri áfram í eigu þjóðarinnar. Í nefndaráliti undirritaðs um það mál segir:

„Fjarskiptaþjónusta er ein af grunnstoðum almannaþjónustu í landinu. Þessi þjónusta má ekki lúta þeim lögmálum markaðarins að arðsemiskrafa eiganda ein sé drifkraftur reksturs og þjónustu. Sjálfsagt er að gæta allra almennra hagkvæmni- og rekstrarsjónarmiða og gera kröfur um aukna þjónustu. Landssími Íslands á áfram að vera sameign þjóðarinnar og styrk hans á að nýta til hins ýtrasta til að byggja upp gott fjarskiptakerfi sem nær til allra landsmanna án mismununar í verði eða gæðum.“

Þetta sagði ég í nefndaráliti mínu þegar heimild til að selja Landssíma Íslands var veitt hér á Alþingi. Öll áform um sölu á Landssímanum voru afar umdeild í samfélaginu, svo vægt sé til orða tekið. Reyndar sýndu skoðanakannanir hvað eftir annað að mikill meiri hluti landsmanna var andvígur sölu Símans og grunnfjarskiptakerfis hans. Þannig lýsti 61% svarenda í Gallup-könnun andstöðu við söluna í mars árið 2002. Í könnun sem Félagsvísindastofnun Háskóla Íslands gerði í febrúar 2005, það er ekki langt síðan, frú forseti, af því að hv. þingmaður Magnús Stefánsson var að velta því fyrir sér, kváðust rúm 70% þeirra sem afstöðu tóku andvíg sölu grunnnetsins. Ekki er mikill munur á andstöðu fólks eftir því hvort það er búsett á höfuðborgarsvæðinu eða landsbyggðinni. 68% höfuðborgarbúa voru andvíg sölunni en 75% landsbyggðarfólks voru andvíg sölu Landssímans í febrúar árið 2005, í þeirri skoðanakönnun. Í þjóðarpúlsi Gallups, sem kynntur var í mars 2005, var meiri hluti aðspurðra andvígur sölu Símans og 76% aðspurðra í Gallup-könnuninni í mars árið 2005 voru andvíg því að selja grunnfjarskiptakerfi Símans. Þannig er ljóst að allan söluferil Símans hefur yfirgnæfandi meiri hluti þjóðarinnar verið andvígur sölu Símans og viljað að hann yrði áfram í þjóðareigu. Í samræmi við það fluttu þingmenn Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs tillögu til þingsályktunar um þjóðaratkvæðagreiðslu um sölu Símans. Sú tillaga fékkst ekki einu sinni tekin fyrir á Alþingi. Meira að segja, frú forseti, í skoðanakönnun Gallups frá því í ágúst síðastliðnum þegar salan hafði farið fram eða hafði verið ákveðin og loforðalistinn sem fylgdi ráðstöfun fjárins var kominn fram reyndist stærstur hluti aðspurðra þeirra sem afstöðu tóku vera áfram á móti sölunni og vildi að Síminn væri áfram þjóðareign, þrátt fyrir að loforðalistinn um ráðstöfun fjárins væri kominn fram.

Ákvörðun um sölu Landssímans einnar mikilvægustu almannaþjónustustofnunar þjóðarinnar er skýrt dæmi um mál sem átti að fara undir dóm þjóðarinnar í allsherjar þjóðaratkvæðagreiðslu. Að mínu viti hefur við ákvörðun á sölu Landssímans verið beitt hreinni valdníðslu gagnvart fyrirsjáanlegum vilja þjóðarinnar sem var sá að Landssíminn væri áfram í þjóðareign. (Gripið fram í.) Já, samkvæmt skoðanakönnunum.

Hæstv. samgönguráðherra má velta því fyrir sér hvernig salan blessunarlega klúðraðist (Gripið fram í: Blessunarlega?) á Landssímanum undir forustu hans þegar hann fór með söluferilinn. Þá hækkaði verðið á Landssímanum um nokkra tugi milljarða auk þess sem nokkrir milljarðar komu í ríkissjóð. (Gripið fram í: Ertu ekki ánægður með það, klúðrið?) Jú, ég var ánægður með að þetta skyldi klúðrast. Þetta er eitthvað viðkvæmnismál og þegar ég vitna til þessara skoðanakannana skil ég vel að þeim sem öxluðu hér ábyrgð og tróðu sölu Landssímans í gegn sé ekki rótt og þeir geti ekki hreykt sér hátt af aðgerðum sínum.

