132. löggjafarþing — 40. fundur,  9. des. 2005.

Starfsmannaleigur.

366. mál
[13:15]
Hlusta

Össur Skarphéðinsson (Sf):

Herra forseti. Það er eðlileg krafa hjá hv. þm. Guðlaugi Þór Þórðarsyni að menn sem eiga við hann orðastað eigi að hlusta eftir því sem hann segir. Ég verð að gera þá játningu að ég reyndi það áðan en hins vegar gildir það um mig eins og fleiri sem hafa hlustað á hann í morgun að það er töluvert erfitt að greina meininguna í orðum hans. En ég skildi hana undir lokin. Hv. þingmaður telur að það lagafrumvarp sem við erum að samþykkja sé óæskilegt að því leyti að í því felist einhvers konar vísir að opinberu starfskjaraeftirliti og telur að það dragi úr sveigjanleika vinnumarkaðarins.

Það er lágmarkskrafa af hálfu þeirra sem eiga í málefnalegri umræðu að þeir skýri með einhverjum hætti fyrir viðmælendum sínum hvers vegna þeir telja, eins og hv. þingmaður í þessu tilviki, að aðkoma Vinnumálastofnunar að eftirliti með launakjörum verði til þess að rýra með einhverjum hætti sveigjanleika vinnumarkaðar á Íslandi. Ég verð að segja það hv. þingmanni til varnar að það er kannski erfitt að gera það í stuttu andsvari en hv. þingmaður kemur þá væntanlega upp á eftir og skýrir það út fyrir þingheimi hvers vegna hann er á móti því að Vinnumálastofnun fylgist með því að ekki sé verið að brjóta rétt á útlendu farandverkafólki vegna þess að hann telur að það geti dregið úr sveigjanleika vinnumarkaðarins. Staðreyndin er auðvitað sú að obbinn af sjálfstæðismönnum er á móti lagasetningunni vegna þess að þeir telja að það auki samkeppnishæfni Íslands gagnvart öðrum löndum að hér sé verið að borga útlendu fólki á lágmarkskjörum og sumir vilja jafnvel helst lægra en það, þó ég ætli ekki að gera hv. þingmönnum Sjálfstæðisflokksins það upp.

Staðreyndin er einfaldlega sú og það væri hollt fyrir hv. þm. Guðlaug Þór Þórðarson að horfast í augu við þá staðreynd að menn hafa verið af hálfu ríkisstjórnarinnar að nota starfsmannaleigurnar sem hagstjórnartæki til að halda kjörum niðri til að draga úr launaskriði til að koma í veg fyrir verðbólgu, til þess að mistökin sem þeir hafa gert í efnahagslífinu komi ekki eins og sprengja í fólk sem reynir að halda uppi sæmilega smurðu gangvirki í efnahagslífinu. Þetta er bara staðreyndin og hv. þm. Guðlaugur Þór Þórðarson á að horfast í augu við það að menn hafa sett kíkinn fyrir blinda augað þegar þeir hafa verið að skoða atvinnumarkaðinn á síðustu árum vegna þess að það hefur þjónað hagsmunum ríkisstjórnarinnar að hér ganga uppi fyrirtæki sem ég kalla ribbaldaleigur vegna þess að það dregur einfaldlega úr þessari þenslu, úr launaskriði. Það er eina ástæðan að ég tel fyrir því að ríkisstjórnin hefur hangsað við að setja þessi lög síðustu tvö ár.

