132. löggjafarþing — 40. fundur,  9. des. 2005.

Starfsmannaleigur.

366. mál
[15:07]
Hlusta

Mörður Árnason (Sf) (andsvar):

Forseti. Andsvar mitt er í því formi að ég fagna mjög ummælum hv. þm. Sivjar Friðleifsdóttur, formanns félagsmálanefndar, vegna þess að þau eru gersamlega andstæð fullyrðingum síðasta ræðumanns á undan henni, hv. þm. Einars Odds Kristjánssonar, sem lét þannig að verkalýðshreyfingin annars vegar og atvinnurekendur hins vegar stæðu með svipuna yfir mönnum að samþykkja orðrétt þann texta sem þeir hefðu með einhverjum hætti samið og ætluðust til í þríhliða samningum ríkisstjórnar, verkalýðshreyfingarinnar og atvinnurekenda að fjórði aðilinn, Alþingi Íslendinga, samþykkti. Það var svo fráleit túlkun hjá hv. þm. Einari Oddi Kristjánssyni að maður hélt að hann væri úti að aka en það var hann ekki heldur stóð hann hér í ræðustól og þrumaði þetta yfir þingmönnum eins og þeir væru annaðhvort börn eða með greind langt fyrir neðan meðallag og var auðvitað rétt hjá hv. þm. Siv Friðleifsdóttur að koma upp og leiðrétta þetta.

Þegar ríkisstjórnin gerir þessa samninga, ég var að hrósa þeirri almennu aðferð áðan, þá hefur hún sinn þingmeirihluta og skuldbindur stjórnarandstöðuna líka að einhverju marki þegar um landsins gagns og nauðsynjar er að tefla. En það er auðvitað ekki þannig, eins og hefur verið sagt frá fyrstu orðum okkar stjórnarandstæðinga í 1. umr. um málið, að nokkur maður geti skuldbundið Alþingi til eins eða neins, sérstaklega ekki þegar um er að ræða breytingar sem ekki varða grunneðli málsins, eins og þær breytingar sem við samfylkingarmenn leggjum til, sem tryggja enn frekar réttarstöðu þeirra sem heyra undir lögin og bæta við þáttum í því réttarríki sem við erum að reyna að byggja upp og því sambandi sem við erum að reyna að ná við aðrar þjóðir á tímum alþjóðavæðingar.