132. löggjafarþing — 39. fundur,  8. des. 2005.

Ráðstöfun á söluandvirði Landssíma Íslands hf.

3. mál
[17:45]
Hlusta

Guðjón A. Kristjánsson (Fl):

Hæstv. forseti. Við ræðum hér frumvarp ríkisstjórnarinnar um ráðstöfun á söluandvirði Símans. Eins og menn vita sjálfsagt höfðum við í Frjálslynda flokknum verulegar athugasemdir við að selja dreifikerfið með Símanum. Við töldum að dreifikerfið og útbreiðsla þess ætti að vera í sérfyrirtæki sem væri áfram í ríkiseigu og síðan væri fyrirtækjunum gert jafnt undir höfði við að keppa um þjónustuna en hefðu í raun og veru möguleika til að semja um aðgang að dreifikerfinu í eigu óháðs fyrirtækis. En sú varð ekki raunin og Síminn hefur verið seldur með öllu og ekki hægt að velta sér lengi upp úr þeirri umræðu. Þeirri stöðu verður sjálfsagt ekki breytt.

Hér er hins vegar um að ræða frumvarp um ráðstöfun þess fjármagns sem fékkst fyrir Símann að hluta til og um það er að segja að nánast öll þau verk sem upp eru talin eru út af fyrir sig ágæt og ekki ástæða til að mótmæla þeim sérstaklega. Á hinn bóginn höfum við séð, hæstv. forseti, ráðstafanir þessa fyrirtækis, núna Landssíma Íslands hf., sem við erum ekki par sáttir við, margir, á landsbyggðinni. Þar er hægt að nefna, sem hér hefur áður verið nefnt, að uppsagnir hafa komið til í þjónustuveri Símans á Ísafirði, sagt hefur verið upp fólki á Blönduósi og Siglufirði. Ég verð að segja alveg eins og er, hæstv. forseti, að mér finnst ekki mikil reisn yfir þessari hagræðingarstefnu hins nýja fyrirtækis. Ég vonast til að forsvarsmenn Símans eigi eftir að kynnast því í viðskiptum sínum á næstu mánuðum að landsbyggðarfólk er ekki alveg sátt við þetta nýstofnaða fyrirtæki. Ekki er víst að viðskiptamönnum þessa fyrirtækis fjölgi mikið á næstunni, a.m.k. ekki á landsbyggðinni. Ég hygg að margir hugsi sig tvisvar um þegar kemur að því að endurmeta það við hverja þeir vilja skipta í framtíðinni um símaþjónustu og aðra þjónustu. Ég held að forustumenn Landssímans mættu gjarnan huga að þessu. Það er ekki sama hvernig menn koma fram við rekstur fyrirtækja sinna. Það skiptir auðvitað verulega miklu máli á landsbyggðinni og það munar um þrjú eða fjögur störf við þjónustu í hinum ýmsu sveitarfélögum.

Ég vil víkja að einu, hæstv. forseti, og það er það sem m.a. kom fram í máli hæstv. forsætisráðherra áðan um gjaldtöku fyrir samgöngur á suðvesturhorninu, þ.e. áformin um Sundabraut og hugsanlega gjaldtöku á þeim vegum. Við höfum tjáð það mjög skýrt í Frjálslynda flokknum að við teljum engan veginn hægt að vera með tvenns konar gjaldtöku á þessum vegarspotta frá Reykjavík og norður fyrir Hvalfjörð þótt nýlagður verði í nýrri Sundabraut. Því hefði þurft að hugleiða það, ef menn virkilega setja stefnuna á að vera með sérstaka gjaldtöku á Sundabraut, að áður en að það yrði gert yrði auðvitað að klára að greiða algjörlega upp lánin sem Spölur tók varðandi þær framkvæmdir og afnema gjaldtökuna í Hvalfjarðargöngin. Ekki verða tekin gjöld bæði í Hvalfjarðargöngin og á Sundabrautina. Ég sé það ekki fyrir mér, hæstv. forseti.