Síminn hafði ekki fyrr verið seldur en hinir nýju eigendur sýndu hvaða hug þeir báru til viðskiptavina sinna. Tveimur eða þremur dögum eftir að gengið hafði verið frá kaupsamningi var þjónustustöðinni á Blönduósi og Siglufirði lokað og svarstöðinni 118 á Ísafirði, allt í hagræðingarskyni, og uppsagnirnar látnar koma fyrirvaralaust og án samráðs við heimamenn, sem þó voru þeir sem áttu að njóta þjónustunnar. Þetta almannaþjónustufyrirtæki sem var ábyrgt og hafði einokunaraðstöðu við þjónustu á þessum svæðum taldi ekki einu sinni nauðsynlegt að ræða við heimafólk áður en gripið var til uppsagna og lokunar starfsstöðva.

Frú forseti. Við sölu Símans var sagt að kannað hafi verið hver hinn fjármálalegi áreiðanleiki kaupendanna væri. Ég hefði líka talið eðlilegt að siðferðislegur og þjónustulegur þáttur kaupendanna hefði verið tekinn út áður en þeim var afhentur Síminn með þessum hætti því framkoma þeirra á þessum stöðum, sem mun vafalaust halda áfram, því miður, sýnir hvernig fyrirtæki sem lýtur fyrst og fremst og eingöngu kröfu arðseminnar til eigenda sinna bregst við gagnvart þeim sem þeir eiga að þjóna.

Það styrkir ekki samkeppnishæfni atvinnulífsins á viðkomandi svæðum að nú þarf að bíða í nokkrar vikur eftir að fá lagt fyrir nýjum síma, eins og t.d. á Skagaströnd. Ég var þar fyrir viku. Þar var verið að stofna fyrirtæki og þurfti að fá færðan og lagðan síma. Búið var að bíða í meira en tvær vikur og enn höfðu þau ekki fengið svar um hvenær vænta mætti þeirrar þjónustu. Á meðan þjónustustöðin var á Blönduósi kom þetta strax. Með þessari afstöðu til þjónustunnar er því samkeppnishæfni atvinnulífsins á þessum svæðum stórlega skert.

Ég er með greinar og yfirlýsingar sveitarstjórnarmanna sem mótmæltu hagræðingaraðgerðum hinna nýju eigenda Símans nokkrum dögum eftir að salan hafði farið fram og kem að þeim á eftir. Skerðing á þjónustu einkavædds Síma í fákeppnisumhverfi eins og raun ber vitni víðast um land kemur þó flutningsmanni þessa nefndarálits ekki á óvart. Varað var við því allan tímann. Síðan kom loforðalistinn. Eftir að Síminn hafði verið seldur átti að reyna að kaupa sér vinsældir og frumvarpið sem við fjöllum um lýtur að því og ráðstöfun á söluandvirði Landssímans.

Ögmundur Jónasson fjallaði um þetta í grein í Morgunblaðinu 13. september sl. (Gripið fram í.) Ég held að þetta sé með betri greinum sem hv. formaður þingflokks Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs hefur skrifað, af því að hv. þm. Össur Skarphéðinsson kallar hér fram í, sem hefði átt að hugsa sig um tvisvar sem gamall Vestfirðingur áður en hann samþykkti að selja hlutafé Landssíma Íslands á sínum tíma. (Gripið fram í.)