Það eru nefnilega tvö ár síðan stjórnarandstaðan kom í þennan stól og benti á þessa þróun. Allt það sem þá var sagt hefur gengið eftir. Hæstv. félagsmálaráðherra sagði að ég held fyrir tveimur árum að hann teldi ekki þörf á að setja slík lög. Hann taldi að nægilegt tak og hald væri í gildandi lögum til að koma í veg fyrir að menn misnotuðu þessi fyrirtæki með því að brjóta réttindi á fólki, með því að láta það búa við kjör sem ekki eru sæmandi og með því að greiða því undir taxta. Því miður hefur það gerst og af því að það er ein biblía í lífi hv. þingmanna Sjálfstæðisflokksins sem heitir Morgunblaðið, þá rifja ég það bara upp að Morgunblaðið gerði ákaflega fína úttekt á þessum málum fyrir líklega níu mánuðum og sýndi fram á að í Reykjavíkurborg er verið að byggja blokkir íbúða af erlendu verkafólki sem verið var að borga 400 kr. á tímann. Af hverju ríkir þetta ástand? Vegna þess að ekki hefur verið framfylgt lögum sem í gildi eru en líka vegna þess að það eru ekki nægilega sterk lög sem skapa tök á því að fylgjast með þessu.

Við höfum m.a. heyrt hæstv. félagsmálaráðherra eiga orðastað við þingmann í dag um framfylgd laga um vinnuvernd. Það liggur einfaldlega fyrir að þau lög sem fyrir eru eru ekki nægilega sterk eða ríkisstjórnin veitir ekki fjármagn til að hægt sé að framfylgja þeim. Það var ekki síst þess vegna sem við höfum átt samtöl í dag um möguleika Vinnumálastofnunar á að framfylgja lögum, ef samþykkt verða, um aðkomu hennar að málinu. Við höfum það einfaldlega fyrir okkur að það eru ágætislög í gildi í landinu um vinnuvernd en það hefur ekki tekist að fylgja þeim eftir á Kárahnjúkum vegna þess að hæstv. ríkisstjórn hefur ekki séð til þess að fjármagnið sem þarf til að starfrækja eftirlitið sé fyrir hendi.

Herra forseti. Hv. þm. Pétur H. Blöndal kom og rakti garnir úr mönnum um það hvort þeir séu viljandi að setja kjarasamninga í uppnám með því að vilja breyta því frumvarpi sem hér liggur fyrir. Ef hv. þingmaður hefur rétt fyrir sér er ljóst að hv. formaður félagsmálanefndar er fyrir sitt leyti búinn að setja kjarasamninga í uppnám vegna þess að það er verið að breyta lögum og bæta inn endurskoðunarákvæði. Það var ekki í hinu upphaflega frumvarpi en vitaskuld verður það ekki til þess að setja kjarasamninga í uppnám.

Kjarasamningum er lokið og búið að greiða út þær kjarabætur sem samið var um. Í þeim samningi sem gerður var er hvergi að finna eitt einasta orð um að ekki sé hægt að breyta frumvarpinu sem hér liggur fyrir án þess að það setji upplausn í samningsferlið. Það er bara vitleysa. Í annan stað er algerlega nauðsynlegt að undirstrika það, að þingmenn sem koma til starfa á þessum vettvangi gera það á grundvelli sannfæringar sinnar einnar. Auðvitað sá stjórnarskrárgjafinn fyrir þann möguleika að það gæti verið reynt að seilast inn fyrir þessa veggi og seilast til valdanna sem hér eiga að hvíla. Þess vegna er okkur lögð sú skylda á herðar fyrst og fremst að fara eftir sannfæringu okkar og það eiga menn að gera og það hafa menn gert, held ég.

Það frumvarp sem hingað kom inn og við fjöllum um í dag gengur ekki nógu langt að mínu viti. Ég vildi sjá ákveðnar breytingar á því. Samt sem áður er það svar við aðstæðum sem hafa skapast á vinnumarkaði og það er líka ákveðið svar við þeim kröfum sem stjórnarandstaðan hefur um tveggja ára skeið sett fram. Þó að frumvarpið gangi ekki nógu langt ætla ég samt að styðja það en ég ætla samt sem áður að leyfa mér að starfa eins og stjórnarskráin heimilar mér og leggja fram og mæla fyrir breytingartillögu.

