132. löggjafarþing — 40. fundur,  9. des. 2005.

Starfsmannaleigur.

366. mál
[14:27]
Hlusta

Mörður Árnason (Sf) (andsvar):

Ég er alveg sammála hv. þm. Pétri Blöndal um það að hér ætti að vera miklu meiri umræða og löggjafarstarf í kringum velferðarkerfið eða velferðarþjónustuna og þróun hennar en verið hefur. Hverjum ætli sé um að kenna? Ætli það sé velferðarandstæðingunum í Samfylkingunni, Vinstri hreyfingunni – grænu framboði og Frjálslynda flokknum að kenna? Nei, ætli það sé ekki hreðjatakinu sem framkvæmdarvaldið hefur á stjórnarmeirihlutanum sem hér er um að kenna?

Þó að við séum sammála um þetta frábið ég mér athugasemdir eins og þingmaðurinn var með hér í upphafi, um að ég væri að biðja framkvæmdarvaldið um einhverja lagasetningu í þessu. Við samfylkingarmenn höfum tvisvar sinnum flutt þingsályktunartillögu sem var í eðli sínu frumkvæði að löggjafarstarfi, gerði ráð fyrir að sett væri á stofn nefnd til að hefja löggjafarstarf um starfsmannaleigur. Mig minnir að framkvæmdarvaldið hafi ekki átt að eiga neinn hlut að þeirri nefnd. Hverjir ætli hafi nú ekki samþykkt þetta? Ætli það hafi ekki verið stjórnarmeirihlutinn, sá sami og er hér undir hæl framkvæmdarvaldsins? Mér er þetta minnisstætt vegna þess að annaðhvort í fyrsta eða annað skiptið flutti aumingi minn framsöguræðu í þessu máli í fjarveru 1. flutningsmanns sem var Össur Skarphéðinsson, sem einkum hefur af okkar hálfu í stjórnarandstöðunni beitt sér fyrir þessu. Það var því tækifæri til þess, forseti, fyrir Pétur Blöndal að styðja þetta mál þá, að styðja það sjálfstæða löggjafarstarf á Alþingi sem við lögðum til. En hann gerði það ekki og hann situr þá uppi með að þurfa núna nauðugur viljugur, sem hluti af þessum stjórnarmeirihluta, að sætta sig við að lögin séu samin úti í bæ eins og mig minnir að hann hafi kallað það sjálfur.