En í grein hv. þm. Ögmundar Jónassonar stendur, með leyfi forseta:

„Ekki er hægt að áfellast þá fyrir að gleðjast, forsvarsmenn aðskiljanlegrar starfsemi sem eygja að fá hlutdeild í söluandvirði Símans. Málatilbúnaður ríkisstjórnarinnar í þessu samhengi er hins vegar ekki geðfelldur. Minnir á þegar reynt er að kaupa menn til fylgis við óvinsælar ákvarðanir. Sala Símans er nefnilega óvinsæl. Fólk skynjaði að þar væri ekki búhyggindum fyrir að fara. Ítrekað kom fram í skoðanakönnunum að yfirgnæfandi meiri hluti þjóðarinnar var andvígur sölunni, þótt Vinstri hreyfingin – grænt framboð væri eini stjórnmálaflokkurinn sem berðist gegn einkavæðingunni á öllum stigum ferlisins. Þegar þjóðin er hins vegar nú spurð hvort hún vilji styrkja geðfatlaða eða bæta vegasamgöngur, efla hag Árnastofnunar eða Landhelgisgæslunnar, þá svara menn því almennt að slíkum ráðstöfunum séu þeir fylgjandi. Þetta segir sig nánast sjálft. En á þetta reynir ríkisstjórnin að spila,“ segir Ögmundur Jónasson, formaður þingflokks Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs í grein í Morgunblaðinu 13. september sl., samanber meðfylgjandi fylgiskjal með nefndarálitinu.

Frumvarpi um ráðstöfun á söluandvirði Landssíma Íslands hf. sem var mælt fyrir á Alþingi 5. október sl. og vísað til fjárlaganefndar. Málið kom fyrst á dagskrá fjárlaganefndar 2. desember en þá komu fulltrúar forsætisráðuneytis á fund nefndarinnar til að skýra frumvarpið.

Þrátt fyrir beiðni mína fékkst frumvarpinu ekki vísað til umsagnar ýmissa aðila í samfélaginu eins og venja er til. Með hliðsjón af því hversu umdeild salan var hefði enn frekar átt að vanda til þeirrar vinnu fyrst menn vildu setja það í sjálfstætt frumvarp. Þá hefur komið í ljós að mjög skiptar skoðanir eru í samfélaginu á vali einstakra verkefna og forgangsröðun við ráðstöfun á þessu fé og jafnframt hvort með þessu einfalda lagafrumvarpi með hæpna stjórnsýslulega stöðu sé verið að taka ákvarðanir um framkvæmdir og tilhögun þeirra sem eðlilegra væri að taka annars staðar og að loknum vönduðum undirbúningi. Má þar nefna fjármagn í Sundabraut sem var til umræðu áðan. Sundabrautin er jú á vegáætlun og það er við gerð hennar og afgreiðslu á hverjum tíma sem tekin er endanleg ákvörðun um fjármagn til einstakra verkefna og á að gera það.

Hátæknisjúkrahús. Hvar hefur verið tekin pólitísk ákvörðun um byggingu hátæknisjúkrahúss og með hvaða hætti? Það er ágreiningur um það hvort þetta sé rétt forgangsröðun í heilbrigðiskerfinu. Hér fylgja einmitt með greinar frá ábyrgðaraðilum í heilbrigðisþjónustunni sem telja þetta ekki vera rétta forgangsröðun, að hana hefði allavega átt að skoða miklu nánar áður en menn settu þetta með þessum hætti fram í sérstöku frumvarpi.

Það er líka rétt að menn hafi hugfast að í 21. gr. fjárreiðulaga segir svo, með leyfi forseta:

„Þegar er Alþingi kemur saman að hausti skal fjármálaráðherra leggja fram frumvarp til fjárlaga sem nái yfir fjárreiður aðila í A-, B- og C-hluta á næsta fjárlagaári. Frumvarpið skal vera á rekstrargrunni sbr. 1. gr., en einnig skal gerð grein fyrir áætluðum sjóðshreyfingum. Þannig skal fyrir fram leitað heimilda til greiðslna úr ríkissjóði, eftirgjafar krafna og til að gera hvers konar samninga um fjárhagslegar skuldbindingar fyrir ríkissjóð og ríkisstofnanir.“

Þarna, og reyndar víðar í fjárreiðulögum, er skýrt kveðið á um að það er í raun í fjárlögum á hverjum tíma sem kveðið er á um fjármagn til einstakra stofnana og verkefna á vegum ríkisins.

