132. löggjafarþing — 39. fundur,  8. des. 2005.

Olíugjald og kílómetragjald o.fl.

327. mál
[18:25]
Hlusta

fjármálaráðherra (Árni M. Mathiesen) (S) (um atkvæðagreiðslu):

Frú forseti. Ég held að óhætt sé að segja um þetta mál að það sé ansi flókið, reyndar hluti af stærra máli þar sem við höfum verið að sjá gríðarlega miklar breytingar. Komið hefur fram í umræðum að menn hafa misjafnar skoðanir á því hvaða áhrif þessar breytingar hafa haft. Hins vegar er ekki nema um það bil hálft ár liðið síðan breytingarnar tóku gildi en það líður hins vegar að því, hv. þingmaður, að flest atriði komi í ljós og því er komið að því að það verði skoðað nákvæmlega hvaða áhrif þessi breyting hefur haft og hvort þau markmið sem höfð voru uppi hafi náðst, hvort eitthvað hefur misfarist og annað sem þurfi að bæta. Þetta mál er eins og ég sagði hluti af stærra máli og þarf að skoðast í því samhengi.

Þetta vildi ég að kæmi fram, frú forseti, við atkvæðagreiðsluna.