132. löggjafarþing — 40. fundur,  9. des. 2005.

Starfsmannaleigur.

366. mál
[11:33]
Hlusta

Jóhanna Sigurðardóttir (Sf):

Virðulegi forseti. Við í Samfylkingunni höfum undir forustu hv. þm. Össurar Skarphéðinssonar lengi kallað eftir lögum um starfsmannaleigur. Því er mikilvægt fyrir okkur að þegar frá slíkum málum er gengið að við getum verið sæmilega örugg um að lögin séu traust og markviss og komi í veg fyrir að í gegnum starfsmannaleigur hér séu stunduð félagsleg undirboð eða að verið sé að misnota erlent vinnuafl og ekki að greiða því í samræmi við íslenska kjarasamninga. Þó margt hafi skýrst í málinu þegar það kemur til 2. umr. vantar því miður inn í það lykilatriði til að við getum verið sæmilega örugg um að frumvarpið nái tilgangi sínum og það er það sem verið var að ræða fyrir nokkrum mínútum, ákvæði um notendaábyrgð.

Við fulltrúar Samfylkingarinnar í félagsmálanefnd skrifum undir frumvarpið með fyrirvara, þ.e. sú sem hér stendur, hv. þm. Lúðvík Bergvinsson og hv. þm. Valdimar L. Friðriksson. Fyrirvari okkar lýtur sérstaklega að notendaábyrgðinni og flytjum við breytingartillögu við frumvarpið sem snýr að henni, við þrjú sem erum fulltrúar Samfylkingarinnar í félagsmálanefnd ásamt hv. þm. Össuri Skarphéðinssyni sem er 1. flutningsmaður þeirrar breytingartillögu. Það sem upp úr hefur staðið í umfjöllun félagsmálanefndar er í fyrsta lagi það sem ég nefndi um notendaábyrgðina, en nokkuð hefur verið tekist á um það mál, upplýsingaskyldan til stéttarfélaga og trúnaðarmanna þeirra, framlögin til Vinnumálastofnunar sem hér hafa verið rædd og einnig ákvæði um skatta- og vinnuvernd.

Virðulegi forseti. Ef ég vík fyrst að notendaábyrgðinni er alveg ljóst að margir innan verkalýðshreyfingarinnar eru óánægðir með að slíkt ákvæði sé ekki að finna í frumvarpinu eða í breytingartillögum stjórnarliða. Það kom líka skýrt fram í umfjöllun nefndarinnar um málið að þó að ASÍ og Samtök atvinnulífsins hefðu viljað sjá frumvarpið öðruvísi en það var lagt fram eru þeir mjög samstiga um að fallast ekki á neinar breytingartillögur. Það kemur auðvitað ekki í veg fyrir að fulltrúar á löggjafarsamkundu þjóðarinnar geti haft skoðun á málinu og flutt þær breytingartillögur sem þeir telja nauðsynlegar til að frumvarpið nái tilgangi sínum.

Notendaábyrgðin gæti verið tvíþætt og um það var nokkuð rætt í nefndinni. Það er annars vegar sú leið sem við þingmenn Samfylkingarinnar förum í breytingartillögu okkar, að það sé alveg klárt og kvitt að notendafyrirtækin séu ábyrg fyrir því að greitt sé í samræmi við kjarasamninga og þeim fylgt í öllum atriðum. Hins vegar gæti verið um að ræða sameiginlega ábyrgð notendafyrirtækja og starfsmannaleigna, þ.e. að þau fyrirtæki sem leigja til sín starfsmann, starfsmannaleigufyrirtæki, og sem af ásetningi eða gáleysi taka þátt í að una brotum starfsmannaleigu gegn ákvæðum laganna varðandi laun og önnur starfskjör séu samábyrg með viðkomandi starfsmannaleigu á kröfum þeirra. Þetta er einmitt ákvæði sem ASÍ vildi ná inn í meðferð málsins áður en það kom á þing en það varð ekki samkomulag um það.

