132. löggjafarþing — 40. fundur,  9. des. 2005.

Starfsmannaleigur.

366. mál
[14:23]
Hlusta

Mörður Árnason (Sf) (andsvar):

Forseti. Það hefur viðgengist á Vesturlöndum, einkum í þeim löndum þar sem velferðarkerfið er sterkt og samfélagið fer fram með þokkalegum hætti og menn ganga hver við annars hlið, að samfélagsstefna er m.a. mótuð í þríhliða samningaviðræðum atvinnurekenda, verkalýðshreyfingar og ríkis. Ég tel að þetta hafi orðið til gæfu í þeim samfélögum þar sem þessi siður hefur tekist upp og sé augljós galli í öðrum samfélögum þar sem þetta hefur ekki gerst. Ég get nefnt t.d. Bandaríki Norður-Ameríku þar sem þetta er ekki svo og á m.a. þátt í þeim gríðarlega stétta- og tekjumun sem ríkir í því landi og mætti reyndar nefna önnur Evrópulönd hér til dæmis.

Þarna munar á milli mín og hv. síðasta ræðumanns, en ég er hins vegar sammála honum í því að við höfum kannski ekki fágað og þroskað þetta samstarf hér og þessar samræður eins og vera ætti. Til dæmis er það auðvitað klaufalegt að inn á þingið komi frumvörp sem a.m.k. í orði eru sögð nákvæmlega samin í svona viðræðum og Alþingi þar með kúplað út úr eða ætlast til að það kúpli sjálfu sér út úr löggjafarstarfinu sem er þó fyrsta og fremsta hlutverk þess.

En þyrfti það að vera svo, spyr ég, forseti, hv. þm. Pétur Blöndal, ef Alþingi hefði druslast til þess og framkvæmdarvaldið hjálpað til þess að semja slík lög um starfsmannaleigur sem hér hefur verið beðið eftir í a.m.k. tvö ár og hæstv. félagsmálaráðherra hefði sett þetta starf í gang sjálfur, eins og honum auðvitað bar skylda til strax og þetta málefni kom upp í samfélaginu, sem það gerði auðvitað með hinum mikla innflutningi erlendra starfsmanna við Kárahnjúkavirkjun, sem mátti sjá fyrir. (Forseti hringir.) Er þingmaðurinn ekki sammála mér að vanræksla ríkisstjórnarinnar eigi hér hlut að máli miklu fremur en nokkuð annað?