132. löggjafarþing — 40. fundur,  9. des. 2005.

Starfsmannaleigur.

366. mál
[13:57]
Hlusta

Steingrímur J. Sigfússon (Vg):

Herra forseti. Ég mun aðeins tala hér örstutt, ekki vegna þess að það sé ekki margt sem ég gæti hugsað mér að segja um málið, heldur vegna hins að samkomulag hefur verið gert um tilhögun þinghaldsins og að ljúka hér störfum í dag. Fyrir liggja mörg mál sem þurfa afgreiðslu og eftir atvikum einhverrar umræðu við þannig að ég mun stytta mál mitt mjög. Við þingmenn Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs viljum að sjálfsögðu standa við þetta samkomulag og virða það.

Það er til bóta að hér er komið fram frumvarp um starfsmannaleigur. Það er skref í rétta átt, um það er ekki deilt. Spurningin er bara hvort hér sé nógu vel og tryggilega frá málunum gengið og hvort þar megi ekki gera betur. Við höfum barist fyrir því í allmörg ár að tekið yrði á þessu máli, þingmenn Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs, vöruðum reyndar fyrstir flokka við því að stórframkvæmdunum miklu sem þá var til umræðu að hleypa af stað, á árunum 2002 og 2003, hlytu að fylgja hlutir af þessu tagi — það má fletta upp í þeim ræðum ef menn endilega vilja — en fengum satt best að segja litlar undirtektir því að það var augljóst mál að íslenskur vinnumarkaður réð ekki við þessar framkvæmdir. Það voru yfirgnæfandi líkur á því að þær yrðu að vinnast að verulegu leyti af erlendu farandvinnuafli og þá mátti búast við því að hlutir af þessu tagi kæmu upp því að þeir voru komnir á fulla ferð í löndunum í kringum okkur þar sem sambærilega háttaði til. Það þurfti engum að koma á óvart sem hafði fylgst með t.d. þróun á dönskum vinnumarkaði að slíkir hlutir skytu upp kollinum en þá þegar er deilur um Kárahnjúkavirkjun stóðu hér sem hæst var farið að bera á slíku t.d. í dönskum byggingariðnaði.

Þingmaður okkar sem sat á þingi þá, fyrir tveimur árum síðan, Atli Gíslason hæstaréttarlögmaður, varaþingmaður vinstri grænna, lagði fram frumvarp um að taka ákvæði inn í lög um starfskjör launafólks og skyldutryggingu lífeyrisréttinda sem tækju af skarið um það að þau lög skyldu gilda um alla erlenda starfsmenn hvort sem þeir störfuðu á vegum íslenskra eða erlendra atvinnurekenda, starfsmannaleigna eða hliðstæðra fyrirtækja. Með því að bæta því inn í 1. gr. laga um starfskjör launafólks og skyldutryggingu lífeyrisréttinda og taka jafnframt fram að aðgangur trúnaðarmanna stéttarfélaga að ráðningarsamningum og upplýsingum um launakjör skyldi vera jafngildur og um innlenda starfsmenn á grundvelli innlendra kjarasaminga væri að ræða, þá hefði að verulegu leyti verið tekið á þessu máli strax með þeim tveimur einföldu breytingum inni í þessum lögum því þá hefðu þessir hópar komið inn undir íslenskan vinnurétt með sama hætti og aðrir og öll ákvæði þar um gilt. Því miður hefur þetta frumvarp ekki fengið afgreiðslu. Þörfin fyrir það minnkar, má segja, að vissu marki með þessum lögum, ef af verður, um starfsmannaleigur, en hverfur þó ekki. Og þar kem ég að því sem ég tel að sé aðalatriði þessa máls og hefur svifið kannski pínulítið óljóst, að mér finnst, yfir vötnunum hér í umræðunni og það er hvað gera þarf til að tryggja með óyggjandi hætti að hægt sé að taka á þessu máli og fylgjast með því að íslenskir kjarasamingar gildi um þessa hópa og það haldi.

Að mínu mati er það ósköp einfalt. Það þarf að tryggja í lögum um starfsmannaleigur með beinum og pósitífum hætti að öll þau réttindi, sem t.d. stéttarfélög hafa á íslenskum vinnumarkaði, gildi í þessu tilviki, taka það skýrt fram þannig að ekki þurfi að leiða það af öðrum ákvæðum í öðrum lögum og annars staðar eða í kjarasamningum, sem sagt að um beinar heimildir verði að ræða en ekki afleiddar. Þetta snýst í raun og veru í aðalatriðum um það.

