132. löggjafarþing — 40. fundur,  9. des. 2005.

Starfsmannaleigur.

366. mál
[15:10]
Hlusta

Mörður Árnason (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það kemur mér satt að segja furðulítið við hvað hv. þm. Siv Friðleifsdóttur finnst skynsamlegt í málinu eða ekki. Það sem mér kemur við og ég fagnaði áðan er sú yfirlýsing hennar að þau samtök sem hér um ræðir, heildarsamtök atvinnurekenda annars vegar og verkalýðshreyfingin hins vegar, þ.e. Alþýðusamband Íslands fyrst og fremst, stilltu félagsmálanefnd og þar með Alþingi ekki upp við vegg í málinu, eins og hv. þingmaður kýs að orða það, heldur sögðu: Við gerum ekki tillögur til breytinga á samkomulaginu en auðvitað virðum við rétt Alþingis til að gera þær. Þá er spurning hvort Alþingi vill gera það og það höfum við í stjórnarandstöðunni viljað með því að virða grunneðli frumvarpsins sem við báðum um. Við höfum flutt tillögur um að slík lög verði sett en viljum færa frumvarpið til betri vegar vegna þess að okkur þykja þau ákvæði sem varða þarna tvo sérstaka hluti ekki gæfuleg og viljum breyta þeim. Í hvers þágu er það? Í þágu verkamannanna sem um er að ræða og í þágu verkalýðshreyfingarinnar og grunnhugsunar þess frumvarps sem um er að ræða.

Þetta sem hv. þm. Siv Friðleifsdóttir sagði, þ.e. að þau samtök sem um er að ræða hafi ekki sett sig á móti breytingum Alþingis, enda væri það furðudjarfmannlegt af þeim, skiptir öllu máli vegna þess að það gengur þvert gegn því sem hv. þm. Einar Oddur Kristjánsson sagði áðan, að við værum bundin, ekki bara núna heldur um alla framtíð, af því samkomulagi sem þessi tvenn samtök kynnu að gera. Ég náði því ekki hvort það væri hvor við önnur eða hvort ríkisstjórnin var nauðsynlegur liður í því.

Ég þakka hv. þm. Siv Friðleifsdóttur fyrir að hafa með skorinorðum hætti skýrt frá því að skilningur hv. þm. Einars Odds Kristjánssonar er ekki hennar skilningur og ekki þeirra samtaka sem sendu fulltrúa sína á fund félagsmálanefndar.