132. löggjafarþing — 40. fundur,  9. des. 2005.

Starfsmannaleigur.

366. mál
[14:29]
Hlusta

Pétur H. Blöndal (S) (andsvar):

Herra forseti. Ég kann nú aldrei við orðalag eins og hreðjatak og slíkt, það er dálítið leiðinlegt að nota svoleiðis í málefnalegri umræðu.

Það er rétt hjá hv. þingmanni að ég held að þingmenn ættu allir að taka höndum saman um það að breyta því hvernig lagafrumvörp verða til. Ég hef nefnt það mörgum sinnum að það er hvorki í þágu framkvæmdarvaldsins né aðila vinnumarkaðarins né þjóðarinnar í heild að aðrir en þingmenn semji frumvörp. Svo ættu þingmenn eða þingnefndir að senda frumvörp til umsagnar til ráðuneyta, til aðila vinnumarkaðarins til að sjá hvernig gengur að framkvæma þau, í staðinn fyrir að við fáum það til umsagnar til að kanna hvernig gengur að framkvæma þau.

Ég vildi því gjarnan koma að þeirri hugmynd og hef gert það áður mörgum sinnum að Alþingi breyti þessari vinnureglu og jafnframt hætti Alþingi að hafa áhrif á framkvæmdir með alls konar breytingum í fjárlagafrumvarpi um að reisa kofa hér og rækta hund þar. Ég vildi gjarnan að menn notuðu þetta tækifæri þar sem kviknað hefur ljós hjá mörgum þingmönnum og þeir finna hvað þeim líður illa að þurfa að stimpla eitthvert samkomulag úti í bæ, og þeir tækju sér tak og færu að vinna málefnalega að málum sem brýn þörf er á að leysa. Það gæti komið ábending frá aðilum vinnumarkaðarins eða ráðuneytum til þingnefnda um að vinna þyrfti þetta eða hitt málið, nefndin ákvæði hvort hún gerði það eða ekki, hún ynni síðan frumvarpið, hún semdi það sjálf með aðstoð nefndadeildar Alþingis.