132. löggjafarþing — 40. fundur,  9. des. 2005.

Starfsmannaleigur.

366. mál
[11:07]
Hlusta

Frsm. félmn. (Siv Friðleifsdóttir) (F):

Virðulegur forseti. Ég flyt nefndarálit hv. félagsmálanefndar um frumvarp til laga um starfsmannaleigur á þskj. 521, 366. mál.

Nefndin hefur fjallað um málið og fengið á sinn fund fjölda gesta.

Þetta frumvarp felur í sér að nú eru sett í fyrsta sinn heildstæð lög um starfsemi starfsmannaleigna hér á landi.

(Forseti (SP): Forseti biður hv. þingmenn um að gefa hljóð ræðumanninum sem mælir fyrir nefndaráliti félagsmálanefndar.)

Aðdragandinn að þessu máli var þannig að hæstv. félagsmálaráðherra skipaði árið 2004 starfshóp til að skoða stöðu starfsmannaleigna á íslenskum markaði og vinnuumhverfi þeirra. Í þessum starfshópi áttu sæti fulltrúar frá ASÍ, SA og félagsmálaráðuneytinu. Það er skemmst frá því að segja að samstaða náðist um að sett yrðu sérlög um starfsmannaleigur og gerðu fulltrúar aðila samkomulag um þau atriði sem koma fram í þessu frumvarpi sem við höfum verið að fjalla um í félagsmálanefnd. Þetta samkomulag náðist 15. nóvember sl. og var ein af forsendum þess að ekki kom til uppsagnar kjarasamninga á almennum vinnumarkaði.

Þá má segja að eiginlega séu tvær meginstoðir í frumvarpinu, þ.e. frumvarpið á að stuðla að því að hér verði ekki um félagsleg undirboð að ræða á íslenskum vinnumarkaði þannig að erlendir starfsmenn komi hingað til lands og starfi á lakari kjörum en gengur og gerist. Svo er líka lögð mikil áhersla á að við takmörkum möguleika á óheilbrigðri samkeppni þannig að þau fyrirtæki sem standa sig vel og halda öll lög varðandi kjör búi ekki við skert starfsumhverfi. Með þessu frumvarpi er bæði verið að passa upp á launamennina og fyrirtækin.

Virðulegur forseti. Á fundum félagsmálanefndar var rætt um skilgreiningu hugtaksins „starfsmannaleiga“ og í einstaka umsögnum kom fram gagnrýni á það hvernig hugtakið er skilgreint í 2. mgr. 1. gr. frumvarpsins. Til að taka af öll tvímæli þar um skal tekið fram að það er hvorki ætlun löggjafans að lögin nái til þess þegar um tilfallandi lán á starfsmönnum er að ræða né verktakasamninga. Fram komu ábendingar um þetta m.a. frá fulltrúum SA, Samtaka atvinnulífsins, og ég vil taka það fram, fyrst maður er nú að vitna í aðila vinnumarkaðarins, að nefndin átti mjög gott samstarf við aðila vinnumarkaðarins við vinnslu þessa máls, þ.e. Magnús Norðdahl frá ASÍ og Hrafnhildi Stefánsdóttur frá SA, en auk þess kom á fund nefndarinnar Grétar Þorsteinsson, forseti ASÍ.

