132. löggjafarþing — 40. fundur,  9. des. 2005.

Starfsmannaleigur.

366. mál
[14:58]
Hlusta

Ingibjörg Sólrún Gísladóttir (Sf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Það kom mér ekki á óvart að heyra hv. þm. Einar Odd Kristjánsson leggja á það áherslu að samkomulag sem aðilar vinnumarkaðarins gera sín á milli og við ríkisstjórnina skipti verulegu máli og það sé ekki spurning um að beygja sig í duftið þó að slíkt samkomulag komi til kasta Alþingis, til meðferðar Alþingis og hljóti samþykki á þingi. Mér fannst ánægjulegt að heyra það.

Ég er hv. þingmanni sammála um að samkomulag vinnumarkaðarins skiptir gríðarlegu máli fyrir efnahagslífið. Þar skipta þrír þættir meginmáli. Þeir eru ríkisfjármálin, stjórn peningamála og samkomulag aðila vinnumarkaðarins um kjaramál. Við eigum auðvitað að vaka yfir því eins og ríkisstjórnin og enginn má efast um, eins og fram kom hjá honum, að ríkisstjórn hafi afl til að fylgja slíku fram.

Það hefur komið fram hjá stjórnarandstöðunni, ég veit ekki betur en að það sé einróma niðurstaða stjórnarandstöðunnar, að hún styðji frumvarpið. En það er ekki hægt að meina mönnum að koma fram með skoðanir á því sem betur hefði mátt fara í þessu máli. Það má vafalítið bæta án þess að það skaði aðila vinnumarkaðarins nokkuð. Það er ekki eins og við séum að ræða um fjárhagslega þætti, að breyta kjarasamningum eða annað slíkt. Við bendum hins vegar á hluti sem bæta mætti án þess að skaða aðila vinnumarkaðarins. En stuðningurinn við frumvarpið stendur.