132. löggjafarþing — 40. fundur,  9. des. 2005.

Starfsmannaleigur.

366. mál
[14:10]
Hlusta

Pétur H. Blöndal (S):

Herra forseti. Við ræðum frumvarp til laga um starfsmannaleigur og við ræðum nefndarálit frá félagsmálanefnd sem er undirritað af flestöllum þingmönnum nema hv. þm. Magnúsi Þór Hafsteinssyni og mér, og það er af þeim ástæðum sem ég ætla að fara í gegnum frumvarpið.

Í fyrsta lagi er ég með efnislegar athugasemdir við frumvarpið eins og það liggur fyrir.

Með leyfi herra forseta, vil ég lesa 1. gr.:

„Gildissvið.

Lög þessi gilda um starfsmannaleigur á innlendum vinnumarkaði.

Með starfsmannaleigu er átt við þjónustufyrirtæki sem samkvæmt samningi leigir út starfsmenn sína gegn gjaldi til að sinna störfum á vinnustað notendafyrirtækis undir verkstjórn þess síðarnefnda.“

Mér sýnist að þetta ákvæði nái til fjölda íslenskra fyrirtækja. Þegar bilar hjá mér pípulögn og fer að leka hringi ég í þjónustufyrirtæki pípulagningamanns og hann kemur til mín, gerður er munnlegur samningur um að hann vinni fyrir mig. Ég segi honum: Þarna lekur krani. Ég tékka á að hann sé mættur og svoleiðis, hann vinnur sem sagt undir minni verkstjórn á vinnustað mínum. Þá er píparafyrirtækið orðið starfsmannaleiga. Menn geta ímyndað sér hvað þetta gerist víða.

Þegar fyrirtæki gerir samning, t.d. eins og Þorgeir og Ellert við Sementsverksmiðjuna einu sinni, gerir samning um að vinna ákveðið verk og sendir menn inn í fyrirtækið, þá er það líka starfsmannaleiga því það er vinna samkvæmt fyrirskipun á vinnustað þess sem leigir þá. (Gripið fram í: …að leigja út starfsmenn?) En það er samt sem áður starfsmannaleiga.

Þá kemur nefnilega spurningin um verktökuna, herra forseti. Ég er búinn að leita að því og ég hef ekki séð neins staðar skilgreiningu á hvað er verktaka. Mér sýnist að öll verktaka sé nánast orðin starfsmannaleiga. Það hefur ekki verið skilgreint hvað verktaka er þó að það sé nefnt í mörgum lögum. Mjög víða í lagasafninu er verktaka nefnd, en ég hef ekki séð skilgreiningu á því. Ég held því að menn séu komnir út á ansi hálan ís.

Í hv. félagsmálanefnd vorum við fullvissuð um það af ráðuneytum og öðrum að þetta yrði nú ekki framkvæmt svona. Það er nú ágætt. Það ætlar einhver að fara að framkvæma eins og honum finnst að lögin eigi að vera.

Í nefndarálitinu er tekið fram, með leyfi hæstv. forseta:

„Á fundum nefndarinnar var rætt um skilgreiningu hugtaksins starfsmannaleiga og í einstaka umsögnum kom fram gagnrýni á það hvernig hugtakið er skilgreint 2. mgr. 1. gr. frumvarpsins. Til að taka af öll tvímæli skal tekið fram að það er hvorki ætlun löggjafans að lögin nái til þess þegar um tilfallandi lán á starfsmönnum er að ræða, né heldur verktakasamninga.“

Af hverju í ósköpunum er þetta ekki sett í lögin ef þetta er meining löggjafans? Af hverju ekki?

Þessi ákvæði eru svo opin. Síðan kemur nefnilega að því að starfsmannaleigum ber að tilkynna sig til Vinnumálastofnunar og eiga að senda þeim afrit af þjónustusamningum og ráðningarsamningum, bara allan pakkann. Ef þær ekki gera það geta þær sætt því að lokað sé á þær.

