132. löggjafarþing — 40. fundur,  9. des. 2005.

Tekjustofnar sveitarfélaga.

364. mál
[15:55]
Hlusta

Jón Bjarnason (Vg):

Frú forseti. Þetta frumvarp til laga um breytingu á lögum um tekjustofna sveitarfélaga felur í sér að verið er að heimila, eða í rauninni að skylda, víðtækari skattheimtu á mannvirkjum og m.a. á félagslegum mannvirkjum — sem ég vil gera athugasemdir við. Hér er lagt til að fasteignaskatta megi leggja á sjúkrastofnanir, samkvæmt heilbrigðislögum, skóla, heimavistir, leikskóla, íþróttahús og bókasöfn.

Nú er það svo að mörg sveitarfélög hafa með sér samstarf um byggingu og rekstur slíkra mannvirkja víða um land. Verði þetta sjálfstæður skattstofn til sveitarfélagsins þar sem viðkomandi mannvirki er staðsett vekur það deilur og togstreitu um það eðlilega samstarf.

Þarna er líka verið að heimila skattlagningu á ríkisstofnunum, húsnæði sem oft eru skiptar skoðanir um hvar eigi að vera. Við þekkjum umræðuna á milli Kópavogs, Reykjavíkur, Mosfellsbæjar, Garðabæjar, Hafnafjarðar, svo fátt eitt sé nefnt, þar sem visst kapphlaup er um að ná ríkisstofnunum til sín, að ekki sé minnst á landsbyggðina. Mörg sveitarfélög fá engar slíkar ríkisstofnanir, mannvirki, sem nú eiga að verða skattstofn fyrir viðkomandi sveitarfélag. Þetta er önnur ástæðan.

Hin ástæðan er sú að ég tel að þau félagslegu mannvirki sem þarna er verið að tala um eigi að njóta skattfríðinda því að samfélagið sjálft borgar þessa skatta, þeir deilast út á það. Þetta eru stofnanir sem reknar eru á samfélagslegum grunni á ábyrgð okkar allra landsmanna. Við öxlum líka ábyrgðina á þessari skattheimtu fyrir utan þann gríðarlega ávinning sem sveitarfélag sem fær slíkt mannvirki til sín hefur oft og tíðum, og veldur miklum deilum. Ég tel að þarna sé verið að ganga rangan veg og get ekki stutt það þó ég fagni því að að þessu sinni sé ekki lagt til að leggja fasteignaskatta á kirkjur og bænahús, hús trúfélaga og safnahús sem ekki eru rekin í ágóðaskyni. Það virðist vera það eina sem á að undanskilja.

Frú forseti. Ég vil gera grein fyrir þessu. Ég tel að þarna sé verið ganga rangan veg hvað varðar félagslegt og opinbert húsnæði í eigu ríkis og sveitarfélaga. Ég get því ekki stutt þetta frumvarp.