132. löggjafarþing — 40. fundur,  9. des. 2005.

Tekjustofnar sveitarfélaga.

364. mál
[15:48]
Hlusta

Frsm. félmn. (Siv Friðleifsdóttir) (F):

Virðulegur forseti. Ég mæli fyrir nefndaráliti hv. félagsmálanefndar um frumvarp til laga um breytingu á lögum um tekjustofna sveitarfélaga, nr. 4/1995, með síðari breytingum. Þetta nefndarálit er á þskj. 529 og er 364. mál þingsins.

Nefndin hefur fjallað um málið og fengið á sinn fund gesti.

Efni frumvarpsins er þríþætt. Í fyrsta lagi að undanþágum frá greiðslu fasteignaskatts verði fækkað. Verði frumvarpið að lögum mun breytingin skila sér í 600 millj. kr. aukningu á tekjum frá ríki til sveitarfélaga þar sem þær undanþágur sem í gildi eru nú varða helst fasteignir í eigu ríkissjóðs. Lagt er til að beinar styrkveitingar verði meginreglan framvegis.

Í frumvarpinu er gerð tillaga um að sveitarfélögin leggi fasteignaskatt á í Landskrá fasteigna frá 1. janúar 2007 og álagningin fari þannig fram í einu heildstæðu skráarumhverfi. Ástæða þess er einkum sú að auka hagkvæmni og öryggi.

Virðulegur forseti. Í umsögn Sambands íslenskra sveitarfélaga kemur fram að fasteignaskattur sé annar mikilvægasti tekjustofn sveitarfélaga og af hálfu sambandsins hafi verið lögð áhersla á að ákvörðunarvald um álagningarhlutfall gjalda og innheimta skattsins sé hjá sveitarfélögunum. Á því, virðulegi forseti, verða ekki breytingar með þessu frumvarpi þannig að sveitarfélögin halda öllu því frelsi sem þau hafa varðandi það í dag.

Hvað varðar þá tillögu sem er gerð um fækkun undanþágna kom sú spurning fram í umræðum í nefndinni hvort undanþága elli- og örorkulífeyrisþega, skv. 4. mgr. 5. gr. laganna, muni falla niður verði frumvarpið að lögum. Virðulegur forseti. Sú er ekki raunin, sbr. 4. efnisgrein 4. gr. frumvarpsins.

Hv. þm. Lúðvík Bergvinsson og hv. þm. Magnús Þór Hafsteinsson skrifa undir álitið með fyrirvara en nefndin leggur til að frumvarpið verði samþykkt með eftirfarandi breytingu sem gerð er tillaga um í sérstöku þingskjali:

1. Lagt er til að tekið sé fram að álagning sé árleg og stofn til álagningar séu allar fasteignir í fasteignamati 31. desember næstliðins árs.

2. Þá er gerð tillaga um breytt orðalag í tilvísun í lögum um heilbrigðisþjónustu.

3. Lagt er til að orðin „mannvirki og lóðir“ séu notuð í stað orðsins „fasteign“.

4. Lagt er til að tekið sé fram í 2. efnisgr. 4. gr. að ákvæðið nái einnig til íþróttamannvirkja.

5. Að lokum er lagt til að 2. mgr. 20. gr. laganna verði breytt í samræmi við lög um tekjuskatt og eignarskatt, nr. 90/2003.