132. löggjafarþing — 40. fundur,  9. des. 2005.

Örorka og velferð.

[10:59]
Hlusta

Sigurjón Þórðarson (Fl):

Frú forseti. Það er greinilega viðkvæm skýrsla sem menn ræða hér. Það er sorglegt að verða vitni að því að hæstv. ráðherrar hafi þá einu vörn að sverta skýrsluna í stað þess að ræða hana efnislega. Síðan heyrum við hér ræðu hjá hv. þm. Einari Oddi Kristjánssyni sem er eins og bjórauglýsing, „Best í heimi – Ísland“. Ég verð að segja að þetta er alvarlegt mál sem við ræðum hér. Það snýst um það hvernig stjórnvöld koma fram við þá sem eru verst settir í þjóðfélaginu. Hvernig gerum við það? Annars vegar með því að tryggja þeim framfærslu, og menn deila um hvort það sé nægjanlegt eða ekki, og hins vegar með því að tryggja þeim þátttöku í samfélaginu. Þar þarf að bæta úr.

Ég held að menn ættu að líta til þess þáttar einnig í skýrslunni hvernig tryggja eigi öryrkjum endurhæfingu, hvernig eigi að koma þeim aftur út á vinnumarkaðinn, enn fremur hvernig eigi að tryggja þeim atvinnuþátttöku. Ég tel það mjög mikilvægt. Menn ættu að geta litið til þess þáttar en deila ekki endalaust um prósentur og hvað hver og einn fær af kökunni.

Það er samt athyglisvert að bera viðtökur sem þessi skýrsla fékk saman við viðtökur sem önnur skýrsla fékk, skýrsla sem unnin var síðastliðið vor, um öryrkja. Þar var ekkert dregið í efa þó að upp úr kafinu hafi komið að í henni hafi eitt og annað verið rangfært.

Ég ætla að nota síðasta hluta ræðu minnar í að fara yfir samninginn sem var gerður í Þjóðmenningarhúsinu. Mér finnst til skammar að hann hafi ekki verið uppfylltur, sérstaklega í ljósi þess að ef við lítum á skýrsluna sjáum við að einungis 2 þús. kr. sitja eftir af þeim 25 þús. kr. sem samið var um að ungir öryrkjar fengju í sinn vasa. Mér finnst þetta mjög sérstakt, það er búið að draga svo úr þessum bótum með sköttum og öðru að ég tel (Forseti hringir.) til skammar að öryrkjar séu í dómsölum að sækja það að þessi samningur verði uppfylltur að fullu.