132. löggjafarþing — 40. fundur,  9. des. 2005.

Starfsmannaleigur.

366. mál
[12:29]
Hlusta

Ögmundur Jónasson (Vg):

Hæstv. forseti. Það er fagnaðarefni að stjórnarandstöðunni á Alþingi og verkalýðshreyfingunni skuli hafa auðnast að knýja ríkisstjórnina loksins til að hreyfa sig í málinu. Loksins, segi ég. Í næstum tvö ár hefur legið fyrir þinginu frumvarp frá Vinstri hreyfingunni – grænu framboði um breytingar á lögum sem náð hefðu markmiðum þess frumvarps sem liggur nú fyrir þinginu til samþykktar. Í allan þann tíma sem liðinn er hafa legið ljósar fyrir kröfur frá verkalýðshreyfingunni.

Ég ætla ekki að gera lítið úr því samkomulagi sem Alþýðusambandið og Samtök atvinnulífsins hafa náð. Ég virði það fullkomlega og tel það hið besta mál. Með breytingartillögu þeirri sem Vinstri hreyfingin – grænt framboð leggur fram er hins vegar verið að fylgja eftir þeim tillögum sem við höfum áður lagt fram í þinginu auk þess sem leggjum áherslu á ábendingar sem fram hafa komið frá ýmsum samtökum launafólks, BSRB, Samiðn og öðrum aðilum.

Það er ástæða til að gagnrýna ríkisstjórnina fyrir vinnubrögð í þessu máli, seinagang og sleifarlag. Í ágúst árið 2004 er skipuð nefnd til þess að setjast yfir þessi mál. Hún skilar ekki af sér fyrr en nýlega. Þá fær félagsmálanefnd málið til umfjöllunar og síðan örfáum dögum, nánast klukkustundum, áður en á að afgreiða málið fá ýmsir umsagnaraðilar frumvarpsdrög í hendur. Þetta eru náttúrlega vinnubrögð sem eiga ekki að líðast.

Þegar hins vegar litið er á frumvarpið, greinargerð sem fylgir frumvarpinu og ekki síst nefndarálitið sem fylgir því, og það er lögskýringargagn og ber að hafa í huga — þegar litið er á málið heildstætt að þessu leyti tel ég hér verið að stíga framfaraspor og lýsi því yfir að við munum styðja frumvarpið en við teljum því ábótavant í ýmsum atriðum. Þar er komið að því að ég geri grein fyrir þeim breytingartillögum sem við leggjum fram.

Í fyrsta lagi teljum við að lögin þurfi að taka af allan vafa um að þau tryggi starfsmönnum starfmannaleigna lágmarkskjör samkvæmt íslenskum kjarasamningum. Það kemur fram í greinargerð og álitsgerð með frumvarpinu að litið sé svo á að þau geri það. Við teljum að þetta þyrfti að standa í sjálfum lagatextanum.

Í öðru lagi þarf að kveða skýrt á um ábyrgð þess fyrirtækis sem nýtir sér þjónustu starfsmannaleigunnar, þ.e. kveða þarf á um lagalega ábyrgð notenda fyrirtækisins og við viljum að þetta taki til allra launamanna, vísum þar í starfsmenn flugfélaga og sjómenn einnig.

Á þessu tökum við í tveimur fyrstu breytingartillögunum við lagafrumvarpið sem við leggjum fram en við leggjum til að við 1. gr. bætist ný málsgrein svohljóðandi, með leyfi forseta:

„Lögin taka til allra erlendra launamanna sem starfa hér á landi á vegum starfsmannaleigna eða hliðstæðra fyrirtækja og atvinnurekenda sem nýta sér þjónustu þeirra. Enn fremur til starfsmanna sem starfa á skipum og í loftförum sem skráð eru hér á landi.“

Á eftir 8. gr. kemur ný grein, svohljóðandi, með leyfi forseta:

„Ákvæði laga nr. 55/1980, um starfskjör launafólks og skyldutryggingu lífeyrisréttinda, gilda um starfsmenn starfsmannaleigna sem lög þessi taka til.“

Í þeim lögum er kveðið á um að lágmarkssamningar eða íslenskir kjarasamningar skuli gilda.

