132. löggjafarþing — 40. fundur,  9. des. 2005.

Málefni aldraðra.

174. mál
[16:11]
Hlusta

Frsm. heilbr.- og trn. (Pétur H. Blöndal) (S) (andsvar):

Frú forseti. Á síðasta ári lagði ég fram þá hugmynd sem ég jafnframt lagði fram í nefndinni núna, að persónuafsláttur yrði lækkaður sem næmi þessari upphæð. Það kemur nokkurn veginn eins út og er miklu einfaldari skattlagning. Ég nenni hins vegar ekki, frú forseti, að koma með sama fyrirvarann ár eftir ár. Þá fer maður að virka eins og biluð plata, en ég held þessu hins vegar til haga og man þetta því þetta er ekki góð skattlagning. Hún er ófélagsleg og algerlega óþörf því að Alþingi hefur fjárveitingavald engu að síður og eins og kom fram í andsvari hv. þingmanns hefur hluti af þessu farið til rekstrar og það undirstrikar eiginlega löggjafarvald og fjárveitingavald Alþingis.

Ég væri hlynntur því að stærri hluti færi til stofnkostnaðar en það hefur verið gert heilmikið átak í því efni engu að síður þannig að þetta gjald hefur nýst nokkuð vel. Ég held að ég sé búin að svara hv. þingmanni að öllu leyti.