Nú er það þannig að fyrirtæki úti í bæ, eins og þessi ágæta pípulagningaþjónusta sem ég hringi í, hlýtur að þurfa, til að vera öruggt um að það fari að lögum, að senda, dæla inn upplýsingum til Vinnumálastofnunar um ráðningarsaminga o.s.frv. sem og öll önnur fyrirtæki í landinu meira og minna ef þau að ætla að stunda svona starfsmannaleigu. Ég sé ekki hvernig hægt er að framkvæma lögin öðruvísi en þau segja, af því að annars myndast ákveðin lagaóvissa hjá þeim aðilum sem eiga að hlíta þeim. Við erum sem sagt komin með opinbert eftirlit með ráðningarsamningum, herra forseti. Búið er að negla niður vinnumarkaðinn í þá veru að einhverjir opinberir starfsmenn eiga að fylgjast með ráðningarkjörum í landinu. Ég held að þetta sé ekki það sem menn vilja, hvorki aðilar vinnumarkaðarins né við hv. þingmenn.

Þetta er ein ástæðan fyrir því að ég skrifaði ekki undir nefndarálitið, en það er fleira. Í gegnum tíðina hefur það verið svo að stærstu mál sem varða velferðarkerfið á Íslandi, skylduaðild að lífeyrissjóðum, skyldugreiðslur til sjúkrasjóða, starfskjör launþega o.s.frv. eru ekki samin af Alþingi og þau eru ekki samin af ríkisstjórn sem situr í skjóli Alþingis. Þau eru samin af aðilum vinnumarkaðarins og þau eru yfirleitt samin um blánótt, stundum klukkan sex að morgni á sunnudögum þar sem fara á að skrifa undir kjarasaminga. Ég held meira að segja að fyrstu lögin, frá 1974, um skylduaðild að lífeyrissjóðum, skyldugreiðslur í lífeyrissjóð, bara bingó, allir Íslendingar eiga að borga 10% af launum í lífeyrissjóð, hafi verið samþykkt klukkan sex að morgni í einhverjum félagsmálapakkanum. Það er nú aldeilis mikil hugsun á bak við það. Þessi lög voru samþykkt, það má ekki breyta stafkrók á Alþingi, þau eru þess eðlis, því þá fara kjarasamningarnir í uppnám með alls konar hótanir og alþingismenn verða að gjöra svo vel að stimpla samninginn sem lög frá Alþingi. Þvílík er niðurlæging Alþingis þrátt fyrir að við höfum svarið eið að stjórnarskrá þar sem við eigum að fara að sannfæringu okkar og þrátt fyrir að Alþingi hafi eitt löggjafarvaldið í landinu.

Ég hef margoft bent á að það eru sárafá lög sem Alþingi samþykkir sem það hefur samið sjálft, sem hv. þingmenn hafa samið sjálfir, sem er náttúrlega ákaflega slæmt. Það er slæmt fyrir þjóðina vegna þess að þá gerist það að þeir sem framkvæma lögin eða hafa hagsmuni ná lögum í gegn en ekki fulltrúar sem kosnir eru af þjóðinni og það er mjög alvarlegt mál. Það sem er athyglisverðast í þessu er að undir þetta nefndarálit rita hv. stjórnarandstæðingar. Fulltrúar Samfylkingarinnar rita undir þetta nefndarálit, reyndar með fyrirvara, en þeir rita undir það samt. Þeir beygja sig samt í duftið. (Gripið fram í: Eru þeir ekki með breytingartillögur?) Þeir rita undir nefndarálitið.

