132. löggjafarþing — 40. fundur,  9. des. 2005.

Starfsmannaleigur.

366. mál
[14:25]
Hlusta

Pétur H. Blöndal (S) (andsvar):

Herra forseti. Það er dapurlegt að heyra fulltrúa á löggjafarsamkundunni vísa til framkvæmdarvaldsins um lagasetningu. Auðvitað áttu þingmenn sjálfir að vinna að þessu máli. Það var augljós vandi í þjóðfélaginu (Gripið fram í.) og ég vil taka fram að ég geri mér fullkomlega grein fyrir vandanum og ég er alveg sammála því að hann þurfi að leysa. Ég vil hins vegar ekki að menn geri það undir því helgislepjuáliti að menn séu að hjálpa erlendum verkamönnum því að þeir koma ekki til landsins, þeir fá ekki þessa vinnu ef menn ná fram markmiðum sínum. Það er ekki verið að gera neitt fyrir þá.

En það er nauðsynlegt að halda uppi því kerfi sem við höfum hér á vinnumarkaði, því lágmarkskerfi, ég er alveg sammála því, en þingmenn áttu sjálfir að vinna að þessu, hv. félagsmálanefnd hefði átt að vinna að þessu. (Gripið fram í: … frumkvæðið.) Það vantar frumkvæðið, það vantar hreinlega hefðina fyrir því að þingmenn vinni slík mál. Menn kalla á framkvæmdarvaldið, ráðherrana sem eiga að framkvæma lögin. Og svo þegar aðilar vinnumarkaðarins grípa til sinna ráða og semja lagafrumvarp gerist það ekki þannig að þeir biðji okkur um að semja eitthvað í þessa veru. Nei, nei, þeir koma með fullbúinn texta. Það er það sem ég er á móti. Það kom beiðni frá aðilum vinnumarkaðarins um að gera nokkrar breytingar á vátryggingarsamningum. Ég lít allt öðruvísi á það. Það var beiðni um að gera breytingu, það er allt annað en skipun um að framkvæma eitthvað óbreytt. Ég held að þetta sé mjög mikið vandamál.

Auðvitað ætti þingið að hafa miklu meira frumkvæði að því að taka á alls konar velferðarmálum og þróa velferðarkerfið og hafa einhver markmið og skoðanir í sambandi við það hvernig velferðarkerfið eigi að vera. Ég er með ákveðnar skoðanir í þeim málum og hef flutt um það frumvörp.