Nærtækt er að benda á þingsályktun um vegáætlun sem samþykkt er af þinginu til nokkurra ára með sundurgreindum fjárupphæðum á einstakar framkvæmdir. Hún hefur hvað eftir annað verið skorin niður, breytt, enda er í fjárlögum ársins ákveðið hvert fjármagn fer til vegamála í heild sinni og hvernig það skiptist á einstaka verkefnaflokka. Eðlilegra hefði því verið og réttara þinglega að flutt væri þingsályktunartillaga en ekki lagafrumvarp sem fjallaði um ákveðna viljayfirlýsingu þingsins um hvernig þessi ráðstöfun fjár skyldi gerð því frumvarpið hefur enga aðra stjórnsýslulega stöðu en að vera viljayfirlýsing um að ákveðið sé gert, því ákvörðunin er tekin á fjárlögum á hverjum tíma. Svo einfalt er það.

Frú forseti. Hérna er líka verið að leggja til ráðstöfun fjár að nokkrum árum liðnum. Gott og vel. Það má vinna það sem viljayfirlýsingu en lagalegt gildi þess er afar takmarkað.

Frú forseti. Ég tel að Landssíminn hefði skilað mestum ábata ef hann hefði áfram verið í eigu almennings. Almannaþjónusta eins og fjarskipti er forsenda fyrir samkeppnishæfri búsetu og atvinnulífi um allt land. Síminn er tengdur inn á hvert heimili í landinu. Landssíminn hefur skilað milljörðum kr. í ríkissjóð á undanförnum árum. Enginn góður bóndi mundi selja bestu kúna úr fjósinu eins og ríkisstjórnin gerir með því að selja Landssíma Íslands. Nú verður sú fjarskiptaþjónusta sem ekki uppfyllir stífustu arðsemiskröfur fyrirtækis á fákeppnismarkaði að vera komin upp á náð sérstakra fjárveitinga ríkissjóðs, eins og við komum til með að ræða síðar í dag, að stofna sérstakan fjarskiptasjóð til að draga í land verstu ágalla í sölu Símans.

Þegar frá líður hygg ég að mörgum landshlutanum, sveitabæjunum og sjávarþorpunum þyki þeir verða afskiptir og hafðir útundan í fákeppni einkavæddra fjarskipta. Þar verða engar samfélagsskyldur eða tilfinningar með nærsamfélaginu. Þetta hafa íbúar Blönduóss, þar sem starfsmönnum starfsstöðvarinnar á Blönduósi var sagt upp fyrirvaralaust, Siglufjarðar og Ísafjarðar þegar fengið að reyna. Nú verður það krafan um hámarksarð fjármagnsins sem ein ræður för. Því miður.

Ég hef vísað til nefndarálits 2. minni hluta samgöngunefndar um frumvarp til laga um sölu ríkissjóðs á hlutafé í Landssíma Íslands hf. sem var flutt á 126. löggjafarþingi, sömuleiðis til frumvarps til laga sem við þingmenn Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs fluttum um frestun á sölu ríkissjóðs á hlutafé í Landssíma Íslands hf. á 131. löggjafarþingi og tillögu til þingsályktunar sem við þingmenn Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs fluttum um þjóðaratkvæðagreiðslu um sölu Landssímans á 131. löggjafarþingi.

Frú forseti. Þó gaman sé að leggja fram loforðalista eins og hér er gert um ráðstöfun á þessu fé til framkvæmda, sem flestar ef ekki allar eru hinar bestu framkvæmdir og allir vilja styðja, er skoðun mín sú að Landssími Íslands hefði betur þjónað íslensku þjóðinni með því að vera áfram í eigu hennar og þannig tryggt öflugt og gott fjarskiptakerfi og fjarskiptaþjónustu um allt land á jafnræðisgrunni og áfram skilað tekjum til ríkissjóðs sem hefðu getað staðið m.a. undir þeim verkefnum sem tíunduð eru í frumvarpinu um ráðstöfun á þessu fé. Ég vil árétta að ég tel að sala Símans sé ein vitlausasta einkavæðing núverandi ríkisstjórnar og er þó nokkuð langt til jafnað.

Meðfylgjandi í þessu nefndaráliti, frú forseti, eru greinar og yfirlýsingar um það sem breyst hefur síðan Landssíminn var einkavæddur. Fyrsta greinin, „Einkavæddur Landssími sýnir klærnar“, er um það þegar starfsmönnum á Blönduósi og Siglufirði var fyrirvaralaust sagt upp — þessu stóra fyrirtæki þótti nauðsynlegt að byrja hagræðinguna þar tveimur dögum eftir að Síminn var seldur. Bæjarstjórn Blönduósbæjar mótmælti þessu harðlega 28. september sl. í Morgunblaðinu.

