132. löggjafarþing — 40. fundur,  9. des. 2005.

Örorka og velferð.

[10:52]
Hlusta

heilbrigðisráðherra (Jón Kristjánsson) (F):

Virðulegi forseti. Það er vissulega brýnt að ræða örorku og velferð á Íslandi og í vestrænum löndum. Það er vissulega brýnt að fara vandlega bæði yfir aðferðir og útreikninga sem menn nota til að komast að niðurstöðum og samanburði á þessu sviði.

Varðandi skýrslu þá sem hér er til umræðu endurtek ég það sem ég hef áður sagt, margt almennra atriða sem flokkast undir vangaveltur eða lýsingar á tilteknum hliðum örorkunnar er af hinu góða í þeim skilningi að það hvetur til almennrar umræðu um samfélagsmál. Það kemur hins vegar í ljós að mínum dómi þegar kafað er í talnaefnið, útreikninga og umfram allt útleggingar og ályktanir sem höfundur dregur, að þar set ég fyrirvara og vísa á bug tilteknum atriðum, eins og skýrt hefur komið fram í athugasemdum sem fjármála- og heilbrigðisráðuneytin hafa gert.

Menn geta á hinum pólitíska og flokkspólitíska vettvangi haldið því fram t.d. að fjölgun öryrkja sé ekki sérstakt vandamál en í þessu sambandi eru staðreyndir sem menn verða að horfa til, bæði fræðimenn og stjórnmálamenn. Þeir sem fengu örorkulífeyri áður en örorkumatið var gert læknisfræðilegt voru árið 1998 7.982, tveimur árum síðar 9.329, 2002 voru þeir 10.443, árið 2004 12.011 og í síðustu viku var fjöldi öryrkja 12.638. Í þessum tölum endurspeglast vandinn sem við stöndum frammi fyrir. Við stöndum frammi fyrir því að yngstu öryrkjarnir eru hér hlutfallslega fleiri en annars staðar á Norðurlöndum og við stöndum líka frammi fyrir því að fjöldi öryrkja mældur sem hlutfall af íbúafjölda á aldrinum 16–66 ára hefur vaxið úr 5,5% upp í 7% á nokkrum síðustu árum. Það er forgangsmál að snúa þessari þróun við og það ætti að vera hagsmunamál allra. Það er það sem við höfum hugsað okkur að gera með því að endurskipuleggja starfsendurhæfinguna og fara yfir tekjuskerðingarnar eins og forsætisráðherra kom að í ræðu sinni áðan.

Talað hefur verið um norrænt velferðarkerfi og ég er eindregið fylgjandi þeirri hugsun í norræna velferðarkerfinu að við sem skattgreiðendur tryggjum þeim (Forseti hringir.) bærilega afkomu sem höllum fæti standa.