Þriðja atriðið sem við teljum mikilvægt að hnykkt sé á í lögunum varðar upplýsingaskyldu. Við viljum að kveðið sé á um rétt trúnaðarmanna íslensku verkalýðshreyfingarinnar um aðgang að upplýsingum sem lúta að kjörum og kjarasamningum. Þessu tökum við á í þriðju tillögunni sem við leggjum fram en við viljum að við 1. málsgrein 10. gr., sem verði 11. gr., bætist nýr málsliður, svohljóðandi, með leyfi forseta:

„Starfsmannaleigu og atvinnurekendum sem nýta sér þjónustu hennar er skylt að veita trúnaðarmönnum stéttarfélags í viðkomandi starfsgrein aðgang að ráðningarsamningum og öðrum upplýsingum um launakjör leigðra starfsmanna.“

Hér hefur komið fram í umræðunni og í skýringum hv. formanns nefndarinnar að í frumvarpinu séu úrræði sem eigi að duga og þar sem fulltrúar verkalýðshreyfingar eigi aðild að stjórn Vinnumálastofnunar hafi þeir aðgang að þeim upplýsingum í gegnum hana. Við teljum hins vegar að það þurfi að ganga lengra og að tryggja þurfi í lagatextanum aðgang trúnaðarmanna verkalýðshreyfingarinnar að þessum upplýsingum.

Síðan viljum við að kveðið sé á um miskabætur í lögunum og leggjum til að við 13. gr., sem verði 14. gr., bætist ný málsgrein, sem verði 3. mgr., svohljóðandi, með leyfi forseta:

„Auk skaðabóta má dæma þeim starfsmönnum sem lög þessi taka til miskabætur.“

Þetta eru þær breytingar sem við leggjum til að gerðar verði á frumvarpinu og ástæðulaust að hafa um það fleiri orð en ég vísa í greinargerð með frumvarpinu sem Vinstri hreyfingin – grænt framboð hefur lagt fram í tvígang, bæði á þessu þingi og því síðasta. Þá var það hv. varaþingmaður Atli Gíslason sem lagði málið fram og hafði um það forgöngu hér í þinginu er þar eru ítarlegar skýringar á þeim tillögum sem við höfðum þá fram að færa.

Eitt að lokum og það snýr að eftirfylgninni, snýr að því að lögin verði að veruleika og það snýst um peninga. Það hefur komið fram hér í umræðunni, bæði í greinargerð og í undirbúningi málsins í félagsmálanefnd, að það var álitið að það þyrfti talsvert viðbótarfjármagn inn í Vinnumálastofnun til þess að hún gæti rækt þær skyldur sem eru lagðar á hennar herðar, talað er um 10 til 15 milljónir. Síðan hefur komið fram að verið sé að endurskoða þau mál, hvort svigrúm sé fyrir stofnunina til að sinna þessum þáttum og vísað til þess að atvinnuleysi hafi minnkað og af þeim sökum sé svigrúmið meira. Ég hef ekki aðstæður til að meta þetta en tel hins vegar mjög brýnt að í alvöru verði séð til þess að hún geti sinnt þessu hlutverki.

Því hefur verið haldið fram gagnvart Vinnueftirlitinu að það hafi ekki haft fjárhagslega burði til að sinna skyldum sínum við Kárahnjúka t.d. Mér er sagt að Vinnueftirlitið hafi gert allt sem í þess valdi stendur til að rækja skyldur sínar í seinni tíð, það hafi verið vanbúið til þess og það hefur verið kvartað yfir fjárskorti á þeirri stofnun þannig að dæmin hræða mjög hvað þetta snertir. Ef það er virkilega svo að til stendur að setja lög sem verða lítið annað en lagabókstafurinn, nánast orðin tóm, þá er til lítils að ráðast í slíka lagasmíð.

Hæstv. forseti. Ég ítreka gagnrýni okkar á ríkisstjórnina fyrir sleifarlag og sofandahátt í þessu máli, að hún skuli hafa látið allan þennan tíma líða, mánuði, missiri og ár þar sem þjóðin hefur horft upp á þær brotalamir sem eru í þessum efnum og skuli nú loksins, knúin af stjórnarandstöðu og verkalýðshreyfingu, farin að hreyfa sig. Við teljum brýnt að hert verði á þessum lögum á þann hátt sem við leggjum til hér og leggjum síðan að sjálfsögðu áherslu á að Vinnumálastofnun verði gert kleift að rísa undir þeim skyldum sem henni eru lagðar á herðar. Ég ítreka að Vinstri hreyfingin – grænt framboð styður að sjálfsögðu þetta frumvarp og telur það vera framför.