132. löggjafarþing — 40. fundur,  9. des. 2005.

Örorka og velferð.

[10:50]
Hlusta

Jóhanna Sigurðardóttir (Sf):

Frú forseti. Heildartekjur ríkissjóðs jukust á föstu verðlagi úr 425 millj. á dag á árinu 1995 í 838 millj. á dag á árinu 2005. Samt eru aldraðir, öryrkjar og atvinnulausir settir út í kuldann af þessari ríkisstjórn. Í tíð jafnaðarmanna á árunum 1988–1995 hækkuðu skattleysismörk í takt við neyslu- og launavísitölu. Nú þarf að hækka skattleysismörk úr 72 þús. kr. í 102–114 þús. kr. til að þau séu í samræmi við neyslu- og launavísitölu eins og fram kemur í línuriti sem ég er með frá fjármálaráðuneytinu. Hámarksörorkulífeyrir sem hlutfall af meðaltekjum allra framteljenda hefur aldrei verið hærri síðustu 20 ár en í tíð jafnaðarmanna á árinu 1993. Þegar hæstv. forsætisráðherra talar um 59% aukinn kaupmátt vísar hann aðeins til lítils hluta öryrkja og lífeyrisþega sem eru með hæstu samsettu bæturnar frá Tryggingastofnun ríkisins sem eru innan við eitt þúsund manns af um 30–40 þúsund lífeyrisþegum. Kaupmáttur þeirra hefur aðeins aukist um 30–40%.

Þegar dómstólar ráku stjórnvöld til að bæta lítillega kjör öryrkja fyrir nokkrum árum og þegar öryrkjar knúðu stjórnvöld í aðdraganda kosninga til að bæta lífeyri ungra öryrkja sviku stjórnvöld það að hluta og hirtu líka verulegan hluta kjarabótanna aftur í aukinni skattbyrði sem aukist hefur um 131% í tíð stjórnarflokkanna. Staðreyndin er sú að ráðherrarnir hafa allir verið á harðahlaupum síðustu 10 árin við að mylja undir þá sem mest hafa fyrir, ríkasta fólkið í landinu, á sama tíma og öryrkjar þurfa að sækja rétt sinn til dómstóla. Skýrsla Stefáns Ólafssonar er skilaboð til lífeyrisþega um hve atkvæðaréttur þeirra er dýrmætur, líka skilaboð til ráðherranna, hvers og eins, um að þeir eigi að skammast sín, klifra ofan úr fílabeinsturninum og reyna að komast í jarðsamband við kjör lífeyrisþega og lágtekjufólks í landinu.