Ég held að það sé ákaflega mikilvægt að ákvæðið um notendaábyrgðina nái fram að ganga. Við fengum umsagnir nokkurra aðila varðandi þann þátt málsins og ætla ég að leyfa mér að vitna í eina sem barst í tölvupósti frá Oddi Friðrikssyni, yfirtrúnaðarmanni við Kárahnjúka. Þar kemur fram nauðsyn þess að hafa slíkt ákvæði um notendaábyrgð vegna þess að hér segir Oddur, með leyfi forseta:

,,Frá upphafi framkvæmda hér við Kárahnjúka hafa komið upp með reglulegu millibili deilur vegna starfsmannaleigna. Helsta vopn verkalýðsfélaganna í þeim málum hefur verið kafli 20, mgr. 23, í virkjunarsamningi sem kveður á um ábyrgð verktaka á undirverktökum sínum gagnvart virkjunarsamningi. Ég leyfi mér að fullyrða að án þessa ákvæðis hefði verið nær vonlaust að ná þeim tökum á starfsmannaleigunum sem við þó höfum. Vegna þess óttast ég að verði ekki sett ákvæði um ábyrgð notendafyrirtækja gagnvart íslenskum kjarasamningum þá kunni lög þessi að hafa takmarkað gildi.“

Þetta er maður sem hefur mikla reynslu í að kljást við þau vandamál sem upp hafa komið og tengjast starfsmannaleigum varðandi það að erlent vinnuafl fær ekki greitt í samræmi við íslenska kjarasamninga eða að aðbúnaður þeirra sé í samræmi við íslensk lög og reglur.

Fleiri aðilar nefna þetta atriði og er það í raun og veru lykilatriði og stendur upp úr hjá öllum þeim sem gagnrýnt hafa frumvarpið, þ.e. frá hlið verkalýðssamtaka.

Hér segir t.d. Rafiðnaðarsambandið, með leyfi forseta:

,,RSÍ hefur alloft þurft að hafa afskipti af starfsmannaleigum. Eins og margoft hefur komið fram á opinberum vettvangi hefur reynst ákaflega erfitt að afla öruggra upplýsinga um hvort staðið sé með réttum og löglegum hætti að launum og kjaratengdum atriðum gagnvart þeim starfsmönnum, sem eru hér á landi á vegum starfsmannaleigna. Það var því að mati RSÍ orðið löngu tímabært að sett yrðu lög um starfsemi starfsmannaleigna hér á landi.“

Síðan er talað um að staða skattamála vegna starfsmanna á vegum starfsmannaleigna sé einnig óljós og vegna þess sé erfitt að draga starfsmannaleigur til ábyrgðar. Einnig segir, með leyfi forseta:

,,Það hefur komið glögglega fram í afstöðu rafiðnaðarmanna gagnvart frumvarpsdrögunum, að skýr ákvæði um ábyrgð notendafyrirtækja sé forsenda þess að það takist að koma böndum á það ófremdarástand sem ríkt hefur hér á landi.“

Formaður Verkalýðsfélags Akraness kom m.a. á fund nefndarinnar og sendi umsögn um málið. Þar segir, með leyfi forseta:

,,Einnig vill félagið benda á að hendur stéttarfélaga eru algerlega bundnar hvað varðar eftirlit með kjörum þeirra sem koma á vegum starfsmannaleigna samkvæmt frumvarpinu.“

Þeir tala um hinn mikilvæga þáttinn í málinu, þ.e. upplýsingaskylduna, og segja, með leyfi forseta:

,,Það verður að veita stéttarfélögum einhverja heimild til eftirlits með starfskjörum þessara starfsmanna sem koma á vegum starfsmannaleigna og þá í fullri samvinnu við Vinnumálastofnun.

Verkalýðsfélag Akraness hefur þó nokkra reynslu hvað varðar erlent vinnuafl og þeim vandamálum sem því hefur fylgt. Stéttarfélagið er ekki í neinum vafa að frumvarpið eins og það er nú er alls ekki til þess fallið að leysa þann vanda sem stéttarfélögin hafa verið að glíma við á undanförnum mánuðum því meira þarf til.“

Þeir lögðu fram ýmsar breytingartillögur, m.a. um notendaábyrgðina, skyldur notendafyrirtækis og um upplýsingaskylduna.

