132. löggjafarþing — 40. fundur,  9. des. 2005.

Starfsmannaleigur.

366. mál
[11:26]
Hlusta

Frsm. félmn. (Siv Friðleifsdóttir) (F) (andsvar):

Virðulegur forseti. Varðandi ábyrgð notendafyrirtækjanna teljum við sem styðjum nefndarálitið að eftir tvö ár sé eðlilegt að skoðað verði hvernig lagaumhverfið hefur virkað, vegna þess að í þessu nýja kerfi verður hlutverk Vinnumálastofnunar mjög sterkt. Með þessu frumvarpi er gengið mjög langt í því að þjarma að starfsmannaleigunum, þegar yfir höfði þeirra hangir sú svipa að starfsemin verði hugsanlega stöðvuð með lögregluvaldi ef þær greiði ekki rétt kaup til starfsmanna sinna, það er yfirvofandi hótun um að loka starfseminni ef starfsmannaleigurnar standi sig ekki. Þannig er ábyrgðin sett á starfsmannaleigurnar enda eru það þær sem eru vinnuveitandinn. Við teljum því að eins og málið er útbúið eigi að vera hægt að verja starfsmennina með fullnægjandi hætti án þess að ábyrgðin sé sett á notendafyrirtækið, þ.e. hið íslenska fyrirtæki.

Varðandi hitt atriðið með fjárhaginn þá er það hlutverk sem Vinnumálastofnun fær kannski meira en maður gerði sér grein fyrir í upphafi máls. Þess vegna er sérstaklega tekið inn í nefndarálitið að verði kostnaðurinn meiri en gert er ráð fyrir þurfi að skoða það mál sérstaklega. Ég tel að það séu talsverðar líkur á að það þurfi að aðstoða Vinnumálastofnun á næsta ári varðandi kostnaðinn.