Það var talsvert mikið rætt um aðgengi upplýsinga á fundum nefndarinnar og því ætla ég að gera því nokkur skil hér við yfirferð þessa nefndarálits. Ákvæði 9. gr. laga nr. 80/1938, um stéttarfélög og vinnudeilur, heldur vitanlega gildi sínu en ákvæðið fjallar um störf trúnaðarmanna stéttarfélaga. Sama gildir um ákvæði kjarasamninga sem fjalla nánar um efnið. Skal trúnaðarmaður m.a. gæta þess að gerðir vinnusamningar séu haldnir af atvinnurekanda og fulltrúum hans. Þá er í gildi samkomulag ASÍ og SA um útlendinga á íslenskum vinnumarkaði — ég bendi á að það samkomulag er viðhengi við nefndarálit félagsmálanefndar — en það kveður á um rétt trúnaðarmanna til að yfirfara gögn um laun og önnur starfskjör þeirra erlendu starfsmanna sem kjarasamningur tekur til. Jafnframt var sett á fót sérstök samráðsnefnd sem getur krafist nauðsynlegra gagna frá vinnuveitanda um laun eða önnur starfskjör þeirra erlendu starfsmanna sem mál varðar. Samkomulagi þessu var veitt almennt gildi með 2. gr. laga nr. 55/1980, um starfskjör launafólks og skyldutryggingu lífeyrisréttinda, sbr. lög nr. 145/2004. Fram kom hjá fulltrúum ASÍ og SA í félagsmálanefnd að samkvæmt því gætu trúnaðarmenn, eða fulltrúi viðkomandi stéttarfélags ef trúnaðarmaður er ekki fyrir hendi, krafið starfsmannaleigur um að fá að yfirfara gögn til að sannreyna að kaup og kjör starfsfólks starfsmannaleigna væru í samræmi við kjarasamninga. Takist trúnaðarmönnum ekki að leysa þann ágreining sem kann að rísa um kjör einstakra starfsmanna er unnt að vísa málinu til umræddrar nefndar.

Samkvæmt 10. gr. frumvarpsins skal starfsmannaleiga veita Vinnumálastofnun þær upplýsingar sem stofnunin telur nauðsynlegar til að fylgjast með framkvæmd laganna. Í frumvarpinu er kveðið nánar á um hvaða upplýsingar hér er um að ræða. Í 10. gr. er ákvæði sem verður virkt ef rökstuddur grunur vaknar um að brotið sé gegn réttindum launafólks og það er alveg ljóst að nefndin lítur svo á að þessu kerfi sé ekki ætlað að hafa áhrif á þær heimildir sem verkalýðshreyfingin hefur nú þegar til að fylgjast með að kjarasamningum sé fylgt eftir. Telur nefndin mikilvægt að Vinnumálastofnun sé áfram í nánu samstarfi við aðila vinnumarkaðarins en helstu samtök þeirra eiga fulltrúa í stjórn stofnunarinnar. Nefndin leggur þannig áherslu á að því vinnumarkaðskerfi sem hefur verið í þróun á síðustu áratugum verði viðhaldið og lítur nefndin svo á að frumvarp þetta feli í sér ákveðið frávik frá þeim meginreglum sem gilda. Frumvarpið breytir ekki eftirlitshlutverki aðila vinnumarkaðarins en kemur því til stuðnings, m.a. ef vinnuveitendur sinna ekki upplýsingagjöf gagnvart þeim. Frumvarpinu er þannig ætlað að vera til stuðnings gildandi kerfi að því er starfsmannaleigur varðar. Er mikilvægt að draga þetta sérstaklega fram hér vegna þess að í nefndinni var mikil umræða um aðgang m.a. stéttarfélaga að upplýsingum um kaup og kjör. Það sem nú hefur verið við lýði heldur að sjálfsögðu fullu gildi — við höfum stundum kallað það axlabönd í nefndinni — en svo koma því til viðbótar heimildir Vinnumálastofnunar til að krefja starfsmannaleigur um upplýsingar ef grunur leikur á broti. Við höfum stundum kallað það belti í nefndinni þannig að það eru belti og axlabönd. Það er ekki þannig að verið sé að veikja hér aðgengi að upplýsingum, alls ekki.

Virðulegur forseti. Við ræddum líka talsvert um notendafyrirtækjaábyrgð í nefndinni, en hugsunin með frumvarpinu er þannig að starfsmannaleiga er vinnuveitandinn og ber ábyrgð á kjörum starfsfólksins sem það leigir út en notendafyrirtækið ber ábyrgð á vinnuverndinni á staðnum þar sem viðkomandi starfsmaður er að vinna dagsdaglega. Það kom fram í nefndinni að ASÍ hafði talið æskilegt — og það var ein af kröfum ASÍ á fyrri stigum — að notendafyrirtæki bæri einnig ábyrgð á kaupi og kjörum. Það er ekki inni í þessu frumvarpi.