Ég er þeirrar skoðunar, herra forseti, að að ýmsu leyti væri hægt að gera frumvarpið betur úr garði. Ég vil þó taka fram að ég tel að nefndin hafi unnið vel og ég er þakklátur hv. formanni félagsmálanefndar fyrir að hafa lagt sig í líma við að skýra ákveðin mál í umræðum áðan ekki síst vegna þess þrýstings sem fram hefur komið af hálfu stjórnarandstöðunnar í nefndinni. Ég er sérstaklega þakklátur hv. þm. Siv Friðleifsdóttur fyrir að segja það bara hreint út að hún telji að kunni þurfi að grípa til aukinna fjárveitinga skömmu eftir samþykkt laganna. Ég tel að svo sé.

Ég get fallist á að umbúnaður frumvarpsins varðandi aðkomu Vinnumálastofnunar að upplýsingum gengur töluvert langt til að ná þeim tilgangi laganna sem ég vildi að væri þar kristaltær, að hægt væri að fá upplýsingar um ráðningarsamninga og ganga úr skugga um það svart á hvítu við hvaða launakjör tilteknir starfsmenn sem miðlað er fyrir tilstilli starfsmannaleigu eru ráðnir. Ein leið, eins og hv. þingmaður reifaði í framsögu sinni, er að fara í gegnum Vinnumálastofnun að þessum launum og ráðningarsamningunum en þá verður það að vera alveg skýrt að stofnunin hafi fjármagn til þess og það verður að vera alveg skýrt að hún geti gert það. Starfsmenn stofnunarinnar segja að það kosti 12–15 millj. kr. Það sé aukakostnaður. Ég dreg ekki í efa að þeir meti það rétt en ég tek það ekki gilt þegar skyndilega á einum degi koma menn frá hæstv. félagsmálaráðherra og segja að búið sé að finna þessar 12–15 millj. kr. innan ramma stofnunarinnar. Ég vil þess vegna spyrja hæstv. félagsmálaráðherra betur út í þetta.

Ég hjó eftir því að hann var ekki algerlega sannfærður fyrr í dag. Hann sagði að vinnan við að skoða og finna peningana væri þegar komin af stað í samstarfi stofnunarinnar og ráðuneytisins og svo bætti hann við: Ef það þarf meira verður að bregðast við því. Hæstv. félagsmálaráðherra er því í reynd þeirrar skoðunar í fyrsta lagi að ekki sé búið að ganga úr skugga um að hægt sé að finna aukið fjármagn innan veggja stofnunarinnar, en í öðru lagi er hann að segja svart á hvítu að til þess að hægt sé að uppfylla þetta ákvæði laganna þurfi meiri peninga. Þess vegna segi ég það alveg hreint út að mér finnst það vera svolítill leikaraskapur þegar við erum á annað borðið að samþykkja lög með þessu ákvæði í en á hitt borðið liggur fyrir að ekki er búið að tryggja fjármagn til þess. Það finnast mér ekki vera nægilega góð vinnubrögð.

Ég hef mörgum sinnum úr þessum ræðustóli á síðustu árum agnúast út í að það er ekki búið nægilega vel að verkafólki sem vinnur uppi á reginfjöllum um hávetur og ég hef skammast yfir því að þær stofnanir sem lögin segja að eigi að fylgjast með aðbúnaði þeirra hafi ekki nægilegt fjármagn til þess.

Sporin hræða. Stofnanirnar sem í dag eiga að treysta og tryggja að réttindi þessa fólks séu ekki brotin hvað aðbúnað varðar ná ekki í öllum tilvikum að standa undir skyldum sínum af því að það skortir fé, Hvers vegna eigum við þingmenn þá að trúa því þegar hæstv. félagsmálaráðherra kemur og segir: Við ætlum að finna peningana innan stofnunarinnar og ef það skortir eitthvað ætlum við að sjá til. Það eru ekki nógu góð vinnubrögð.

