132. löggjafarþing — 40. fundur,  9. des. 2005.

Starfsmannaleigur.

366. mál
[13:34]
Hlusta

félagsmálaráðherra (Árni Magnússon) (F) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég vil nú fyrst segja að ég var í umræðunni fyrr í dag búinn að svara nákvæmlega þeirri sömu spurningu og hv. þm. Össur Skarphéðinsson leggur hér fyrir mig. Svaraði því í andsvari við hv. þm. Jóhönnu Sigurðardóttur. En hv. þingmaður hefur alveg einstakt lag á að snúa út úr því sem fólk segir og afbaka það og leggja mönnum jafnvel orð í munn. Ég skal svara því alveg skýrt. Ég tel að á Vinnumálastofnun séu fyrir hendi fjármunir til að sinna þessu verkefni. Við erum að fara nákvæmlega yfir það með stofnuninni þessa dagana. Komi í ljós að svo er ekki, sem kæmi mér þá algerlega í opna skjöldu, mun ég að sjálfsögðu beita mér fyrir því að það fjármagn verði tryggt. En ég vil ítreka enn og aftur, hæstv. forseti, svo hv. þingmaður snúi nú ekki aftur út úr orðum mínum: Ég tel að þessir fjármunir séu fyrir hendi.

Ég vil einnig vekja athygli á því í máli hv. þingmanns að hann gerir ítrekað úr þessum ræðustól lítið úr þríhliða samstarfi stjórnvalda og aðila vinnumarkaðarins. Talar um það eins og einhvern skrípaleik þegar stjórnvöld annars vegar og Samtök atvinnulífsins og ASÍ hins vegar koma að borðinu til að klára jafnmikilvægt mál og hér er á ferðinni. Hv. þm. Ingibjörg Sólrún Gísladóttir, formaður Samfylkingarinnar, hefur stundum kallað einmitt þetta samræðustjórnmál. Það að fólk setjist niður og tali saman og komist að sameiginlegri niðurstöðu. Ég vil þá spyrja hv. þm. Össur Skarphéðinsson: Er hann ósammála formanni sínum um að á góðum dögum sé rétt að ástunda slík stjórnmál?