Sömuleiðis lagði Samiðn fram ýmsar breytingartillögur. Lykilatriði í máli þeirra, en þeir komu á fund nefndarinnar, var notendaábyrgðin og skortur á ákvæði þar að lútandi í frumvarpinu. Þeir segja, með leyfi forseta:

,,Megingalli frumvarpsins er að ekki er gert ráð fyrir ábyrgð notendafyrirtækjanna á að farið sé eftir íslenskum kjarasamningum og lögum þegar þau hafa starfsmenn frá starfsmannaleigum í sinni þjónustu.“

Þeir nefna líka upplýsingaskylduna sem ég er með undir núna í mínu máli líka, með leyfi forseta:

,,Einnig telur Samiðn að ákvæði í 10 gr. frumvarpsins um að Vinnumálastofnun skuli vera bundin trúnaði varðandi upplýsingar sem stofnunin aflar og að eingöngu skuli áframsenda upplýsingar til Útlendingastofnunar samanber 4. gr. geti gert stéttarfélögum erfitt fyrir að fylgjast með að kjarasamningum sé framfylgt.“

Þeir lögðu m.a. til skynsamlega breytingu að mínu viti á 4. gr. frumvarpsins þar sem er verið að tala um að Vinnumálastofnun skuli framsenda upplýsingar sem hún aflar til Útlendingastofnunar eftir því sem við getur átt. Þeir vildu bæta við að Vinnumálastofnun ætti ekki aðeins að senda Útlendingastofnun þessar upplýsingar heldur viðkomandi stéttarfélögum einnig.

Ég ætla að láta þessar tilvísanir í umsagnir um málið nægja sem sýna hversu stíft ýmsir í verkalýðshreyfingunni kalla eftir ákvæði í frumvarpinu um notendaábyrgð og upplýsingaskyldu. Við fulltrúar Samfylkingarinnar teljum það óviðunandi að slíkt ákvæði sé ekki fyrir hendi og flytjum því breytingartillögu þar um.

Það var mjög misvísandi hvort að stéttarfélögin og fulltrúar þeirra teldu að koma þyrfti inn ákvæði um skýra upplýsingaskyldu eða ekki. Fulltrúar ASÍ telja t.d. að núgildandi lög og reglur ásamt því samkomulagi sem fylgir með í nefndaráliti félagsmálanefndar um útlendinga á íslenskum vinnumarkaði dugi til þess að stéttarfélögin geti krafið starfsmannaleigur um upplýsingar.

Í nefndarálitinu segir, með leyfi forseta, sem við fulltrúar Samfylkingarinnar í félagsmálanefnd teljum ákaflega mikilvægt:

,,Fram kom hjá fulltrúum ASÍ og SA í nefndinni að samkvæmt því gætu trúnaðarmenn eða fulltrúi viðkomandi stéttarfélags ef trúnaðarmaður er ekki fyrir hendi krafið starfsmannaleigur um að fá að yfirfara gögn til að sannreyna að kaup og kjör starfsfólks starfsmannaleigna væru í samræmi við kjarasamninga.“

Það er ákaflega mikilvægt að fá þetta inn, að það er skilningur aðila vinnumarkaðarins og reyndar var það einnig skilningur fulltrúa félagsmálaráðuneytisins sem kom á fund nefndarinnar, að stéttarfélögin ættu að geta yfirfarið gögn til að sannreyna að kaup og kjör starfsmannaleigna væru í samræmi við kjarasamninga.

Virðulegi forseti. Hvað ef það reynist þannig að stéttarfélögin fá ekki að yfirfæra þessi gögn frá starfsmannaleigum? Þeir hafa verið að kvarta yfir því. Reynsla þeirra frá umliðnum mánuðum og missirum er að erfitt sé að nálgast þessi gögn og erfitt að fá þessar upplýsingar. Hvaða leið hafa þeir þá?

