132. löggjafarþing — 39. fundur,  8. des. 2005.

Ráðstöfun á söluandvirði Landssíma Íslands hf.

3. mál
[18:01]
Hlusta

Magnús Þór Hafsteinsson (Fl):

Virðulegur forseti. Ég hafði ekki hugsað mér að taka til máls við 2. umr. Ég var búinn að tjá mig um þetta mál við 1. umr. og ætlaði að láta það duga en ég hlustaði áðan á seinni hluta ræðu hæstv. forsætisráðherra. Því miður heyrði ég ekki fyrri hlutann, ég var upptekinn úti í bæ í útvarpsviðtali, en ég náði þó seinni hlutanum og heyrði að hæstv. forsætisráðherra talaði einmitt um margnefnda Sundabraut, lagningu hennar, fjármögnun og annað þess háttar. Þar kom hann inn á hluti sem mér þóttu nokkuð athyglisverðir og fréttnæmir. Hann talaði m.a. um að hér væri á ferðinni einkaframkvæmd og nefndi möguleikana á því að Hvalfjarðargöngin yrðu tvöfölduð og talaði um að skuldirnar sem eftir stæðu þar, eins og dæmið væri í dag, væru eitthvað á bilinu 4–4,5 milljarðar, ef ég heyrði rétt. Þetta eru mun lægri tölur en ég hélt að væru réttar, ég hélt að talan væri nær 5 milljörðum, en nóg um það.

Síðan sagði hæstv. forsætisráðherra eitthvað á þá leið að ef farið yrði í einkaframkvæmd værum við að tala um lánapakka upp á eina 15 milljarða, reikna ég með, en að það tæki 30 ár að greiða hann niður miðað við þau veggjöld sem eru á framkvæmdinni í dag. Mér finnst þetta stangast svolítið á við þær hugmyndir sem hæstv. samgönguráðherra nefndi um daginn þegar hann talaði um hina svokölluðu skuggagjaldaleið.

Ég spyr hæstv. forseta hvort hæstv. samgönguráðherra sé í húsinu.

(Forseti (SP): Já. Forseti getur látið athuga hvort hægt sé að sækja hæstv. samgönguráðherra í salinn.)

Virðulegur forseti. Ég vil fá að lýsa því yfir að þessi ummæli hæstv. forsætisráðherra valda mér nokkrum vonbrigðum. Hin svokallaða skuggagjaldaleið hugnast mér mjög vel, það sem ég hef heyrt af henni, eins og hæstv. samgönguráðherra lagði hana upp, þ.e. að frekar yrði lagt gjald á hvern bíl sem færi um þetta mannvirki og síðan mundi ríkissjóður borga í réttu hlutfalli við umferðina á hverjum tíma. Það yrði þá ekki beint veggjald eða tollur á vegfarendur eins og er í dag um Hvalfjarðargöng.

Hitt er svo annað sem veldur mér nokkrum óróa, það að hæstv. forsætisráðherra og formaður Framsóknarflokksins boðar að hér verði áfram tollamúr við norðanverðan Hvalfjörð næstu 30 árin. Þetta mun að sjálfsögðu hafa mjög neikvæð samkeppnisáhrif fyrir byggðirnar, ekki bara byggðirnar á Vesturlandi, heldur líka á Vestfjörðum, á vestanverðu Norðurlandi og áhrifanna mun að líkindum gæta langt norður í land, norður á Norðausturland. Þetta hlýtur að vera töluvert mikið umhugsunarefni fyrir íbúa í þeim landshluta, ég tala nú ekki um þegar við heyrum síðan í dag ávæning af því að hæstv. samgönguráðherra hafi talað um það í fjölmiðlum, sagt í viðtali við svæðisútvarp Ríkisútvarpsins á Austurlandi, a.m.k. var það auglýst hér syðra, að það ætti að fara út í að gera göng undir Lónsheiðina á Austurlandi. Það er væntanlega án veggjalda.

Ég held að yfirvöld, ríkisstjórnin, og við öll verðum að fara að hugleiða betur hvers konar stefnu við ætlum að taka varðandi veggjöld í framtíðinni. Getum við mismunað landshlutum á þennan hátt? Getum við í raun skert möguleika eins landshluta miðað við aðra landshluta með því að setja upp svona tollamúra? Ég held að þetta sé mjög mikið og alvarlegt umhugsunarefni. Ég er ekki fylgjandi því að við mismunum landshlutum á þennan hátt. Þetta hefur neikvæð áhrif fyrir okkur öll til lengri tíma.