Nú er það svo að það getur verið ágætt að skylda alla þjóðina til að borga í lífeyrissjóði eins og gert var 1974 og 1980. En vita menn hvað gerðist? Það voru engin lög til um lífeyrissjóði. Það var ekki einu sinni vitað hvað þessar ágætu stofnanir ættu að gera. Það voru ekki til nein lög um lífeyrissjóði, ekkert eftirlit, ekkert bókhald, engin krafa um eitt eða neitt eða hvort þeir ættu að borga einhvern lífeyri eða ekki. Þau voru ekki sett fyrr en sennilega tveimur áratugum seinna. Þá voru sett lög um eftirlit eftir að nokkrir lífeyrissjóðir fóru á hausinn og aðrir höfðu rýrnað svo og brunnið upp í verðbólgu að þeir nánast hurfu og það varð gífurleg kjaraskerðing hjá mörgum lífeyrisþegum. Þá loksins voru sett lög um lífeyrissjóði og það tók reyndar 13 ár, held ég, ein nefndin starfaði í 13 ár, hún var komin á fermingaraldur þegar hún loksins kom frá sér frumvarpi. Og ekki er enn þá, herra forseti, búið að setja nein lög um sjúkrasjóði. Þó að landslýður sé allur skyldaður til að borga 1% af launum í sjúkrasjóði eru engin lög til um það. Það veit enginn neitt, þetta er bara er sjúkra- eitthvað. Það veiti enginn hvað þessir sjúkrasjóðir eiga að gera, það er ekkert eftirlit með þeim. Þeir heyra ekki undir Fjármálaeftirlitið, það er ekki einu sinni bókhaldsskylda. Landslýður er skyldaður til að borga 1% af launum í sjúkrasjóði en það er ekkert um það hvað gera eigi með þessa peninga, þannig að lagasetning, herra forseti, á höndum aðila vinnumarkaðarins er bara ekki nógu góð. Það er þess vegna sem ég skrifa ekki undir þetta nefndarálit og ég mun ekki geta greitt þessu frumvarpi atkvæði mitt, bæði út af efnislegum ástæðum og líka út af þessu.

Í Morgunblaðinu sem ég las fyrr í dag er haft eftir Grétari Þorsteinssyni, forseta Alþýðusambands Íslands, sem hv. þm. Össur Skarphéðinsson kallaði „kontóraveldi úti í bæ“. — Það er rétt, þetta er veldi, þetta eru völd sem eru á einhverjum kontórum úti í bæ. Hv. þm. Össur Skarphéðinsson, fyrrverandi formaður Samfylkingarinnar, hitti naglann á höfuðið þegar hann sagði að ASÍ, verkalýðshreyfingin hér á landi, væri kontóraveldi úti í bæ. (Gripið fram í.) Það sagði hann orðrétt. — Forseti Alþýðusambands Íslands, Grétar Þorsteinssson, sagði í Morgunblaðinu 7. desember að hann hefði lagt áherslu á að frumvarpinu yrði ekki breytt, það sagði hann líka í hv. félagsmálanefnd, og með leyfi herra forseta, ætla ég að lesa hér:

„Í samkomulagi ríkisstjórnarinnar, Samtaka atvinnulífsins og ASÍ „hafi verið sammælst um frumvarpið, eins og það var síðan lagt fram“, segir Grétar. Hann segir að löggjöf um starfsmannaleigur hafi verið eitt helsta baráttumál ASÍ að undanförnu. Þrýst hafi verið á um slíka löggjöf á síðasta vorþingi, en það hafi ekki tekist. „Í samkomulaginu er sammælst um frumvarpið eins og það lítur út núna og við leggjum áherslu á að það verði samþykkt þannig“.“

Það á ekki að gera neinar breytingar á þessu og þar sem Alþingi var ekki nógu duglegt að samþykkja tillögur sem lágu fyrir tóku þeir sig bara til og samþykktu þetta fyrir Alþingi og nú rennur þetta ljúflega í gegn fyrir áramót, herra forseti. Þetta verður samþykkt, stjórn og stjórnarandstaða sjá til þess.

Í nefndarálitinu segir eftirfarandi um starfshóp sem félagsmálaráðherra skipaði, með leyfi herra forseta:

„Í starfshópnum áttu sæti fulltrúar frá Alþýðusambandi Íslands, Samtökum atvinnulífsins og félagsmálaráðuneyti. Samstaða náðist um að sett yrðu sérlög um starfsmannaleigur og gerðu fulltrúar aðila samkomulag um þau atriði sem fram koma í því frumvarpi sem hér hefur verið lagt fram. Samkomulagið náðist 15. nóvember sl. og var það ein af forsendum þess að ekki kom til uppsagnar kjarasamninga á almennum vinnumarkaði.“

Þetta stendur í nefndarálitinu, herra forseti. Forsenda þess að gerðir verði kjarasamningar er að þetta skuli samþykkt óbreytt. Svo geta hv. þingmenn talað hér fjálglega um minni háttar mál.