Það er reyndar svo að mínu mati — og mjög mikilvægt er að það komi fram og væri bagalegt fyrir málið ef annar skilningur væri uppi — að í aðalatriðum er fullnægjandi fyrirkomulag á þessum hlutum í dag með því að beita afleiddum heimildum. Enginn vafi er á því að nefndarálitið er til bóta og einnig er til bóta að hafa sem fylgiskjal samkomulag Alþýðusambands Íslands og Samtaka atvinnulífsins um útlendinga á íslenskum vinnumarkaði. Það undirstrikar og styrkir þá stöðu sem er að þetta samkomulag er í fyrsta lagi í gildi og hefur lagastoð og að kjarasamningar á Íslandi eru í eðli sínu lögvarin lágmarksréttindi. Það er munurinn á íslenskum vinnumarkaði og víða annars staðar.

Í þeim skilningi eru í gildi á Íslandi lög um lágmarkslaun en þau eru þannig ákvörðuð að það eru aðilar vinnumarkaðarins sem gera það með kjarasamningum en ekki stjórnvöldin sjálf eins og sums staðar er þar sem eru í gildi lög um lágmarkslaun sem löggjafinn ákvarðar. Þannig hefur það t.d. verið lengi í Bandaríkjunum ef ég man rétt. Það var til þess að ekki væri svínað á erlendum verkamönnum, sérstaklega í bandarískum landbúnaði, á mannamáli sagt á Mexíkönum, sem tugþúsundum og hundruðum þúsunda saman hafa haldið bandarískum stórlandbúnaði gangandi og bjuggu oft við bág kjör og gera nú svo sem enn, en það var þó tekið á því að ég held af alríkisstjórninni, alveg örugglega af flestum fylkisstjórnum, að tryggja þeim lögvarin lágmarkslaun.

Það er í reynd í gildi hér á landi. Ég er ekki að halda því fram að í aðalatriðum séu ekki möguleikarnir þarna til staðar en þeir eru afleiddir og það er með óbeinum hætti sem menn geta reynt að takast á við starfsmannaleigurnar með því að sækja sér réttindi og heimildir til slíks í önnur lög, t.d. í lögin um trúnaðarmenn. Það hefði verið sterkara, enginn vafi er á því, að hafa þetta pósitíft hér inni. Út á það gengur breytingartillaga okkar sem hv. þm. Ögmundur Jónasson mælti fyrir áðan og ég þarf ekki að endurtaka, enda rökstuddi hann það skýrt og greinilega hversu mikilvægt þetta væri. Við leggjum þar til í fjórum töluliðum að þessar mikilvægu breytingar verði gerðar sem eru sumpart hliðstæðar þeim ákvæðum sem hafa legið fyrir í frumvarpsformi á tveimur ef ekki þremur þingum og voru upphaflega flutt af hv. þm. Atla Gíslasyni, varaþingmanni Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs, eins og áður sagði.

Þá er aðeins eitt eftir í þessu máli sem ég vil fá að nefna og það snýr að hlutverki Vinnumálastofnunar. Það er að mínu mati alveg eðlilegt og á sínum stað að Vinnumálastofnun verði fengið þarna hlutverk. Það er fullkomlega eðlilegt og ég geri engar athugasemdir t.d. við að hún sé sá aðili sem haldi utan um og annist skráningu fyrirtækjanna og taki við upplýsingum frá þeim um starfsmenn þeirra o.s.frv. En ekki er þar með sagt að það sé nóg að Vinnumálastofnun geri þetta og að hún ein annist um eftirlitið. Ég hef því miður enga trú á því að Vinnumálastofnun ein, ég tala nú ekki um með einum ráðnum starfsmanni, fái nánast neinu sem heitir áorkað í þessu ef hún í fyrsta lagi fær ekki fjármagn og aðstöðu til að efla sig verulega í því skyni og í öðru lagi og það sem mestu máli skiptir ef hún nýtur ekki stuðnings stéttarfélaganna og ef stéttarfélögin verða ekki í aðstöðu til að beita sér af öllu afli í þessu máli. Þetta er vonlaus slagur nema stéttarfélögin geti í krafti stöðu sinnar og réttinda beitt sér í málunum, ásamt trúnaðarmönnum þeirra á vettvangi. Þess vegna þarf líka að mínu mati eða væri til bóta að taka með beinum hætti inn rétt þeirra þannig að ekki léki vafi á, og það gildir það sama og ég hef áður sagt um þetta atriði.

