132. löggjafarþing — 40. fundur,  9. des. 2005.

Örorka og velferð.

[10:38]
Hlusta

forsætisráðherra (Halldór Ásgrímsson) (F):

Frú forseti. Hv. þingmaður gerði að umtalsefni skýrslu sem nýlega hefur komið út um kjör öryrkja. Ég skal byrja á því að játa að þegar ég fletti þessari skýrslu kom ýmislegt í henni mér á óvart þannig að ég spurðist fyrir um það hver hefði orðið kaupmáttaraukning þessara bóta á undanförnum 10 árum. Ég fékk þau svör að sú aukning væri 59%, þ.e. verulega meiri en launavísitalan hefur breyst um. Ég kom fram með þessar upplýsingar og þá sagði aðilinn sem vann þessa skýrslu að hér væri annaðhvort um að ræða misskilning hjá forsætisráðherra eða þá að hann hefði fengið rangar upplýsingar. Ég lét aftur fara yfir þessi gögn og fékk nákvæmlega sömu svörin hjá þeim ágætu embættismönnum sem vinna að þessum málum.

Það náttúrlega gengur ekki að við þurfum að byggja umræðuna á einhverju stagli um þessa hluti. Það er mjög mikilvægt að fyrir liggi réttar upplýsingar um stöðu mála. Ég hef enga ástæðu til annars en að treysta þeim ágætu embættismönnum sem vinna að þessum málum á vegum ráðuneytanna og ég er mjög undrandi á þessum prófessor að vera ekki tilbúinn til að leiðrétta skýrslu sína.

En hvað um það, aðalatriðið er ekki skýrslan heldur staða mála. Hv. þingmaður spyr hvað ríkisstjórnin hyggist fyrir í þeim efnum. Ég hef átt ágætan fund með formanni Öryrkjabandalagsins og hann leggur áherslu á sömu hluti og fulltrúar aldraðra, þ.e. að breyta skattalegri meðferð bóta og draga úr tekjutengingum. Ríkisstjórnin hefur beitt sér fyrir margvíslegum umbótum á þessu sviði. Á árinu 2001 kom sérstakur tekjutryggingarauki, á árinu 2003 var dregið úr skerðingu vegna tekna, úr 67% í 45%, og á árinu 2004 komu aldurstengdar örorkubætur.

Nýlega var haldinn fundur með fulltrúum eldri borgara þar sem ákveðið var að hraða skýrslu vegna þeirra mála og hún kom út núna í nóvember. Næsti fundur með fulltrúum eldri borgara verður 21. desember. Okkur finnst sjálfsagt að fara yfir meginkröfur þessara aðila, þ.e. draga enn frekar úr tekjutengingum í sambandi við bætur, það eru aðalkröfur þeirra. Ríkisstjórnin hefur lagt áherslu á að auka atvinnuþátttöku með því að lækka skattprósentu. Nú kemur þetta ágæta fólk og biður um að atvinnuþátttaka þess verði aukin eða skilyrði sköpuð til að auka atvinnuþátttökuna. Mér finnst mikilvægt að líta á það. Sérstaklega á það við um öryrkja þar sem atvinnuþátttaka er lítil. Í nýlegu samkomulagi við aðila vinnumarkaðarins var ákveðið að fara í sérstakt samstarf milli fulltrúa lífeyrissjóða og stjórnvalda og aðila vinnumarkaðarins til þess að auka endurhæfingu og gera það mögulegt að þeir sem hafa orðið fyrir örorku geti tekið meiri þátt í atvinnulífinu í landinu. Það starf er að fara af stað.

Ég tel því að þessi mál séu í mjög eðlilegum farvegi en ég harma það að menn þurfi að vera að þrátta um það hver raunveruleg staða þessara mála sé í prósentum og tölum. Það ætti að geta legið fyrir. Þessi mál eru mjög viðkvæm og það er nauðsynlegt að huga ávallt að leiðréttingu þeirra en það er lágmark að mínu mati að menn geti verið sammála um staðreyndir málsins. Þess vegna hefur verið ákveðið að fá utanaðkomandi aðila til að fara yfir þetta enn á ný þannig að það geti verið á hreinu.