132. löggjafarþing — 40. fundur,  9. des. 2005.

Starfsmannaleigur.

366. mál
[12:06]
Hlusta

Magnús Þór Hafsteinsson (Fl):

Virðulegi forseti. Ég sit sem fulltrúi Frjálslynda flokksins í félagsmálanefnd sem hefur haft þetta frumvarp til umfjöllunar nú undanfarnar vikur. Ég vil í upphafi máls míns taka það fram að þegar hæstv. félagsmálaráðherra mælti fyrir þessu frumvarpi á Alþingi þann 28. nóvember sl. þá talaði fyrir okkar hönd hv. þm. Guðjón Arnar Kristjánsson, formaður Frjálslynda flokksins, gamall verkalýðsforingi til margra ára. Hann fagnaði því að sjálfsögðu að þetta frumvarp væri komið fram og við í Frjálslynda flokknum fögnuðum þessu frumvarpi af einlægni. Við höfum lengi haft þungar áhyggjur af þróun mála hvað varðar þessar starfsmannaleigur og höfum látið þær skoðanir í ljós hér á þinginu. Ég ætla svo sem ekki að hafa mál mitt mjög langt hér en mig langar aðeins til að útskýra mína afstöðu til málsins og hvernig þetta hefur þróast.

Ég fór í þetta mál af miklum áhuga og hef setið alla fundi félagsmálanefndar. Ég hef kynnt mér umsagnir sem hafa borist, hef sótt ráðstefnu um starfsmannaleigur sem haldin var á Bifröst fyrir viku. Félagsmálanefnd hefur mikið fundað um þetta mál, verð ég að segja. Ætli við höfum ekki setið yfir þessu máli í eina 10–12 tíma, gæti ég ímyndað mér, og haldið eina 3–4 fundi. Eftir því sem málið skreið fram og við fengum gesti á fund til okkar sá maður að það var náttúrlega ástæða til að gera ýmsar breytingar á þessu frumvarpi. Þetta frumvarp er á margan hátt meingallað. Hér hafa komið fram breytingartillögur frá stjórnarandstöðunni, bæði um hina svokölluðu notendaábyrgð en líka ákvæði varðandi lífeyrisréttindi, ákvæði varðandi það að stéttarfélögin skuli fá eitthvað um það að segja — að stéttarfélögin skuli fá aðgang til að mynda að þeim ráðningarsamningum sem gerðir eru hverju sinni. Það bárust verðmætar og ágætar ábendingar um einmitt þetta frá grasrótinni í verkalýðshreyfingunni, ef svo má segja. Oddur Friðriksson, trúnaðarmaður á Kárahnjúkum, sendi okkur umsögn. Við fengum líka ágæta umsögn frá verkalýðsfélagi Akraness og ég sé að andi þessara umsagna hefur náð í gegn í breytingartillögum frá fulltrúum stjórnarandstöðunnar, öðrum en okkur í Frjálslynda flokknum. Við erum ekki með á nefndaráliti, við erum heldur ekki með á breytingartillögunni. En ég vil lýsa því hér yfir að við munum greiða breytingartillögum stjórnarandstöðunnar atkvæði okkar í þeirri atkvæðagreiðslu sem fer fram hér á eftir. Síðan munum við sjá til. Ég reikna nefnilega fastlega með að þessar breytingartillögur verði kolfelldar af stjórnarmeirihlutanum. Fari svo munum við sitja hjá við lokaafgreiðslu frumvarpsins.