Þar segir, með leyfi forseta:

„Bæjarstjórn Blönduósbæjar mótmælir harðlega þeirri ákvörðun nýrra eigenda Símans að leggja niður starfsstöðina á Blönduósi.“ — Athugið að þetta er tveim eða þrem dögum eftir að kaupverðið var greitt. „Það hefur sýnt sig að næg verkefni eru fyrir hendi á svæðinu í fjarskiptamálum og lýsir bæjarstjórn yfir áhyggjum með að þjónustustig Símans á svæðinu versni og uppfylli ekki þær kröfur sem nútímasamfélag gerir. Hún skorar því á stjórnendur Símans að ákvörðunin um lokun starfsstöðvarinnar verði endurskoðuð. Jafnframt vill bæjarstjórn benda á að einkavæðing ríkisfyrirtækja hefur komið hvað verst niður á störfum á landsbyggðinni og krefur stjórnvöld um tafarlausar aðgerðir í atvinnumálum á svæðinu í samvinnu við heimamenn.“

Þetta var yfirlýsing frá Blönduósbæ.

Frú forseti. Ég tel þetta vera alvörumál. Sams konar yfirlýsing er frá bæjarráði Siglufjarðar sem líka varð fyrir því að starfsstöð, þjónustustöð Símans — tæknimennirnir sem voru að fylgjast með, leggja nýjar lagnir, hafa eftirlit með fjarskiptakerfinu — var líka lokað og er nú Siglufjörður býsna afskiptur og langt að sækja þjónustu, a.m.k. í verstu veðrum eða þegar vetrarveður hindra eðlilegar samgöngur. Þetta voru staðirnir sem þurfti nauðsynlega að loka fyrst á.

Síðan kom Ísafjörður. Þar voru nokkrar konur sem höfðu það hlutverk að svara í síma 118, sex eða sjö, ég man ekki alveg nákvæmlega fjöldann. Þarna var næsta skrefið hjá hinum einkavædda Síma að hagræða, að segja þessu fólki upp.

Enda segir hv. þm. Einar Kristinn Guðfinnsson, sjávarútvegsráðherra og þingmaður Norðvesturkjördæmis, í viðtali við Bæjarins besta 28. október, með leyfi forseta:

„Ég heyrði þetta síðdegis í gær og varð hneykslaður, sár og reiður. Ég hafði samband við framkvæmdastjóra fyrirtækisins og skoraði á hana að taka þessa heimskulegu ákvörðun til baka“ — Þessar uppsagnir á Ísafirði. „Svo heimskuleg er þessi ákvörðun að mér datt helst í hug að hún hefði verið tekin á fundi hjá Vinstri grænum til þess eins að koma höggi á einkavæðingarferlið.“

Þetta segir ágætur þingmaður og núverandi hæstv. ráðherra, Einar Kristinn Guðfinnsson, í viðtali við Bæjarins besta 28. október:

„Ég hreinlega trúi því ekki að hún verði látin standa. Það vita allir að þjónustuver sem þessi eru til úti í heimi þar sem starfsemin fer fram utan borgarsamfélagsins þar sem kostnaðurinn er mestur. Því er stórfurðulegt að ákveða að leggja niður starfsemina á Ísafirði. Ef forsvarsmenn fyrirtækisins halda að það sé hagkvæmt, ættu þeir að fara út í heim og segja þeim sem þar reka fyrirtæki að þeir séu á villigötum.“

Frú forseti. Síðan er ítarlegar vitnað í ummæli hv. þm. og núverandi sjávarútvegsráðherra, Einars Kristins Guðfinnssonar, þar sem hann hneykslast á þessum aðgerðum nýeinkavædds Síma á Ísafirði. Og þetta er það sem stjórnarmeirihlutinn er af veikum mætti að reyna að hæla sér af.

En það er of seint að iðrast og þessir tilburðir hv. þm. Einars Kristins Guðfinnssonar og Kristins H. Gunnarssonar, sem einnig hneykslaðist á þessum fyrstu aðgerðum Símans í hagræðingarskyni í viðtali við Bæjarins besta, eru til lítils. Það er ekki hægt að taka það aftur sem gert hefur verið.