Það kom í ljós í umræðum í nefndinni að það hafði skipt mjög miklu máli í því samkomulagi sem ASÍ og SA gerðu, að í hinum nýju lögum eða í því kerfi sem við vorum að taka upp varðandi starfsmannaleigurnar fær Vinnumálastofnun gríðarlega miklar heimildir sem Vinnumálastofnun hefur ekki í dag. Þær heimildir felast í því að vakni grunur um brot þannig að starfsmenn njóti ekki eðlilegra kjara getur Vinnumálastofnun krafið starfsmannaleiguna um upplýsingar ráðningarsamninga, upplýsingar um kaup og kjör og krafist úrbóta með ákveðnum fyrirvara.

Ef starfsmannaleigan bætir ekki úr eins og Vinnumálastofnun hefur krafist getur Vinnumálastofnun með lögregluvaldi stöðvað starfsemina, sem eru auðvitað miklar heimildir. Það var alveg ljóst í umræðunum í nefndinni að þetta hafði talsverð áhrif á ASÍ, þ.e. að Vinnumálastofnun fékk þessar miklu valdheimildir til að stöðva starfsemi ef starfsmannaleigur höfðu ekki staðið sig í því að greiða starfsmönnum sínum eðlileg laun. Ég vildi draga þetta sérstaklega hér fram, virðulegur forseti, af því að ábyrgð notendafyrirtækja var að sjálfsögðu talsvert mikið rædd í nefndinni.

Í nefndinni fóru einnig fram umræður um hvort ákvæði í frumvarpinu, m.a. 3. gr. um að starfsmannaleigur skyldu hafa fulltrúa hér á landi, hvort það ákvæði stæðist EES-samninginn og hvort þetta væri of íþyngjandi fyrir fyrirtækin. Við skoðuðum það sérstaklega og við teljum að ákvæðið um að allar starfsmannaleigur skuli hafa fulltrúa staðsetta hér á landi samræmist EES-samningnum enda er það ákvæði sett inn í þágu almannaheilla og þjónar lögmætu markmiði. Reglan um að öll fyrirtæki óháð staðfestu skuli hafa fulltrúa verður að teljast hófleg miðað við tilefnið og hindrar ekki aðgang að markaðnum. Í þessu sambandi var sérstaklega dregið fram að ákvæði EES-samningsins gefa svigrúm vegna þess að hér er um sérstaklega viðkvæma starfsemi að ræða. Við erum að fjalla um fólk sem vinnuafl en ekki um bíla, þannig að það er svigrúm til að verja fólk sérstaklega í þessu sambandi og það er skoðun okkar að þetta ákvæði brjóti ekki EES-samninginn.

Það var talsverð umræða í nefndinni um vinnuverndarmál og skattamál. Þar kom fram að eðlilegt væri að taka til skoðunar vinnuverndarmál og skattamál er lúta að starfsmönnum starfsmannaleigna og nefndin beinir því til viðkomandi ráðherra að skoða þau mál með heildstæðum hætti í þeim lögum sem um þá málaflokka fjalla.

Svo að ég minnist aðeins á skattamálin þá er alveg ljóst að skattaréttur er ekki það sama og vinnuréttur. Þetta var atriði sem við skoðuðum sérstaklega vegna þess að hér hefur yfirskattanefnd úrskurðað varðandi ábyrgð notendafyrirtækis á skattskilum en það er líka augljóst að það er ekki hægt að setja samasemmerki á milli skattaréttar og vinnuréttar, en okkur þykir eigi að síður mikilvægt að skattamálin séu skoðuð og sömuleiðis vinnuverndin, með heildstæðum hætti gagnvart þessum starfsmönnum.