Þá er í 10. gr. frumvarpsins ákvæði um stofnunina, sem er auðvitað mjög mikilvægt. Þar segir: „Starfsmannaleiga skal veita Vinnumálastofnun þær upplýsingar er stofnunin telur nauðsynlegar til að fylgjast með framkvæmd laga þessara, þar með talið um ráðningarsamninga og ráðningarkjör.“ Þetta er auðvitað ákaflega mikið og nýtt ákvæði í baráttunni við að koma í veg fyrir félagsleg undirboð og verið sé að misnota erlent vinnuafl. En stéttarfélögin sem slík munu ekki hafa aðgang að þeim upplýsingum sem koma fram í 10. gr. vegna þess að Vinnumálastofnun er bundin trúnaði og þá hanga menn á því að fulltrúar aðila vinnumarkaðarins, ASÍ, eiga aðgang að þessum upplýsingum í gegnum stjórn Vinnumálastofnunar.

Nú á eftir að koma í ljós, virðulegi forseti, hvort þetta sé nægjanlegt hald sem hér er sett fram eða hvort beinlínis þurfi, sem sumir hafa kallað eftir, að lögfesta slík ákvæði um upplýsingaskyldu. Við fulltrúar Samfylkingarinnar í félagsmálanefnd höfum kosið að láta á það reyna, hvort stéttarfélögin fái aðgang að þeim gögnum eða geti yfirfarið þessi gögn til að sannreyna að kaup og kjör séu í samræmi við íslenska kjarasamninga eins og fulltrúar SA og ASÍ halda fram. Komi það í ljós, kannski fyrr en seinna, að þetta haldi ekki og stéttarfélögin séu í engu betur sett en áður til að hafa eftirlit með þessu, kallar það auðvitað á breytingartillögu á því lagafrumvarpi sem við erum hér að samþykkja og þá kannski fyrr en seinna. Við munum skoða það mjög alvarlega ef ekki er hald í þeirri yfirlýsingu eða því sem aðilar vinnumarkaðarins halda fram. Við munum fylgjast grannt með því og skoða þá síðar hvort ástæða sé til að flytja breytingartillögu.

Þess vegna leggjum við líka mikið upp úr því sem samstaða náðist um og formaður félagsmálanefndar mælti fyrir, þ.e. þeirri breytingartillögu að lögin verði endurskoðuð innan tveggja ára þegar komin er reynsla á framkvæmdina. En ég útiloka ekki að það geti þurft að gerast miklu fyrr ef við sjáum og í ljós kemur að þau lög og reglur og það samkomulag sem er milli aðila vinnumarkaðarins um útlendinga á íslenskum vinnumarkaði, heldur ekki.

Í því samkomulagi sem gert var í mars 2004 segir, með leyfi forseta:

„Það er hlutverk trúnaðarmanna stéttarfélaga á vinnustað að gæta þess að gerðir kjarasamningar séu haldnir gagnvart starfsfólki. Sé rökstuddur grunur um brot gegn viðkomandi kjarasamningi eða lögum sem varða starfskjör erlends launafólks hefur trúnaðarmaður á grundvelli þessa samkomulags rétt á að yfirfara gögn um laun eða önnur starfskjör þeirra erlendu starfsmanna sem kjarasamningur tekur til og starfa hjá viðkomandi vinnuveitanda og eftir því sem við á um starfsréttindi þeirra sem eru í störfum sem slíkra réttinda er krafist.

Sé ekki trúnaðarmaður á vinnustað hefur fulltrúi viðkomandi stéttarfélags sömu heimildir og trúnaðarmaður til að yfirfara gögn og ber sömu skyldur.“

Þetta segir í samkomulaginu, virðulegi forseti. Þetta er ársgamalt samkomulag og enn eru stéttarfélögin í reynd að kvarta yfir að þau hafi ekki eðlilegan aðgang að gögnum til að sannreyna upplýsingar um kjör erlenda vinnuaflsins, þannig að vera má að þetta sé ekki það hald í þessu sem við ætlum þó að leyfa okkur að treysta á eins og fram kemur í nefndaráliti.