Frú forseti. Hérna er svo grein hv. þm. Ögmundar Jónassonar sem birtist í Morgunblaðinu 13. september um að ríkisstjórnin reyni að kaupa sér vinsældir með því að leggja fram þennan lista hér um ráðstöfun fjárins.

Einnig fylgja með greinar um ólíkar skoðanir á því hvort það sé rétt forgangsröðun að verja þessu fé til hátæknisjúkrahúss eða ekki. Hér er tilvitnun í Morgunblaðið frá 30. júlí 2005 þar sem bent er á hina löngu biðlista og hversu fáránlegt það sé að loka heilu deildum sjúkrahúsanna, m.a.s. háskólasjúkrahússins hér í Reykjavík, Landspítala – háskólasjúkrahúss, yfir hásumarið þó að biðlistar séu. Haldið þið að það bæti eitthvað rekstrarstöðuna í sjálfu sér þó að ný hús séu byggð? Morgunblaðið bendir einmitt á það í ritstjórnarpistli 30. júlí sl. að eitthvað sé að þegar menn loka sjúkrahúsunum með langa biðlista. Einnig er hér vitnað í lækna sem starfa í heilbrigðisþjónustunni þar sem þeir benda á að það hefði mátt velta fyrir sér annarri forgangsröðun.

Ég nefni þetta hér því að þetta frumvarp, sem menn eru hér að stæra sig af, var ekki sent út til umsagnar og hefði þó verið ærin ástæða til og nógur tími ef vilji hefði verið fyrir hendi.

Frú forseti. Einnig eru hér greinar sem hafa verið skrifaðar, m.a. af undirrituðum, um þá fáránlegu aðgerð að selja Landssímann og ég ætla að ljúka þessu nefndaráliti mínu með því að lesa hér grein sem birtist í Morgunblaðinu 8. september 2005, „Þjóðin vildi fá að eiga Landssímann“:

„Senn er Landssími Íslands allur. Almannaþjónustu, sem hefur verið í sameign þjóðarinnar og stolt hennar í hartnær 100 ár, hefur nú verið fórnað á altari einkavæðingar og markaðsbrasks. Allar skoðanakannanir sem gerðar hafa verið á undanförnum árum hafa sýnt að mikill meiri hluti þjóðarinnar var andvígur sölu Símans. Hefur sú andstaða vaxið frekar en hitt. Gallupkönnun í mars 2002 sýndi að 61% þjóðarinnar var afar andvígt sölu Landssímans“ — og alveg til loka þessa ferils hefur yfirgnæfandi meiri hluti þjóðarinnar verið andvígur sölu Landssímans í þeim skoðanakönnunum sem bæði Gallup og Félagsvísindastofnun hafa gert.

Stefna vinstri grænna hefur ávallt verið skýr í þessu máli: Grunnfjarskiptakerfið á að vera í sameign þjóðarinnar þannig að hægt sé að tryggja jafnrétti í verði og gæðum þessarar þjónustu um allt land. Það átti að beita styrk Landssímans til að koma upp fjarskiptakerfi um allt land, öflugu og góðu. Nú verður sú fjarskiptaþjónusta sem ekki uppfyllir stífustu arðsemiskröfur fyrirtækisins og markaðar að vera upp á náð sérstakrar fjárveitingar ríkisins komin.

Skoðanakönnun sýnir að meðal kjósenda Framsóknarflokksins, eða þeirra sem kusu Framsóknarflokkinn við síðustu kosningar, er yfirgnæfandi meiri hluti, milli 70 og 80%, á móti sölu Símans. Hvernig líður þeim nú þegar þeir horfa á félagshyggju síns gamla flokks týnda og tröllum gefna?

Við, þingmenn Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs, kröfðumst þjóðaratkvæðagreiðslu, það var ekki gert. Frú forseti. Ég óska og vona að nýir eigendur Landssímans standi undir þeirri ábyrgð sem þeim hefur verið falin, að veita öfluga og góða þjónustu um allt land. Ég vona að þeir sjái að sér í þeim efnum, frú forseti.