Virðulegi forseti. Varðandi þær upplýsingar sem eru í frumvarpinu um kostnað sem mun falla á Vinnumálastofnun verði þetta frumvarp að lögum, fengum við þær upplýsingar að sá kostnaður yrði líklega um 12–15 millj. kr. árlega fyrir stofnunina auk stofnkostnaðar vegna búnaðar, þ.e., tölvur og þróun tölvukerfa. Vinnumálastofnun telur þar af leiðandi að hún þurfi 12–15 millj. kr. plús stofnkostnað, verði frumvarpið að lögum. Fulltrúi félagsmálaráðuneytisins kom því á framfæri að ráðuneytið hefði nýlega farið yfir kostnaðaráhrifin með Vinnumálastofnun og teldi vera svigrúm til þess að mæta aukakostnaði innan núverandi fjárheimilda stofnunarinnar þar sem atvinnuleysi hefur minnkað talsvert að undanförnu og þar með umsvif Vinnumálastofnunar, ráðuneytið teldi því ekki þörf á viðbótarfjármagni að svo stöddu.

Nefndin telur að starfsemi Vinnumálastofnunar sé mjög mikilvæg í þessu nýja lagaumhverfi, sem væntanlega mun verða samþykkt. Það er alveg ljóst að það verður talsvert mikið vinnuálag á Vinnumálastofnun, líklega mest fyrst um sinn, en eftirlitshlutverk stofnunarinnar er kannski eitt af því mikilvægasta sem lögin fela í sér.

Við segjum því í nefndaráliti okkar, með leyfi forseta:

„Nefndin telur að Vinnumálastofnun muni gegna mikilvægu hlutverki verði frumvarpið að lögum og telur því mikilvægt að ef í ljós kemur að kostnaðaráhrif vegna nýrra laga um starfsmannaleigur rúmast ekki innan fjárhagsramma stofnunarinnar verði það mál skoðað sérstaklega.“

Virðulegi forseti. Mér finnst frekar líklegt að eitthvað þurfi að bregðast við þessu á næsta ári miðað við lögin, af því að Vinnumálastofnunin fær svona mikið hlutverk, þetta er bæði mikið og flókið hlutverk.

Virðulegi forseti. Nefndin flytur breytingartillögu við frumvarpið þess efnis að sett verði inn ákvæði til bráðabirgða um að lögin skuli endurskoða innan tveggja ára. Telur nefndin eðlilegt að lögfesta slíkt ákvæði þar sem um ný heildarlög er að ræða sem fjalla um reglur á vinnumarkaði gagnvart starfsmannaleigum. Eðlilegt er að skýrt sé kveðið á um endurskoðun laganna strax og nokkur reynsla er komin af þeim, þ.e. innan tveggja ára.

Auðvitað vonumst við til þess að nýju lögin sýni að starfsemi starfsmannaleigna batni á Íslandi og við verðum að láta reyna á þau. En af því að þetta eru ný lög vitum við auðvitað ekki nákvæmlega hvernig þau muni virka. Ég hef trú á því að þau verði til mikilla bóta og mér heyrist það almennt vera skoðun þingmanna að lögin séu mikið framfaraskref. En við verðum að skoða málið í ljósi reynslunnar og það er eðlilegt að við gerum það að tveimur árum liðnum. Við ræddum svolítið hvort sá tími ætti að vera styttri eða lengri en við töldum að eftir eitt ár væri líklega ekki komin nógu mikil reynsla á lögin en ekki væri gott að hafa tímann lengri en tvö ár ef þetta gengur ekki eins vel og við viljum. Það þótti því eðlilegt að lögin yrðu skoðuð innan tveggja ára, ef litið er á rök með og móti lengri eða styttri tíma.

Virðulegi forseti. Nefndin leggur til að frumvarpið verði samþykkt með framangreindri breytingu sem gerð er tillaga um í sérstöku þingskjali. Hv. þingmenn Jóhanna Sigurðardóttir, Lúðvík Bergvinsson og Valdimar L. Friðriksson skrifa undir álitið með fyrirvara og áskilja sér rétt til að gera breytingartillögur. Hv. þingmenn Magnús Þór Hafsteinsson og Pétur H. Blöndal standa ekki að þessu áliti.

Virðulegur forseti. Hér með hef ég gert grein fyrir nefndaráliti hv. félagsmálanefndar um frumvarp um starfsmannaleigur.