Eins og ég sagði áðan, við höfum ekki verið með á nefndaráliti. Við erum ekki með á þessum breytingartillögum, og hvers vegna er það? Jú, ég skal útskýra það. Það var nefnilega þannig að á einum af síðustu fundum nefndarinnar komu til okkar forustumenn ASÍ. Þá rann upp fyrir mér ljós, hvað hér væri í raun og veru að gerast. Hér var ekki á ferðinni neitt annað en vel útfært leikrit. Við þingmenn vorum gerðir að þátttakendum í því leikriti. Kannski er ég svona grænn, ég veit það ekki. Ég er bara búinn að vera hér í tvö ár. En ég gerði mér allt í einu grein fyrir því að verið væri að hafa mig að fífli. Það væri verið að eyða tíma mínum í að skoða mál sem búið væri að ákveða fyrir löngu. Það frumvarp sem liggur fyrir á Alþingi er ekki lagafrumvarp í mínum huga. Þetta er samningur. Þetta er ekkert annað en samningur. Samningur sem hefur verið gerður úti í bæ á milli ASÍ og Samtaka atvinnulífsins. Ég held að hæstv. félagsmálaráðherra ætti að fara mjög varlega í að hreykja sér af því að hafa komið með þetta frumvarp hér inn á þingið. Ríkisstjórnin var pínd til að fallast á þennan samning, fara með hann inn í þingið til að bjarga kjarasamningum fyrir horn. Þetta er ekkert flóknara en það. Ríkisstjórninni var stillt upp við vegg. Það er búið að taka ríkisstjórnina mörg missiri að taka sig saman í andlitinu og gera eitthvað í þessum málum og hún gerði það ekki fyrr en Samtök atvinnulífsins og ASÍ urðu sammála um þennan samning úti í bæ. Hann er svo færður í lagabúning og við á fundum félagsmálanefndar fengum skýr skilaboð um það frá verkalýðsforustunni að þessu yrði ekki breytt. Að þetta ætti að fara í gegn á Alþingi óbreytt. Við fengum skýr skilaboð um það.

Þegar ég fór í framboð á sínum tíma, sótti um vinnu hér á Alþingi, ef svo má segja, gerði ég mér háar hugmyndir um að það væri Alþingi sem færi með löggjafarvaldið ásamt forseta Íslands, eins og stendur í 2. gr. stjórnarskrárinnar — og ég hef skrifað undir eiðstaf að þeirri stjórnarskrá. Ég get ekki fallist á að svona vinnubrögð séu tíðkuð, að aðilar úti í bæ geri á milli sín samninga og fari síðan með þá inn á þing í skjóli einhverra ráðherra sem kannski hafa ekkert komið nálægt þessari samningsgerð og síðan sé gerð krafa um að þetta verði samþykkt. Að allar þær breytingartillögur, allar þær umsagnir og allt það snakk sem fer í gang í kringum svona frumvarp séu bara orðin tóm því búið sé að ákveða hlutina löngu fyrir fram. Þetta eru hreinlega ekki ásættanleg vinnubrögð. Það er einmitt þess vegna, til að mótmæla þessum vinnubrögðum, að ég ákvað þennan laugardag — eftir að hafa hlustað á forustumenn ASÍ koma með þessi skýru skilaboð inn á borð til okkar þingmanna, um að hér yrði engu breytt — að ég ákvað að ég ætlaði ekki að eiga aðild að þessu máli. Ég ætlaði ekki að setja nafn mitt við þennan málatilbúnað vegna þess að ég er einfaldlega ósammála því að svona sé staðið að verki. Málið er ekkert flóknara en það. Þetta hefur ekkert að gera með það, eins og ég sagði í upphafi máls míns, að við séum á móti því að lög séu sett um starfsmannaleigur hér á Íslandi. Alls ekki. Enda hefur það komið fram í okkar málflutningi. Ég veit að formaður Frjálslynda flokksins, hv. þm. Guðjón Arnar Kristjánsson, mun koma hér á eftir í ræðustól og gera enn frekar grein fyrir afstöðu okkar til þessara mála. En til að undirstrika andstöðu okkar við að þetta sé gert með þeim aðferðum sem við höfum orðið vitni að höfum við valið að fara þessa leið, að leggja ekki nafn okkar við þetta mál að öðru leyti en því að við munum greiða breytingartillögum minnihlutans atkvæði okkar.

Enn og aftur, virðulegi forseti, ef þær verða felldar munum við sitja hjá við lokaafgreiðslu málsins.