Auðvitað væri síðan best, og það er líka lagt til, að notendafyrirtækin, að verkkaupinn yrði gerður þarna ábyrgur, allt annað er í raun og veru hálfgert hálfkák, og það er enginn eðlismunur á að gera notendafyrirtækið ábyrgt fyrir því að lögbundin og lögvarin lágmarkslaun séu tryggð með sama hætti og notendafyrirtækinu er gert af hálfu skattyfirvalda að vera ábyrgt fyrir að greiðslur af launum starfsmanna, sem hjá því starfa í gegnum starfsmannaleigur, leigðir inn af starfsmannaleigum, skili sér. Nú er það mál að vísu fyrir dómstólum eða mun fara fyrir dómstóla af því að höfðingjafyrirtækið Impregilo neitar að sjálfsögðu að fallast á þá ákvörðun íslenskra skattyfirvalda að því beri að standa ábyrgt fyrir þeim greiðslum og ætlar með málið fyrir dóm og kemur ekki á óvart því að það fyrirtæki er frægt eins og kunnugt er af málaferlum sínum um víða veröld.

Staðreyndin er sú að í garð gengu nýir tímar á Íslandi með Kárahnjúkaframkvæmdunum og við erum rétt að byrja að mínu mati að sjá framan í þau átök sem af þessu kunna að leiða á vinnumarkaði á komandi árum og áratugum, við erum miklu fremur að sjá upphafið að slíkri viðureign en einhvern enda hennar. Það mun þurfa meira til en bara einn starfsmann hjá Vinnumálastofnun sem tekur á móti gögnum og skýrslum og verður bundinn við að safna því saman við skrifborð í Reykjavík. Hverjum dettur í hug að einn starfsmaður við skrifborð í Reykjavík fái einhverju áorkað gagnvart ófremdarástandi eins og er í þrælabúðum ríkisstjórnarinnar við Kárahnjúka? Hverjum dettir það í hug þegar trúnaðarmenn þar á staðnum eiga jafnerfitt uppdráttar og raun ber vitni og þegar eftirlitsaðilar stjórnvalda eru að gefast upp? Það er veruleikinn við Kárahnjúka að menn eru meira og minna að gefast upp við að reyna að hafa eftirlit með ástandinu og segja að það svari ekki kostnaði að reyna að fara þangað upp eftir, þannig sé ástandið að ýmsu leyti. Þetta mun því þurfa að hvíla á stéttarfélögunum og samstarfi þeirra og þess vegna væri eðlilegast að fyrir væri mælt um það með beinum hætti í lögunum, það væri langákjósanlegast.

Það er miður, herra forseti, að frumvarpið skuli ekki vera sterkara en raun ber vitni. Það væri þó auðvelt að gera á því verulegar úrbætur og styrkja það mjög, eins og hér er lagt til í breytingartillögum annars vegar af þingmönnum Samfylkingarinnar sem flytja tillögu um breytingu á 8. gr. og hins vegar af okkur þingmönnum Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs sem flytjum fjórar breytingartillögur og væri málið náttúrlega mun betra að þeim samþykktum. Engu að síður er þó rétt að túlka það — sem það og er — sem visst skref í rétta átt svo fremi sem — einasta hættan í málinu að mínu mati er sú að þetta verði notað sem eitthvert yfirskin að menn sofni á verðinum, eða afsökun fyrir því að nú sé búið að koma málunum í farveg.

Hættan gagnvart stéttarfélögunum og trúnaðarmönnum þeirra er sú að menn fari að segja: Hvað eruð þið að skipta ykkur af þessu, þetta er verkefni Vinnumálastofnunar. Það má ekki verða þannig. Þess vegna verður þetta að vera samvinna Vinnumálastofnunar og stéttarfélaganna og það verður að vera algerlega á hreinu að þau njóti stuðnings stjórnvalda til að beita sér áfram í þessum slag. Hann hefði mátt vera meiri fram að þessu. Þess vegna er ástæða til, herra forseti, að mæla þessi varnaðarorð.