132. löggjafarþing — 40. fundur,  9. des. 2005.

Búnaðargjald.

332. mál
[16:31]
Hlusta

Pétur H. Blöndal (S):

Herra forseti. Á þskj. 338, 311. mál, er frumvarp til laga um búnaðargjald þar sem ég legg til að allur lagakaflinn verði felldur niður. Mér hefði nú þótt eðlilegt, herra forseti, að það yrði rætt samhliða þar sem sú lagasetning gengur lengra. Það sem núna stendur eftir af búnaðargjaldinu er eingöngu félagsgjöld og eilítið gjald til Bjargráðasjóðs, sem er tryggingafélag eins og hvert annað tryggingafélag. Hann gæti í raun starfað sjálfstætt. Sumir bændur eru undanþegnir því að greiða í Bjargráðasjóð þannig að þeir gætu þess vegna greitt þangað áfram sem vildu og hinir látið það vera.

Á dagskrá þingsins í dag, undir dagskrárlið 23, um verslunaratvinnu, er svipað dæmi þar sem ríkið innheimtir gjöld fyrir einstaklinga af uppboðum á myndlist. Ég benti á að það fengi varla staðist stjórnarskrána, að innheimta með skattlagningarvaldi ríkisins gjöld sem renna til einstaklinga og félagasamtaka.

Það er einmitt það sem situr eftir af búnaðargjaldinu, þ.e. álögur á alla bændur í landinu fyrir að eiga aðild að einhverjum félögum sem eru tilgreind. Þetta eru opinber stéttarfélög nákvæmlega eins og í Sovétríkjunum. Við getum ímyndað okkur hvernig það er ef maður er neyddur til að greiða félagsgjald til félags sem hefur stefnu sem hann er andsnúinn. Segjum að hann sé á móti þeirri stefnu. Hann er þar með látinn fjármagna útbreiðslu á skoðunum sem hann er andsnúinn. Þetta brýtur bæði félagafrelsisákvæði stjórnarskrárinnar, skattlagningarákvæði og skoðunarfrelsisákvæði stjórnarskrárinnar. Ég mundi vilja að menn skoðuðu hreinlega í alvöru að leggja þetta niður sem allra fyrst.