132. löggjafarþing — 40. fundur,  9. des. 2005.

Starfsmannaleigur.

366. mál
[13:10]
Hlusta

Össur Skarphéðinsson (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Ég rifja það upp, þingheimi til upplýsingar, að hv. þingmaðurinn kom áðan og talaði um rökþrot annarra, talaði um að hv. þm. Ögmundur Jónasson hefði ekki rök fyrir máli sínu.

Ef hv. þingmaður kynnti sér til hlítar kjarasamninginn sem gerður var þá sæi hann að þar er ekki stafkrókur um að ekki megi breyta tilteknu frumvarpi. Ég hugsa að það mætti segja að þeir litu svo á að það væri rof samninga ef frumvarpið sem fram kom hefði verið ónýtt en um það hefur ekki nokkur maður talað.

Ég spurði hv. þingmann um hvernig hann teldi að lög af þessu tagi kynnu að draga úr sveigjanleika vinnumarkaðarins en hann svaraði engu. Ég spurði hv. þingmann um hvernig atvinnuleysið væri í ýmsum smáríkjum Evrópusambandsins, t.d. Írlandi, Hollandi og Lúxemborg. Veit hv. þingmaður það? Ég spyr vegna þess að hann geipaði hér um hið gríðarlega atvinnuleysi úti í Evrópu. Það er rétt að í ýmsum löndum, t.d. Frakklandi þar sem hægri menn hafa ráðið áratugum saman, eða allt of lengi, þá hefur ekki tekist að endurskoða lög um vinnumarkaðinn. Þannig mætti segja að þar ríki meira atvinnuleysi en ella hefði verið.

En ég bendi hins vegar á að í ýmsum öðrum löndum, líka stærri löndum Evrópusambandsins, er hægt að sjá tilhneigingu í aðra átt. Það skiptir kannski ekki máli en hv. þingmaður dró þetta inn í umræðuna. Spurning mín er eftirfarandi: Er hv. þingmaður þeirrar skoðunar að lög af þessum toga dragi úr sveigjanleika á vinnumarkaðnum? Og hvaða ákvæði innan þeirra gerðu það?