132. löggjafarþing — 40. fundur,  9. des. 2005.

Starfsmannaleigur.

366. mál
[12:17]
Hlusta

Össur Skarphéðinsson (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Sú staða hefur stundum komið upp við erfiðar kringumstæður í samfélaginu, sem ekki ríkja nú, að Alþingi hefur orðið að samþykkja gerninga til þess að halda frið í samfélaginu. Á alþingismönnum hvílir ákveðin friðarskylda og við vissar aðstæður er það skylda ráðgjafans að grípa inn í með lagasetningu. Stundum hefur það verið við aðstæður þar sem hefur af og til t.d. ríkt ófriður á vinnumarkaði, jafnvel þegar hafa ríkt harðvítug sjómannaverkföll sem nokkur dæmi eru um. Þá hefur það verið nauðsynlegt. Segja má að Alþingi hafi tekið þátt í að samþykkja hluti sem hafa verið samþykktir úti í bæ, kannski vegna þess að menn voru því algjörlega sammála hér innan dyra.

Nú gegnir töluvert öðru máli. Við reifum hér frumvarp sem á að taka á ákveðinni óeirð sem hefur skapast á vinnumarkaði vegna þess að ríkisstjórnin hefur ekki staðið undir skyldum sínum við að koma skikki á nýja atvinnugrein. Hún er að gera það í dag og það er tvennt sem veldur því. Í fyrsta lagi barátta stjórnarandstæðinga innan þessara veggja og í öðru lagi barátta verkalýðshreyfingarinnar. Það breytir ekki hinu að engin kontóraveldi úti í bæ, hvorki þau sem tengjast samtökum atvinnurekenda né þeirra sem starfa að verkalýðsmálum, eiga að geta sagt Alþingi fyrir verkum. Við verðum að fara eftir því sem okkur þykir réttast.

Ég er þeirrar skoðunar að frumvarpið gangi ekki nógu langt en ég ætla að samþykkja það vegna þess að ég tel að það sé þrátt fyrir allt mikið framfaraspor. Ég ætla ekki síst að samþykkja það vegna þess að það hefur komið fram ákveðinn skilningur af hálfu formanns nefndarinnar sem ég tel styrkja þessa baráttu. Í öðru lagi tel ég mjög mikilvægt að frumvarpinu er breytt að einu leyti, það er endurskoðunarákvæði. Það skiptir máli fyrir mig. Að því leytinu til var þó ekki að öllu leyti farið eftir því sem (Forseti hringir.) óskað var eftir utan úr bæ.