Það sem mig langaði síðan til að koma inn á er einmitt þetta með Sundabrautina og lagningu hennar. Í dag komu fréttir af ummælum sem hæstv. samgönguráðherra hefur látið falla í viðtali við héraðsfréttablaðið Skessuhorn. Það er hægt að sjá það á vef Skessuhorns og þar er yfirskriftin: „Þrýstingur kominn á framkvæmdir við Sundabraut“. Komið hefur fram hugmynd frá sveitarfélögum á Vesturlandi að ef vandræðagangurinn og deilurnar með Sundabrautina og það hvernig fara eigi út í framkvæmdirnar fyrir Símapeningana ætla að halda áfram í Reykjavík verði byrjað á hinum enda framkvæmdarinnar, farið verði út í það að þvera Kollafjörð og leggja brautina um Álfsnes og Geldinganes að Gufunesi. Reykvíkingar virðast ekki geta orðið sáttir um það hvort fara eigi hina svokölluðu innri eða ytri leið. Gott og vel, en þá er haft eftir hæstv. samgönguráðherra í Skessuhorni — nú er hann kominn í salinn — með leyfi forseta:

„Sturla Böðvarsson, samgönguráðherra segir hringlandahátt í borgarstjórn Reykjavíkur setja þessa miklu framkvæmd í nokkra óvissu. Hann segir þessa óvissu koma nokkuð á óvart því borgarstjórn hafi á fundi 6. september fært til bókar fögnuð vegna þessarar ákvörðunar ríkisstjórnarinnar. Aðspurður hvort möguleiki sé að fara þá leið sem sveitarstjórnarmenn á Vesturlandi leggja til segir Sturla svo ekki vera. Slíkt sé ekki í myndinni nú. Hann telur tafir á verkinu frekar leiða til þess að fjármunir sem ætlaðir voru til málsins verði færðir annað enda víða þörf á framkvæmdum í samgöngumálum. Aðspurður segist Sturla hins vegar skilja áhyggjur Vestlendinga af stöðu málsins. Hún undirstriki hversu mikilvæg þessi framkvæmd sé og hún sé langt í frá einkamál Reykvíkinga. Því vonist hann til þess að niðurstaða í málinu fáist fljótlega.“

Þá langar mig til að spyrja hæstv. samgönguráðherra hvað hann eigi við með þessum orðum. Getur hann leyft sér, verði það samþykkt hér á hinu háa Alþingi að þessir peningar eigi að fara í Sundabrautina, að taka peningana á seinni tímapunkti og setja þá í eitthvað annað, og þá hvað?

Það væri fróðlegt að fá að heyra svolítið meira um þetta.

Að lokum vil ég enda ræðu mína á að lýsa því yfir að ég hafi orðið fyrir ákveðnum vonbrigðum með það að menn skuli ekki hafa viljað skoða þann möguleika að nota eitthvað af þessum Símapeningum einmitt til að greiða niður skuldina sem hvílir á Hvalfjarðargöngum. Þá væri hægt að aflétta gjaldskyldu þar fyrr en menn áætla í dag. Ég get ekki fallist á að það þurfi að tvöfalda göngin. Ég fer um þetta mannvirki á hverjum einasta degi. Það væri miklu frekar hægt að hagræða umferðinni í gegnum göngin, skipuleggja hana betur, beina þungaflutningum í gegnum göngin til að mynda á nóttinni og annað þess háttar í stað þess að tvöfalda þetta mannvirki með þeim afleiðingum að íbúar á Vesturlandi og Norðurlandi þurfa áfram að búa við tollheimtu.

Við skulum hafa það í huga og ekki gleyma því að þegar fyrirtæki eins og þetta er búið til, apparat eins og fyrirtækið er sem á göngin í dag, þá fer slíkt fyrirtæki að lifa sínu eigin lífi. Þetta er eins og dýr, og dýr hugsa alltaf um það hvernig þau geti framlengt líf sitt, ævi sína. Dýr fara að hugsa: Jú, ég ætla að stækka, ég ætla að tvöfalda mig, þá fæ ég að lifa lengur. Svo fer dýrið að hugsa um að það ætli að taka þátt í að fjármagna Sundabrautina því sað þá fái það að lifa aðeins lengur. Þannig heldur þetta áfram. Það að ráða yfir slíku mannvirki veitir mönnum ákveðin völd og stöðu í þjóðfélaginu. Þetta skapar náttúrlega þægileg störf fyrir þá sem vinna við mannvirkið en á hitt ber að líta að þetta hefur í för með sér neikvæð áhrif fyrir þá sem eru hvað háðastir notkun slíkra mannvirkja. Ég held að við ættum að hafa þetta í huga en ég hlakka síðan til, virðulegi forseti, að heyra nánar skýringar hæstv. samgönguráðherra á þeim ummælum sem fram komu í Skessuhorni.