Ég ætla ekki að lengja umræðuna mikið. Ég vil þó benda á bæði varðandi notendaábyrgðina og upplýsingaskylduna að fulltrúi frá rannsóknasetri á Bifröst, sem gert hefur ítarlega skýrslu um starfsmannaleigur og hvaða ákvæði um þær gilda, t.d. erlendis, taldi að eftirlit mundi reynast erfitt fyrir Vinnumálastofnun og þungt í vöfum að fylgjast með að lög séu ekki brotin og taldi að æskilegt væri að ákvæði kæmi að því er varðar notendaábyrgð. Og talaði um að hægt væri t.d. að fara út í tvöfalda notendaábyrgð, eins og ég nefndi, ef um er að ræða að notendafyrirtæki er samábyrgt um að ekki sé farið að lögum og reglum. Að það sé þá samábyrgt með starfsmannaleigunni.

Ég ætla ekki að fara mikið út í skattamálin en ríkisskattstjóri setti fram ítarlega umsögn. Mig langar að vitna í umsögn ríkisskattstjóra en þar segir, með leyfi forseta:

„Eftir nokkra skoðun á frumvarpinu virðist sem að tilgangur þess sé nokkur óskýr og áhrif þess, ef að lögum verður, yrðu óljós. Þótt frumvarpið fjalli ekki um skattframkvæmd eða önnur verkefni embættis ríkisskattstjóra gæti það haft áhrif á þau með óbeinum hætti. Ástæðan er fyrst og fremst sú að í frumvarpinu eru notuð ýmis hugtök sem ekki eru skilgreind en virðast í sumum atriðum geta stangast á við ákvæði laga sem miklu skipta um skattframkvæmd svo sem laga um fyrirtækjaskrá, laga um hlutafélög, laga um tekjuskatt og virðisaukaskatt svo og við túlkanir og framkvæmd á sviði alþjóðaskattaréttar.“

Síðan lýkur ríkisskattstjóri umsögn sinni með eftirfarandi orðum:

„Af framangreindu má ljóst vera að ákvæði frumvarpsins eru um margt óskýr og þarfnast mikilla lagfæringa áður en lögfest verða. Að öðrum kosti er hætta á að með þeim skapist réttaróvissa, sem m.a. gæti haft veruleg áhrif á skattlagningu m.a. vegna þess að óvissa léki á um hvenær um væri að ræða innlendan og hvenær erlendan skattaðila í skilningi íslenskra skattalaga og tvísköttunarsamninga. Skattaleg staða þess sem kaupir vinnuafl á leigu verður óvissari, skattaleg staða hinna útleigðu starfsmanna verður að líkindum verri og stefnt yrði í hættu þeirri úrskurðarframkvæmd sem skapast hefur á grundvelli gildandi skattalaga.“

Eins og heyra má hefur ríkisskattstjóri áhyggjur hvað varðar skattframkvæmd með tilkomu þessara laga. Því er ákaflega mikilvægt, og beini ég því sem stendur í nefndarálitinu til hæstv. félagsmálaráðherra. Þar segir, með leyfi forseta:

„Fram kom í nefndinni að eðlilegt væri að taka til skoðunar vinnuverndarmál og skattamál er lúta að starfsmönnum starfsmannaleigna og beinir nefndin því til viðkomandi ráðherra. Í því sambandi þyrfti að skoða þau mál með heildstæðum hætti í þeim lögum sem um þessa málaflokka fjalla.“

