132. löggjafarþing — 40. fundur,  9. des. 2005.

Starfsmannaleigur.

366. mál
[11:30]
Hlusta

Frsm. félmn. (Siv Friðleifsdóttir) (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég verð að mótmæla því að hv. þingmaður túlki orð mín svo að ég telji að lögin muni ekki virka. Ég held að þau muni einmitt virka. Ég held að þau verði geysilega sterk. Það er alveg ljóst að ASÍ kallar eftir lögum af þessu tagi og segir að ástandið sé ekki viðunandi. Það er þrýstingur á að klára málið núna svo að lögin fari að virka af því að þau verði góð. Ég hef hins vegar bent á það og það er sérstaklega bent á það í nefndarálitinu, að það er ekki samræmi á milli þess sem Vinnumálastofnun telur og þess sem ráðuneytið telur. Ráðuneytið telur að hægt sé að mæta þessari auknu byrði í Vinnumálastofnun innan núverandi fjárhagsramma en Vinnumálastofnun telur að hún þurfi 12–15 millj. kr. aukalega og einhverjar óskilgreindar upphæðir í stofnkostnað. Miðað við hvernig málið er vaxið og vegna þess að Vinnumálastofnun fær svo mikið og erfitt hlutverk er sérstaklega bent á það í nefndarálitinu að ef í ljós kemur að Vinnumálastofnun hefur rétt fyrir sér þurfi að skoða það mál sérstaklega. Nefndin tekur því undir það að Vinnumálastofnun hefur miklu hlutverki að gegna og að hún verði að geta sinnt því, að sjálfsögðu.

Ég leyfi mér að segja hér, virðulegi forseti, að ég tel vera talsverðar líkur á því að skoða þurfi þetta mál á næsta ári. Þá verður að mæta þeirri fjárþörf. Vinnumálastofnun fær svo mikið hlutverk og verður að standast það. Ef það kemur í ljós að hún getur ekki mætt því innan fjárheimilda sinna þarf að skoða það sérstaklega á næsta ári. Ég vil vera algjörlega opin fyrir því.