132. löggjafarþing — 40. fundur,  9. des. 2005.

Starfsmannaleigur.

366. mál
[13:05]
Hlusta

Össur Skarphéðinsson (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Ég veit að hv. þm. Guðlaugur Þór Þórðarson er önnum kafinn og mæðist í mörgu. Ég geri ekki kröfu til þess að hann fylgist með því sem gerist í samfélaginu. En fyrst hann er að tala um þetta mál og kjarasamninga þá er lágmark að hann geri sér grein fyrir og viti af því að búið er að fullnægja kjarasamningum og greiða út hina umsömdu hækkun sem fólst í kjarasamningum. Menn setja því ekkert í uppnám þótt þeir leyfi sér að breyta lögum hér.

Hv. þingmanni til upplýsingar þá var ekki eitt einasta orð um það í niðurstöðu eða forsendum nefndarinnar sem ákvað með hvaða hætti ætti að fullljúka samningum, að þeir væru í upplausn eða mundu slitna þótt þessu frumvarpi yrði breytt. Ég vildi koma því á framfæri til upplýsingar til hv. þingmanns því að hann virðist hvorki þekkja haus né sporð á því sem hann er að tala um.

Í annan stað, frú forseti, átti ég eins og hv. þm. Ögmundur Jónasson töluvert erfitt með að greina kjarnann í máli hv. þingmanns. Kjarninn virtist sá að það væri atvinnuleysi í ESB. Má ég spyrja hv. þm. Guðlaug Þ. Þórðarson um atvinnuleysið: Hversu hátt atvinnuleysi er t.d. í Írlandi? Í Holland? Í Lúxemborg og ýmsum smáríkjum Evrópusambandsins sem vegnar vel?

Meginspurning mín er hins vegar þessi: Ber svo að skilja að hv. þm. Guðlaugur Þór Þórðarson telji að löggjöf um starfsmannaleigur takmarki með einhverjum hætti sveigjanleika íslensks vinnumarkaðar? Ég gat ekki skilið mál hans öðruvísi en svo að það væri sá varhugi sem hann gyldi við frumvarpinu.