132. löggjafarþing — 40. fundur,  9. des. 2005.

Starfsmannaleigur.

366. mál
[13:39]
Hlusta

Össur Skarphéðinsson (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Það er alveg klárt að ég er algerlega sammála formanni mínum um að iðka beri umræðustjórnmál og samræðustjórnmál eftir því sem hægt er. Ég er út af fyrir sig ánægður með að hæstv. félagsmálaráðherra skuli hafa farið að fordæmi Samfylkingarinnar um það og vilji leggja megináherslu á að ná samkomulagi um mál. En ef svo væri held ég að hæstv. ráðherra hefði átt að leggja sig eftir því t.d. að ná samkomulagi við stjórnarandstöðuna um þau tilteknu atriði sem við höfum hér verið að ræða. Það er hugsanlegt að ég hafi ekki hlýtt nægilega vel á hæstv. ráðherra þegar hann flutti sína fyrstu ræðu, þ.e. við 1. umr. málsins. En ég man ekki betur en að þá hafi spunnist orðaskipti millum þingmanna og eftir atvikum hæstv. ráðherra um að ekki væri mögulegt að gera nokkrar breytingartillögur við þetta frumvarp af því að samræðustjórnmálin, sem þessi hæstv. ráðherra iðkar, eru þannig að ekki er gert ráð fyrir því að löggjafinn kunni að hafa aðra skoðun en t.d. ágætir kontóristar hans í ráðuneytinu. En það er einfaldlega þannig að okkur ber skylda til, og það er hlutverk okkar, að fara sem faglegustum höndum um þau verk sem koma frá ráðuneytunum, í þessu tilviki frá hæstv. félagsmálaráðherra. Ég geri mér mætavel grein fyrir því að hæstv. félagsmálaráðherra er mörgum kostum búinn og vafalítið ber hann af öllum öðrum mönnum. En hann er samt eins og við. Hann er breyskur eins og allir dauðlegir menn. Jafnvel hæstv. félagsmálaráðherra á það til að gera mistök. Það kerfi sem við höfum sett hér upp á Alþingi Íslendinga er m.a. til að finna og bæta úr vanköntum sem jafnvel (Forseti hringir.) fullkomnum mönnum eins og hæstv. félagsmálaráðherra verður stundum á.