132. löggjafarþing — 40. fundur,  9. des. 2005.

Örorka og velferð.

[10:43]
Hlusta

Þuríður Backman (Vg):

Hæstv. forseti. Ég vil byrja á því að þakka hv. þm. Ingibjörgu Sólrúnu Gísladóttur fyrir að taka upp utandagskrárumræðu um nýútkomna skýrslu Stefáns Ólafssonar um örorku og velferð á Íslandi, skýrslu sem unnin var af Félagsvísindastofnun Háskóla Íslands.

Fyrr á þessu ári kom út önnur skýrsla sem heilbrigðis- og tryggingamálaráðuneytið gaf út, Fjölgun öryrkja á Íslandi – orsakir og afleiðingar, eins og hér hefur komið fram. Báðar þessar skýrslur gefa fullt tilefni til að vinna hratt og vel að stefnumótun, nýjum áherslum og úrbótum í málefnum öryrkja. Það verður að gerast með öryrkjum. Þrátt fyrir nokkrar kjarabætur yngri öryrkja og nýjan bótaflokk, þ.e. tekjutryggingarauka, er ljóst að brýn nauðsyn er á verulegum kjarabótum ef öryrkjar eiga ekki að verða öreigar þessa lands.

Skýrsla Stefáns Ólafssonar dregur fram það sem öryrkjar hafa bent á undanfarin ár. Kjör þeirra hafa versnað, sérstaklega þó undanfarin 10 ár. Skattbyrði einhleypra öryrkja hefur hækkað á þessu tímabili, frá 7,4% af heildartekjum þeirra að jafnaði í 17,1% á síðasta ári. Skattleysismörk hafa setið eftir. Þannig ættu skattleysismörk nú að vera rúmlega 102 þús. kr. ef þau hefðu fylgt verðlagi frá 1988 en eru rúmlega 75 þús. kr. Tekjutengingar eru óhóflegar og draga úr atvinnuþátttöku.

En það skiptir ekki höfuðmáli hvert viðmiðunarárið er því að staðreyndirnar tala sínu máli og það er ljóst að í tíð þessarar ríkisstjórnar hefur verið gengið mjög hart að kjörum bæði öryrkja og eldri borgara. Það er ekki hægt að framfleyta sér á tekjum sem eru langt undir framfærslumörkum. Fólk fer ekki í hungurverkfall eða hópast í kröfugöngur til að fá kjarabætur nema eitthvað mikið sé að. Í allri velferðinni á enginn að þurfa að svelta eða neita sér um nauðsynleg lyf. Velferðarkerfið á að tryggja afkomu og mannsæmandi lífsgæði. Það þarf ekki fleiri skýrslur, það þarf að vinna og það þarf að vinna að þessum málum með öryrkjum.