132. löggjafarþing — 40. fundur,  9. des. 2005.

Starfsmannaleigur.

366. mál
[13:50]
Hlusta

Guðjón A. Kristjánsson (Fl):

Hæstv. forseti. Þetta eru fróðlegar og skemmtilegar umræður. Ég sagði við 1. umr. þessa máls að ég fagnaði því að þetta frumvarp væri fram komið og vonaðist til að það fengi góða og málefnalega afgreiðslu í þinginu og að okkur tækist að afgreiða málið, ekki með of miklum hraða heldur með skynsamlegu vinnulagi. Ég hef ekki heyrt annað í umræðunni hér í morgun en að þeir sem unnu að þessu máli í nefndinni hafi eytt þó nokkuð miklum tíma í að fara yfir málið, velta því fyrir sér, finna á því hugsanlega hnökra og eftir atvikum leggja upp með það hvort einhverju eigi að breyta.

Það var hins vegar upplýst hér af nefndarmönnum í morgun að að lokum hafi komið á fund nefndarinnar fulltrúar ASÍ og tilkynnt nefndinni það að þetta væri í raun samkomulagsmál sem yrði að fara hér í gegn nánast óbreytt og það er í raun og veru það sem er að gerast. Málið stefnir í að fara óbreytt í gegnum þingið eins og það kom hér inn, að vísu með viðbótarákvæði um að þessi smíð skuli endurskoðuð eftir tvö ár og það ber auðvitað að fagna því. En það er nú svo, hæstv. forseti, að öll lög getum við endurskoðað sem hér eru samþykkt. Það er því ekki beint mikið nýmæli í því þó að við eigum þann rétt að endurskoða lög en gott þegar menn sameinast um að lög skuli endurskoðuð.

Ég sagði hér við 1. umr. málsins að lagfæra þyrfti ýmislegt í þessu frumvarpi svo betur mætti fara og nefndi nokkur atriði. Þau liggja hér eiginlega fyrir, hæstv. forseti, í breytingartillögum frá þingmönnum stjórnarandstöðunnar. Að vísu nota menn kannski hvorir sína aðferðina, þ.e. í breytingartillögum samfylkingarmanna er talað um notendafyrirtæki sem beri ábyrgð o.s.frv. og þrátt fyrir að starfssamband viðkomandi starfsmanns og notendafyrirtækis sé byggt á milligöngu starfsmannaleigu skuli notendafyrirtæki samt sem áður fá þessar upplýsingar og þar eigi menn aðgang að.

Í annarri breytingartillögu frá vinstri grænum segir:

„Starfsmannaleigu og atvinnurekendum“ — sem eru þá notendafyrirtækin — „sem nýta sér þjónustu hennar er skylt að veita trúnaðarmönnum stéttarfélags í viðkomandi starfsgrein aðgang að ráðningarsamningum og öðrum upplýsingum um launakjör leigðra starfsmanna.“

Það eru kannski orðalagsbreytingar í tillögunum en ekki meginbreytingar um að það sem menn vilja tryggja er að stéttarfélögin geti fengið að sjá þessa ráðningarsaminga og fylgja þeim eftir og fylgja eftir sínu virka eftirliti. Það er raunar, hæstv. forseti, algjörlega í samræmi við t.d. umsögn Verkalýðsfélags Akraness en þar segir þegar komið er með tillögu að nýrri 10. gr. sem lagt er til að verði 11. gr., með leyfi forseta:

„Stéttarfélag getur krafið notendafyrirtæki á félagssvæði sínu um ráðningarsaminga þeirra starfsmanna starfsmannaleigna sem þar starfa sem og önnur þau gögn sem notendafyrirtæki hefur undir höndum um vinnu starfsmanna svo sem tímaskýrslur. Ef stéttarfélag telur að brotið hafi verið gegn ákvæðum laganna ber því að senda Vinnumálastofnun rökstudda kvörtun.“

Mér sýnist að í sjálfu sér hafi menn leitast við að taka undir þessar tillögur verkalýðsfélagsins í þessum breytingartillögum, sem mér finnst sjálfsagt og ég vék reyndar að í máli mínu við 1. umr., og að breytingartillögurnar gangi út á það að tryggja að viðkomandi stéttarfélög hafi aðgang að því að skoða þessar upplýsingar og fylgja þar af leiðandi eftir vinnuréttarsambandi sem snýr að kjörum og starfstíma og öðru slíku, lögum landsins o.s.frv. Það er mjög eðlilegt hlutverk verkalýðsfélaga að fylgja því eftir og ég tel að tryggja eigi að þau fái aðgang að slíkum upplýsingum.

Á það hefur verið bent að Vinnueftirlitið muni fylgja þessu eftir með tilheyrandi kostnaði og til þess þurfi fjármagn. Gott og vel um það. En ég tel að við eigum að leitast við að reyna að hafa sem beinast samband milli verkalýðsfélaga á viðkomandi félagssvæði og þeirra starfsmanna sem þar vinna til að verkalýðsfélagið geti sinnt hlutverki sínu. Því tel ég, hæstv. forseti, að þær breytingartillögur sem hér liggja frammi og við höfum hugsað okkur að styðja í Frjálslynda flokknum séu til bóta og málið muni batna við þá meðferð ef samþykktar verða.

Hins vegar verð ég að segja að ef tillögur stjórnarandstöðunnar verða felldar í heilu lagi þá sýnist mér vera komin upp enn á ný sama staða og iðulega hefur komið hér upp að inn koma inn frumvörp frá ríkisstjórninni með einum eða öðrum hætti eins og sumir segja, búið er að leggja þar ákveðnar línur og okkur ber að klára það. Ég er ekki sammála því að við eigum að vinna þannig og tel að við eigum að klára málin eftir sannfæringu okkar og þess vegna hef ég ekki trú á því, hæstv. forseti, að þessi lög haldi óbreytt í tvö ár eins og þau eru upp sett.

Því er það niðurstaða okkar í Frjálslynda flokknum að óskynsamlegt sé að fella þær breytingartillögur sem hér eru lagðar fram. Ég hef gert grein fyrir því að hvor tillagan sem samþykkt yrði nægði til þess að mínu viti að tryggja aðkomu stéttarfélaga að sinni víðtæku eftirlitsskyldu sem þau hafa vissulega, og þá mundum við fyrir okkar leyti samþykkja þetta frumvarp. Ég tel ekki nægjanlegt að endurskoða þessi lög eftir tvö ár, hæstv. forseti, ég spái því að það verði miklu fyrr sem menn þurfi að koma með lagabreytingar til að lagfæra það sem að er.