132. löggjafarþing — 40. fundur,  9. des. 2005.

Starfsmannaleigur.

366. mál
[12:41]
Hlusta

Ögmundur Jónasson (Vg) (andsvar):

Hæstv. forseti. Sá vandi sem við höfum átt við að glíma á íslenskum vinnumarkaði er hvernig farið hefur verið með erlent aðkomufólk, farandverkafólk sem hefur komið hingað til lands. Hins vegar skal ég játa að mér finnst þessi gagnrýni og þessi spurning eiga við rök að styðjast. Að sjálfsögðu ætti þetta að vísa til allra launamanna, ég skal taka undir þá gagnrýni. En þetta er sprottið af þeim ástæðum sem ég nefndi, að við höfum beint sjónum okkar að þessum vanda erlendra aðkomumanna, en ég tek undir þessa gagnrýni og tek undir þessa ábendingu.

Varðandi spurninguna um íhlutun og þann þátt málatilbúnaðar hv. þingmanns gat ég um það hér áðan að ég fagnaði því samkomulagi sem náðst hefði. Ég gat þess jafnframt að við í Vinstri hreyfingunni – grænu framboði værum með þessum tillögum okkar að fylgja eftir tillögum sem legið hafa í frumvarpi fyrir þinginu af okkar hálfu í næstum tvö ár og ég er jafnframt að vísa í ábendingar og athugasemdir sem hafa borist frá samtökum launafólks. Er ég þá ekki á nokkurn hátt að gera lítið úr því samkomulagi sem Alþýðusambandið náði að knýja fram.