Ég held að menn verði að skoða þetta í samhengi. Ég segi þetta vegna orða hæstv. forsætisráðherra áðan um að hugsanlega tækju menn lán, jafnvel til 30 ára, með gjaldtöku á Sundabraut. Ég held að það gangi alls ekki að taka gjald tvisvar á þessum vegarspotta. Þó er ég ekki þar með að taka neina afstöðu til þess eða hafna því að ekki sé hægt að fjármagna merkilegar og góðar vegasamgöngur með gjaldtöku svo framarlega sem menn eiga kost á annarri akstursleið. Það eiga menn vissulega því þótt ný Sundabraut verði lögð eiga menn kost á annarri akstursleið alveg eins og menn eiga kost á annarri akstursleið fyrir Hvalfjörð. Þetta vildi ég sagt hafa um þetta mál, hæstv. forseti.

Síðan hef ég nokkrar áhyggjur af því hvernig 6. gr. um fjarskiptasjóð er orðuð þar sem mér finnst vanta á að sérstaklega sé hugað að símaþjónustu við skip á fiskimiðum við landið. Í greinargerðinni er sérstaklega getið um GSM-kerfið og dreifingu stafræns sjónvarps um gervihnött o.s.frv. Það er vissulega til mikilla bóta. Í þriðja lagi er gert ráð fyrir öflugri uppbyggingu á háhraðatengingum og loks er talað um hinn sérstaka fjarskiptasjóð sem á að koma upp og við munum ræða hér síðar í dag. Ekki er hins vegar vikið sérstaklega að því að halda þurfi uppi góðri símaþjónustu við skip umhverfis landið. Við höfum heyrt fréttir af því að til standi til að leggja niður NMT-kerfið án þess að við vitum neitt um hvað kemur í staðinn. Mér finnst það ekki nægilega markað hér að tryggt sé að haldið verði uppi símaþjónustu við fiskimiðin og sjóðurinn hafi beinlínis það hlutverk. Það er eiginlega ekki talið upp hér og ekki heldur getið um það í greinargerðinni. Ég saknaði þess einnig þegar við vorum tala um fjarskiptasjóðinn að ekki væri nægjanlega kveðið á um í þá veru. Hugsanlega vilja menn túlka þetta mjög þröngt en ég held að við þurfum að varast það og því vek ég athygli á þessu máli hér, hæstv. forseti.

Hitt er algerlega ljóst, virðulegi forseti, að landsmenn bíða eftir bættum samgöngum. Það höfum við í Frjálslynda flokknum auðvitað gert okkur ljóst eins og fleiri þingmenn og við höfum flutt um það sérstakt þingmál hvernig við teljum að hraða ætti varanlegum samgöngubótum eins og við höfum kallað, þ.e. jarðgöngum og þverun fjarða og styttingu. Við teljum að gera eigi sérstaka framkvæmdaáætlun til 20 ára um markverðustu og nauðsynlegustu leiðirnar sem fara þurfi í. En ég held að enginn deili um það lengur að einhver besta lausnin í vegasamgöngum í okkar fjöllótta landi er jarðgangagerð, sem við höfum farið í á undanförnum árum og almennt er mjög mikil ánægja með samgöngur sem hafa verið leystar á þann hátt. Því miður búum við bæði við fjallvegi og eins vegi sem liggja um hættulegar hlíðar og skriður hér á landi og að því þarf virkilega að huga, þó það þar hafi vissulega verið gerð bragarbót á og nú síðast með jarðgöngum á Austfjörðum, annars vegar undir Almannaskarð og hins vegar með tengingu milli Fáskrúðsfjarðar og Reyðarfjarðar sem er hið besta mál.

Hæstv. forseti. Ég vil síðan benda á í lokin að vissulega hefði mátt víkja að stöðu aldraðra í landinu og hugsa fyrir því í þessu frumvarpi um ráðstöfun símafjárins. Ég hef hins vegar heyrt forustumenn ríkisstjórnarinnar segja að þó svo að þess sé ekki getið í þessum tillögum mundi sú ráðstöfun fjármuna sem hér hefur verið lögð til auðvelda það að hægt væri að taka fjármuni í málefni aldraðra eftir öðrum leiðum og þá hlýtur það að vera í fjárlögum. Vonandi verður svo á næstu árum.