Ég vek líka eftirtekt á því þó það skipti ekki meginmáli, að það er munur á því sem í nefndarálitinu er haft eftir starfsmanni félagsmálaráðuneytisins og því sem hæstv. ráðherra sagði í morgun. Samkvæmt nefndarálitinu kemur alveg skýrt fram hjá fulltrúa félagsmálaráðuneytisins að það séu til peningar innan vébanda stofnunarinnar en hæstv. félagsmálaráðherra var ekki viss um það í morgun og þökk sé honum fyrir að vera ærlegur að því leyti til. Ég nefni þennan mismun til að sýna fram á að þarna er ákveðin fljótaskrift á hlutunum og ég hefði talið að það ætti að vanda betur til verka. En eins og ég hef sagt áður hefur hæstv. félagsmálaráðherra auðvitað selt atvinnurekendum ákveðið sjálfdæmi í málinu.

Hæstv. félagsmálaráðherra hafði einn þriggja manna fulltrúa í nefndinni sem vélaði um gerð frumvarpsins um starfsmannaleigur sem við ræðum hér um og það hefur komið alveg skýrt fram hjá hæstv. ráðherra að hann leit svo á að fulltrúi sinn væri fyrst og fremst milligöngumaður. Ég get ekki túlkað það með öðrum hætti en svo að þá væri í reynd verið að selja atvinnurekendum SA sjálfdæmi vegna þess að þeir hafa ekki þurft að gera annað en móast í málinu. Ef fulltrúi hæstv. ráðherra hefur ekki tekið af skarið þá gerist náttúrlega ekki neitt og það var þetta sem leiddi til þess að það var erfitt að ná þarna niðurstöðu.

Herra forseti. Við þingmenn stjórnarandstöðunnar höfum flutt breytingartillögu við frumvarpið sem ég held að a.m.k. í tilviki flestra þingmanna stjórnarliðsins, ekki þó allra sem hér hafa tekið til máls, ríki samstaða um að því er varðar tilganginn, þ.e. það þarf að slá í gadda í lögum að lágmarkskjör séu ekki brotin á erlendu farandverkafólki sem hingað kemur. Við höfum þess vegna, ég og hv. þingmenn Samfylkingarinnar, Jóhanna Sigurðardóttir, Valdimar Leó Friðriksson og Lúðvík Bergvinsson lagt fram á þskj. 507 breytingartillögu þar sem lögð er lagaskylda á notendafyrirtækið til að sjá um þetta. Við viljum með öðrum orðum setja ríkari ábyrgð á notendafyrirtækin til að tryggja að ekki sé brotinn réttur á þessu fólki. Ég er þeirrar skoðunar að það sé miklu betra að fara þá leið. Ég geri mér hins vegar grein fyrir að það er andstaða við það meðal þingmanna meiri hlutans. Ég er ekki búinn að sjá fram á að breytingartillagan nái fram að ganga en ég vil samt lýsa því skýrt yfir fyrir mína hönd að ég mun að henni felldri eigi að síður styðja frumvarpið.

Ástæðan fyrir því að ég treysti mér til þess er í fyrsta lagi að það koma fram í greinargerðinni mjög mikilvægar útskýringar á rétti verkalýðsfélaganna til að hafa eftir sem áður í gegnum kjarasamninga aðgang að upplýsingum um kjör starfsmanna. Ég tel mjög mikilvægt að það liggi fyrir með þessum hætti í þingskjali. Það sem gerir hins vegar útslagið með stuðning minn við frumvarpið er að það er endurskoðunarákvæði þarna inni. Ég held að það skipti ákaflega miklu máli.

