132. löggjafarþing — 40. fundur,  9. des. 2005.

Starfsmannaleigur.

366. mál
[13:36]
Hlusta

Össur Skarphéðinsson (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Það er nú svo að bæði á góðum dögum og vondum er rétt að leiða saman mismunandi sjónarmið til að reyna að komast að niðurstöðu. Í þessu tilviki var það gert og fyrir lá ákveðið frumvarp en það lá líka fyrir ákveðinn kjarasamningur sem búið er að hrinda í framkvæmd, eins og hæstv. ráðherra veit. Hæstv. ráðherra veit líka að ekki eitt einasta orð í þeim samningi segir að ekki megi breyta því frumvarpi sem hér liggur fyrir. Ég held að það hafi verið starfsmenn hæstv. ráðherra sem sömdu það — byggðu að vísu á niðurstöðum þessarar nefndar. En það er einfaldlega þannig að þingmenn fara eftir sannfæringu sinni samkvæmt stjórnarskránni. Það er sú skylda sem á herðar okkar er lögð. Við komum hérna og fjöllum með faglegum hætti um mál. Ég hef bent á það hér, eins og reyndar fleiri, að það væri æskilegt að því frumvarpi sem hér er til umræðu yrði breytt með tilteknum hætti. Ég tel reyndar að það séu ýmiss konar sfleiri atriði en þau sem ég reifaði í ræðu minni áðan sem væri betra að breyta líka. En einu grundvallaratriði taldi ég að þyrfti að breyta. Ef það er sannfæring mín, herra forseti, að slík breyting sé nauðsynleg til að tryggja rétt verkafólks í landinu ætti ég þá að hverfa frá þeirri sannfæringu vegna þess að búið er að gera samþykkt um það sem hæstv. félagsmálaráðherra og fleiri góðir menn koma að? Og ég spyr hæstv. félagsmálaráðherra: Telur hann að þingmenn eigi ekki að fara að fyrirmælum stjórnarskrárinnar um að fylgja sannfæringu sinni?