132. löggjafarþing — 40. fundur,  9. des. 2005.

Starfsmannaleigur.

366. mál
[12:27]
Hlusta

Magnús Þór Hafsteinsson (Fl) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég held að enginn sé að gera lítið úr aðilum vinnumarkaðarins í málinu, alls ekki, og það sé kannski oftúlkun á þessari afstöðu. Að sjálfsögðu ber að fagna því þegar þeir sýna ábyrgð og ná samkomulagi, en enn og aftur finnst mér það bara svo stuðandi að þetta skuli gert með þessum hætti, að okkur skuli vera settur stóllinn fyrir dyrnar á fundum og sagt við okkur að hér megi engu breyta jafnvel þó að við vitum öll að þetta sé gallað. Þegar löggjafarvaldið, þ.e. Alþingi, má í raun og veru ekki grípa inn í er mér nóg boðið.

Eins og hv. formaður nefndarinnar, Siv Friðleifsdóttir, kom inn á voru uppi miklar umræður í nefndinni um mörg atriði frumvarpsins og ýmsar efasemdir á lofti. Formaður nefndarinnar, ef ég man rétt, kom sjálf fram með þessa breytingartillögu um að sett yrði inn bráðabirgðaákvæði um endurskoðun innan tveggja ára. Ég hygg að formaður nefndarinnar geri sér grein fyrir að það eru ansi margir meinbugir á frumvarpinu og hún viti það innst inn að eftir tvö ár munum við verða að endurskoða frumvarpið allrækilega og gera á því breytingar, því að þegar þetta fer út í lífið, ef svo má segja, þegar þetta fer að virka munu menn strax reka sig á að frumvarpið var langt í frá nógu gott.