Fram kom í nefndinni og ég gat ekki heyrt annað en ríkisskattstjóri tæki undir, að ekki væri hægt að breyta þeim lögum sem við erum að fjalla um til að tryggja skilvirkni í skattframkvæmd heldur þyrfti að skoða skattalögin í því sambandi. Ég er ekki viss um að fjármálaráðherra viti eitthvað um það ákvæði sem hér stendur í nefndarálitinu. Þannig að það er mikilvægt að hæstv. félagsmálaráðherra komi þessu á framfæri með formlegum hætti við fjármálaráðherra og þá eftir atvikum með þeirri umsögn sem ríkisskattstjóri setur fram um þetta mál svo við stöndum ekki frammi fyrir því fyrr en seinna að erfiðleikar rísi upp varðandi skattframkvæmdina vegna starfsmannaleigna. Sama gildir raunar um vinnuverndina. Forstjóri Vinnueftirlitsins kom á fund nefndarinnar og hann segir að skoða þurfi betur bæði þjálfun þeirra erlendu starfsmanna sem koma til landsins, vinnutíma og heilsuvernd þeirra. Hann spyr t.d.: Hver á að tryggja að starfsmaður hafi færni til að bera til að vinna verkið sem hann er ráðinn til? Því er ljóst að í vinnuverndarþættinum sem slíkum þarf einnig að skoða ákvæði laga og ég beini því til hæstv. félagsmálaráðherra, því það mál snýr að ráðuneyti hans, að hann láti sérstaklega skoða vinnuverndarþáttinn í samráði við Vinnueftirlitið. Það er þetta tvennt sem ég beini til hæstv. ráðherra.

Síðan í lokin, því ég ætla ekki að tala mikið lengur í þessu máli, hef ég áhyggjur af því sem kom fram í andsvörum hjá hv. þm. Össuri Skarphéðinssyni við formann félagsmálanefndar, þ.e. því fjármagni sem Vinnumálastofnunin þarf til að geta sinnt skyldum sínum, tekið á sig þær kvaðir sem á hana er settar, t.d. í 10. gr. þessa lagafrumvarps. Þeir fullyrtu að þeir þyrftu til þess 12–15 millj. kr. Að vísu kom fulltrúi ráðuneytisins daginn eftir og sagði að svigrúm væri til þess, benti á minna atvinnuleysi og þess háttar sem gæfi þetta svigrúm hjá Vinnumálastofnun. En Vinnumálastofnun vissi auðvitað deginum áður að minna atvinnuleysi væri. Engu að síður héldu þeir því fram að þeir þyrftu þessar 12–15 millj. En auðvitað hefði verið eðlilegra að ganga frá þessu við 3. umr. fjárlaga þannig að Vinnumálastofnun fengi klárlega þá peninga sem hún þarf í þessu sambandi en að þetta sé ekki að koma inn á fjáraukalögum þegar fyrir séð er raunar að Vinnumálastofnun þurfi þessa peninga. Fannst mér ég skilja á máli formanns félagsmálanefndar að hún tryði því að meiri líkur en minni væru á því að Vinnumálastofnun þyrfti þetta fjármagn.

Í nefndarálitinu stendur að við treystum því að Vinnumálastofnunin fái þessa peninga. Því spyr ég hæstv. ráðherra, af því hann hefur ekki tjáð sig um það: Getum við treyst því, og ég óska eftir að það komi þá fram áður en þessari umræðu lýkur, að hæstv. félagsmálaráðherra muni fara nákvæmlega yfir það með Vinnumálastofnun hvaða fjármagn hún þurfi til að geta sinnt þeim skyldum sem á hana eru lagðar með frumvarpinu? Og hæstv. ráðherra beiti sér þá fyrir því að aðbúnaður Vinnumálastofnunar sé með þeim hætti að hún geti sinnt skyldum sínum og það dragist ekki fram á næstu fjárlagagerð, heldur verði séð til að framkvæmdin á þessu máli geti gengið snurðulaust fyrir sig hjá Vinnumálastofnun? Vegna þess að verið er að setja mikil og stór verkefni á hana, ekki aðeins í mannskap sem hún þarf að auka, heldur líka í tölvumálum eins og stofnunin benti á.

Virðulegi forseti. Ég ætla ekki að hafa fleiri orð um málið. Ég hef sett fram athugasemdir mínar og félaga minna í félagsmálanefnd og við treystum enn á að meiri hlutinn skoði málið með það í huga að fallast á þá veigamiklu tillögu sem margir í verkalýðshreyfingunni kalla eftir sem er ákvæði um notendaábyrgðina.