Ég ætla að leyfa mér alveg eins og fyrir tveimur árum, herra forseti, að gerast spámaður um framtíðina. Ég sagði þá við hæstv. félagsmálaráðherra að á allra næstu missirum mundum við sjá að sú þróun sem við sjáum ryðja sér til rúms við Kárahnjúka mundi smita miklu víðar út í samfélagið. Hún mundi ekki bara einskorðast við stórar framkvæmdir uppi á fjöllum eða þar sem erfitt er að ná saman miklum liðsafnaði til framkvæmda. Ef ekkert yrði að gert og ef engar skorður yrðu reistar af hálfu hæstv. ráðherra við þessari þróun mundi þetta smita út í aðra geira samfélagsins og það hefur gerst. (Gripið fram í.) Þingmaðurinn studdi Kárahnjúka á allt öðrum forsendum en þeim að þar yrði farið illa með erlent verkafólk. Þingmaðurinn studdi ekki framkvæmdir á Kárahnjúkum á þeim grundvelli og hefur aldrei gert. En þetta sem við spáðum þá og þau orð sem ég lét falla í utandagskrárumræðum við hæstv. félagsmálaráðherra og hann tók náttúrlega ekkert mark á þá frekar en áður hafa gengið eftir. Við höfum séð þessa framkvæmd starfsmannaleignanna smita út í miklu minni fyrirtæki og óskyldar atvinnugreinar, meira að segja í landbúnaði. Þar er verið að fara illa með fólk, borga því undir lágmarkskjörum og brjóta á því það sem ég kalla a.m.k. almenn viðmið um hvernig á að koma fram við fólk. Ég hef sagt það alveg hreint út að það eru dæmi um það á Íslandi að mönnum er boðið upp á aðbúnað sem er ekki hundum bjóðandi fyrst og fremst vegna þess að stjórnvöld hafa sýnt linkind.

Ég tel því miður að það frumvarp sem við erum að samþykkja hér gangi ekki nógu langt og ég óttast að það verði til þess að fyrr en seinna verði nauðsynlegt að grípa til þess að breyta lögunum sem hér verða væntanlega samþykkt í dag. Ég held að við munum sjá að frumvarpið gengur einfaldlega ekki nógu langt til að stemma stigu við þeim ófögnuði sem við höfum séð breiðast út um atvinnulífið. Það skiptir hins vegar mjög miklu máli fyrir utan þessi lög að hæstv. ríkisstjórn tryggi fjármagn bæði til vinnuverndar og til Vinnumálastofnunar. Það skiptir öllu máli að hægt sé að halda uppi sæmilegu eftirliti í þessum efnum.

Herra forseti. Ég ætla ekki að hafa málið lengra en ég vil þó segja að hér eru tillögur sem hv. þingmenn Vinstri grænna hafa líka flutt og mér sýnist að ákveðinn samhljómur sé með a.m.k. sumum tillagna þeirra og okkar. Ég hef ekki skoðað þær alveg út í hörgul en mér sýnist að þær tillögur taki líka á ýmiss konar vanköntum sem sjá má á frumvarpinu.

Ég vil að lokum ítreka tvennt, eins og ég hef áður sagt, að það er ekkert í þeim kjarasamningum sem gerðir voru og eru komnir til framkvæmda sem segir að ekki megi breyta frumvarpinu sem hér liggur fyrir. Annaðhvort væri nú. Það er einfaldlega þannig að það er ekki hægt að koma með fyrirskipanir utan úr bæ um að hin og þessi frumvörp sem mikilvæg eru beri að samþykkja óbreytt.

Í annan stað vil ég ítreka spurningu mína til hæstv. félagsmálaráðherra: Hvar hefur hann fundið þessa peninga innan þessarar stofnunar og ef það verður niðurstaða þeirrar fjárleitar sem nú fer þar fram að það skorti fjármagn til að hægt sé að standa undir kostnaðinum við framkvæmd þessa ákvæðis sem ég hef gert að umræðuefni, mun hæstv. félagsmálaráðherra þá tryggja að fjármagnið verði sótt með einhverjum hætti til ríkisins til að hægt verði að fylgja eftir ákvæðum laganna ef samþykkt verða?