132. löggjafarþing — 40. fundur,  9. des. 2005.

Starfsmannaleigur.

366. mál
[15:04]
Hlusta

Frsm. félmn. (Siv Friðleifsdóttir) (F):

Virðulegur forseti. Ég vil í lok umræðunnar sérstaklega taka á því sem hér hefur komið fram, þ.e. að aðilar vinnumarkaðarins hafi sett félagsmálanefnd með einhverjum hætti stólinn fyrir dyrnar. Ég vil gjarnan að allir sem komu fyrir nefndina njóti sannmælis og réttmætis. Ég vil taka það skýrt fram að aðilar vinnumarkaðarins sögðu aldrei á fundum nefndarinnar, eins og þingmenn hafa sagt í umræðunni, að frumvarpið yrði að fara óbreytt í gegn, að það væri skipun að frumvarpið færi óbreytt í gegn, það er ekki rétt. Þeir lögðu hins vegar áherslu á að þeir hefðu gert samkomulag.

Aðilar vinnumarkaðarins báðu ekki um að gerðar yrðu breytingar á frumvarpinu, þeir virða auðvitað löggjafann og það kom fram. Að sjálfsögðu eiga þeir von á því að við samþykkjum efnisinnihald samkomulagsins sem frumvarpið felur í sér á þeim nótum sem þeir sömdu um. Auðvitað búast aðilar vinnumarkaðarins við því. Af hverju ættu þeir að öðrum kosti að leggja mikla og erfiða vinnu í að gera samkomulag? Það er því alveg ljóst að þeir sögðu aldrei í nefndinni að það væri krafa þeirra að þetta færi óbreytt í gegn en þeir báðu ekki um breytingar. Þær breytingartillögur við frumvarpið sem nú liggja fyrir fela í sér eðlisbreytingu á málinu, mikla eðlisbreytingu.

Ég vil í lok umræðunnar bera svolítið blak af aðilum vinnumarkaðarins. Þeir létu aldrei þau orð falla í nefndinni að það mætti ekki gera breytingar á frumvarpinu en að sjálfsögðu búast þeir ekki við þeim.